fimmtudagur, júlí 08, 2004

Skuðræðis brjóst

Það er eitthvað að þeim andskotinn hafi það! ef eitthvað er ekki nákvæmlega eins og það á að vera þá bregðast þau við með því að tútna út. Ef veðrið breytist dag frá degi (sem það gerir alltaf því ég bý á ÍSLANDI) þá verða þau pirruð og ákveða að komast ekki fyrir í brjóstahaldaranum sem ég var í fyrir tveimur dögum - ætli þau þjáist af innilokunarkennd? Einhverju sinni þegar við Rúna vorum að "gellast" í kringlunni þá valdi hún á mig túttuhaldara, þrjú stykki, hver öðrum fallegri. Ég var brjálæðislega sátt við þá alla en athyglisverður punktur - þetta voru þrjár mismunandi stærðir! Ég fer að eiga allt fjandans stafrófið í fórum mínum.

Núna þegar fátt hefur verið eins og það á að vera þá hafa elsku rúsínurnar mínar tekið þá ákvörðun að mótmæla öllu heimsins drama með því að komast hvergi fyrir - ekki nóg með að ég þurfi að ganga í íþróttatopp í dag heldur á ég eflaust eftir að takast á loft einhvern daginn með þessu áframhaldi. fólk talar um mislyndi - það tekur ekkert smá á að eiga mislynda líkamsparta, sérstaklega einhverja svona sem, tjah... skjaga aðeins út í loftið og maður felur ekkert of auðveldlega. Ég mun þramma mót ódauðleikanum þegar ég kemst í heimsfréttirnar fyrir að vera stelpan sem varð étin af eigin barmi!



fínt að taka smá detour frá ástinni í smá tíma ;)

miðvikudagur, júlí 07, 2004

of snemmt...

Stundum þegar ég er að koma heim frá ísafirði að kvöldlagi og ég sé að blindandi kvöldsólin er rétt handan við næstu beygju þá hvarflar að mér að snúa við. Reyndar eru beygjur óshlíðar fjölmargar og því skeikar oft einni - tveimur til eða frá þegar kemur að því búa sig undir að fá skerandi frenjuna beint í glyrnurnar til að meina manni nokkra sýn á það hvert maður stýrir bíl sínum. Ég nálgast beygju og ég veit að handan hennar eða næstu bíður mín eitthvað sem ég þoli ekki, eitthvað sem mér finnst svo óþægilegt, en ég verð að mæta sólinni, að öðrum kosti kemst ég ekki heim. Hversu víða á þetta við? Við vitum að eitthvað er yfirvofandi sem okkur líkar ekki og þá viljum við bakka, sama hvað það er sem bíður okkar hinu megin við. Við þurfum kannski stundum að vera duglegri að vega og meta hvað það er sem er þess virði að fá blindandi ógnvaldinn beint í augun!

Það er ekkert í lífinu sem á ekki svör eða samsvörun á Óshlíðinni get ég sagt ykkur...