Fimbulfamb
Tekin hefur verið rassía í að spila upp á síðkastið, fátítt að ég hafi svona gaman að því þar sem ég er einkar lunkin við að tapa – en fuss, maður er að þroskast svo mikið í ellinni að maður er farinn að hlægja upp í opið geðið á ósigrinum, renni honum nú bara niður eins og hverju öðru. Annars fannst nú fjári gott spil þar sem genetísk seinheppni mín hefur ekki haft of mikið að segja – fimbulfamb! Hver bjó þetta spil til? það er stórkostlegt og gæti varla hentað mér betur. Verst að fólk er farið að þekkja handbragðið mitt full vel en það er allt í lagi ég fer bara að dulbúa mig.
Síðustu tvær nætur hef ég setið við gítarglamur, er orðin helvíti góð í G. Haukur frændi þurfti pláss fyrir öll þrjúþúsund hljóðfærin sín svo hann kom með einn gítar í geymslu hjá mér og er nú skuldbundinn til að kenna mér á hann.... bwahahahahaaaa hann hefur ekki hugmynd um hvaða stórslysahring hann hefur komið sér í. Setti gítarinn í hendurnar á mér í fyrradag og kenndi mér g, nú er ég búin að reyna að læra nokkur grip til viðbótar upp af blöðum og dunda mér við að spila pípuna. Allavega hljómar þetta eins og pípan ef ég bara syng nógu hátt með. Ég get ekki beðið eftir að læra að spila eitt lag nokkuð skammarlaust svo við Haukur getum tekið það saman, ég á gítar og hann á banjó.
Ég er að klepra hérna í vinnunni minni í dag og ákvað því að brjóta upp hversdagsleikann með að segja upp – verst að ég er samt ekkert að fara að hætta fyrr en eftir marga mánuði... en ég sagði allavega upp og það var gaman.
Ef allt fer í vesen hjá mér þá bara fer ég á strikið með gítarinn hans Hauks og læt borga mér fyrir að spila ekki á hann.