föstudagur, apríl 04, 2003

Einiber –Reyniber

Einiber – er það eitthvað sem er til? Ég veitti því athygli á síðasta jólaballi þegar við gengum í kringum berjarunn, hvers kyns ber svo sem þar voru að finna, að R-ið í reyniber var nú eitthvað veikt, raunar er ég ekkert frá því að þetta hafi verið mitt sóló-R. Á ég virkilega að trúa því að alla tíð hafi ég verið að syngja þetta margrómaða jólalag vitlaust? Er þetta eins og með stelpuna sem saknaði smáfolans handan við hafið í my bonny is over the ocean? Er ég að segja Reyniber eins og hún sagði Pony? Þetta minnir mig líka á hvað textinn við hið hárómantíska lag Undir bláhimni gat vafist fyrir mér. Ekki gat ég fyrir nokkra muni skilið af hverju það þótti eitthvað við hæfi að gaula um ófagra mær sem barst í arma einhvers undir bláhimni, það var ekki fyrr en eftir margra ára vangaveltur sem ég skildi loksins hvað var fallegt við þetta, þegar ég las textann af blaði og mærin var orðin rósfögur. Það eru til svo fjölmörg dæmi þar sem heyrnin villir svoleiðis fyrir manni að maður áttar sig ekki á því hvað maður getur verið að gera bjánalega hluti þegar maður, aleinn, syngur sinn eigin texta, eins og við rótgróin jólalög.









Önnur dæmi um svona textavillur eru svo sem skiljanleg. Eins og þegar einhver söng „bróðir minn er að slá mig” við eitthvað lag sem sennilega var flutt af landi og sonum eða öðrum eins „textafrömuðum”. Við sama lag söng ég „blómin ráðast á mig” og taldi ég það alveg hárrétt þar til ég fletti textanum upp á netinu, nú í dag, til að hafa mín mál hér á hreinu. En ég get svo sem bara haldið því áfram því mér finnst rétti textinn síður fallegur, það er nú ekki eins og „lóðin hlaðast á mig” sé eitthvað sennilegra til að falla inn í þessa ljúfu melódíu þeirra, eða hvað það nú var það blessaða lag. Og þó, það heitir víst Vöðvastæltur en skítt með það...

Klassískt dæmi um lag sem er alveg kjörið til að syngja vitlaust fram í hoppandi ellina en smellurinn Final Countdown. Ég get ekki munað hvað ég hef verið með margar útgáfur af því „alveg á hreinu”. Til dæmis var ég lengi vel „heading for penis” og gargandi hástöfum „it’s a fire downtown” veit ekki alveg hvaða Freudísku óskhyggju má lesa úr þessu. Með tímanum þróaðist þetta í final downtown og þaðan sennilega í rétta útgáfu, en penis hvarf seint – skammarlega seint.

Það er þó ákveðin hljómsveit sem hlýtur að eiga met í því að hafa sent frá sér lög sem sungin eru vitlaus trekk í trekk í trekk – Sálin hans Jóns míns. Kannski spilar það inn í, hjá mér í hið minnsta, að ég var aldrei hrifin af þeim og hlustaði því kannski aldrei nægjanlega vel á þá til að læra blessaða textana þeirra. Ég hef sungið álfa í stað ára (þar til ég fékk leiðréttingu í síðustu viku en þetta eru svo sem andskoti lík orð svo enginn ætlar að gera veður út af því vona ég), flæmingjamyndir í staðfermingamynda (þar til ég áttaði mig á því að það er enginn að býtta út flæmingjamyndunum sínum), kústinn í staðinn fyrir Guðstein (finnst nú reyndar hvorugt eitthvað vera að gera góða hluti), fullnægingu í staðinn fyrir friðþægingu (kannski enn eitthvað freudískt að gera vart við sig) sykur í staðinn fyrir silfur (aftur afar lík orð) og eftirlaun í staðinn fyrir rekjunaut (eina skýringin sem ég kann á þessu er sú að ég sé bara ekkert sammála því að öll von um rekkjunaut sé úti klukkan 3). Sérstaklega ömurlegt lag, svona textalega séð, þótt vissulega sé gaman að dansa við það er Hei kanína. Þessi texti er bara ekki neitt magnaður svo hvern skal undra þótt það sé kallað ótrúlegustu nöfnum, það er sennilega ástæða fyrir því að ég hélt lengi að það héti Feita Nína -ég þekki hundrað manns sem kalla lagið þetta.

hæ ég heiti eva og ég er búin að rústa þessu bloggi, ég er tussa. sorrý mæja bet, tala við þig eftir smá...

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Ferðasaga frá Reyri

Þótt Akureyri sé að vaxa og dafna án mín, ólíkt því sem ég er að gera án hennar, var engu að síður gott að líta þar við - koma heim. Þótt biturðin hafi gert vart við sig og mér hafi nær reynst það ofviða að sjá hve létt það reynist henni að gleyma mér og halda áfram sínu striki greindi ég þó hjá mér nægilegan þroska til að samgleðjast henni og trúa því að dag einn geti ég gert slíkt hið sama – nú eða ratað til hennar á ný!

