föstudagur, október 10, 2003

Farin

Djöfull hlakkar í litla hjartanu mínu núna þegar ég geri mér grein fyrir því að ég er að komast burt héðan. Að þessum vinnudegi loknum byrjar tveggja vikna sumarfríið mitt og get ég ekki beðið eftir að leggja af stað suður.

Þessum tveimur vikum ætla ég að verja í algleymi og notalegheitum og allt fjárans Bolungarvíkurtengda amstrið ætla ég að láta eyðast út í eilífðina. Þegar ég kem heim verður allt gleymt og það sem hefur verið að drekka upp sálarstyrk minn skal með öllu horfið. Hvort sem ég ætla að beita fyrir mér kraftaverkum eða sjálfsblekkingu þá ætla ég að koma heim ný mannseskja, með nýjar hugmyndir og svo sannarlega nýjar langanir.

Hvað sem öllu svona helvítis væli líður þá ætla ég að fara að hypja mig á vit skemmtunar þar sem ég ætla að djamma af mér rassgatið. Kannski maður rati á netslóðir einhversstaðar þarna ytra til að láta vita af sér, segja sóðasögur úr Reykjavík, sukksögur frá Osló og viðbjóðslifnaðarsögur frá Köben. Fram að því bið ég að heilsa
Yfir og út...

þriðjudagur, október 07, 2003

Enn ákvað hann að líða löturhægt

Það munu vera samantekin ráð hjá öflunum í kringum mann að gera manni síðustu dagana fram að fríi óbærilega. Ekki nóg með að tíminn standi í stað eins og kýrskýr belja heldur sýnist mér veturkonungur vera að ryðja sér rúms hér með öllum sínum sataníska ósóma. Beljandi slyddudrulla lemur á rúður og hrellir íbúa smáríkisins hér vestra, vindurinn glottir þegjandi á milli þess sem hann stynur upp úr sér hvimleiðum óhljóðum, feykjandi frá sér öllum velvilja fólksins. Harðbrjósta, heimskur hitamælir bannar mér að skilja bílinn eftir í handbremsu, hótar að fara niður fyrir frostmarkið þar sem hann hefur þó enn numið staðar. Þrátt fyrir kraumandi geðillsku við hugsanir um veðrið er ekki laust við að ég lumi á háðsku glotti – ég skil sjálfa mig stundum ekki. Kannski glotti ég vegna þess að ég veit sem er að ef tussan veturkonungur hefur af mér yfirvofandi smábæjarhléið þá mun ég leita hann uppi í landi slíkra vætta og kirkja hann með g-streng af illa skeindri stelpudruslu.

Annars er ég bara róleg í dag. Bíóferð sunnudagsins heldur enn á mér hita, hún er mér í svo fersku minni að það líður enn ekki meira en klukkustund á milli þess sem ég staðnæmist við eitthvert atriðið sem poppar upp í huga mér og skelli upp úr. Sælir eru einfaldir.

Klukkan er 16:00 og ég má læsa þessum banka.