Aksturinn héðan og til Akureyrar gekk að mestu stórtíðindalaust og mesta furða hve lítið mér leiddist enda með fínasta pakk í bílnum. Í staðaskála rákumst við á tvo heiðursmenn sem þar voru mættir til ölsöturs – þeir voru þó búnir að kasta upp á hvor fengi að súpa því hinn mátti aka – veslings Ívar fékk engar kverkar vættar- tjah, nema Jóns Lofts. Samt alltaf gaman að rekast á þessa tvo þó næsta sé víst að egóið hljóti lægð fyrir vikið enda báðir tveir hafsjór, hvor fyrir sig, efnis í yfirdrull.

Fyrir enga muni náði ég að festa svefn þegar á Akureyrina var komið – ég var allt of spennt að komast á fætur til þess að fara að hitta fólk. Það var þó ekki fyrr en um tíuleitið sem ég hlunkaðist út úr húsi. Í hádeginu fórum við Telma svo upp í menntaskóla – Mekka minnar andlegu fróunar! Þar hitti ég fullt af fólki og meðal annars andlegan leiðtoga og snilling sem enn virðist hafa trú á því að ég eigi afturkvæmt í menntaskólann og það í öllu meiri virðingastöðu en ég var að fylla sem skrópsjúki letinginn. Eins hitti ég fleiri háaldraða MA-inga á við sjálfa mig og var það vissulega notalegt.

Eftir át og drykkju var stefnan svo tekin á Ali þar sem litla systir ásamt Stuðnýju og Jóni Inga var með afmælisgleðskap. Ég væri að skrökva því ef ég segðist hafa verið aldursforseti þar – en andskoti fór ég nálægt því. Ég stakk því af úr barnaafmælinu til þess að komast á nætursýningu á Chigaco – ég sá ekki eftir því. Þetta var frábær sýning og þrátt fyrir að hafa verið alveg skammarlega ölvuð náði ég að sitja sem fastast allan tíman og skemmta mér konunglega. Sérstaklega hélt ég upp á atriðið þar sem Jónsi lék kviðdóminn og þykir mér agalegt að hafa öskrað svona upp í eyrað á honum (það er lygi – i’m not sorry)!

Einhvernvegin lét ég gabba mig til þess að vinna í miðasölunni fyrir söngkeppnina á laugardeginum – sem hefði verið allt í lagi hefði ég vitað eitthvað. Sjaldan hefur heimska mín verið svo fyrirferðarmikil eins og þarna þar sem ég lá emjandi undir spurningarflóði og kunni engin svör – en þetta var fínt! Ég náði að heyra flest lögin æfð sem gerði mig mun sáttari við þá ákvörðun að sleppa keppninni og fara í afmæli til Nönnslunnar minnar. Það var líka fínt! Horfðum á keppnina í beinni og ég fékk næði til að tárast yfir úrslitunum (i'm a whimp and I know it) - hvað get ég sagt? hjarta mitt bara tilheyrir þessum skóla!
Gleymdum okkur aðeins og komum niður í bæ um það leiti sem gamalmannastöðunum var lokað og þurftum því að reyna að djamma með gröðum unglingum. Það hafðist svo sem en ég held samt að næst leggi ég leið mína á Akureyri þegar minna er um að vera svo ég verði ekki troðin undir af táningum í heitri leit að fyrstu kynlífsreynslu sinni og það OFAN Á MÉR!

Sunnudagurinn fór í þynnkurúnta og notalegheit og svo er skyggja tók akstur til Hólmavíkur. Á Hólmavík hringdum við í einhvern spéfugl hjá Vegagerðinni sem sagði okkur endilega að leggja á heiðina – hún væri fin! Já, hún var flott sko. Við sátum þar pikkföst eftir ömurlega bílferð í gegnum þæfing og hálkubletti. Eftir að Hexía hefði verið dregin upp úr skaflinum snérum við aftur til Hólmavíkur þar sem við fundum náttstað á gistiheimili í þessari höfuðborg draugabæja.

En þrátt fyrir allt var þetta stórfín helgi og hefur hún fært mig aftur á rétta braut. Ég veit að það er aðeins einn áfangastaður fyrir mig og um leið og ég hef fundið minn veg að MA þá arka ég hann.

mánudagur, mars 31, 2003

Vá, hvað ég er algjörlega sátt við þessa góðu helgi. Samt bara alveg búin á því,mætti ekki til vinnu fyrr en klukkan þrjú í dag þar sem við neyddumst til að finna náttstað á Hólmavík eftir hrakningar á Steingrímsfjarðarheiði. Langar að leggja mig núna....