Mikið ætla ég að vona...
...að Óraníumenn og félagar séu alveg hættir að fleygja múrsteinum og bensínsprengjum sín á milli, ekki vill ég nú sjá að mitt fyrsta verk þegar ég kemst loksins aftur þurfi að vera það að taka forsprakka og alverstu ólátabelgina á teppið til að stilla til friðar. Það er alveg makalaust (eins og ég.. eða þið vitið) hvað ég má aldrei bregða mér af bæ í nokkra mánuði án þess að allt verði vitlaust. Ég fór frá Íslandi í nokkra daga á síðasta ári og þegar ég kom til baka var fólk farið að keyra öfugu megin við BSÍ, rúmið mitt var komið í allt annað hús, ég var allt í einu enn einu árinu eldri og einhver stelpuskjáta var farin að syngja með Stuðmönnum. Ég veit ekki alveg við hverju ég má búast um jólin - hef ekki nokkra trú á að ég sé að skilja klakann eftir í öruggum höndum, fólk vill nefnilega alltaf vera að breyta einhverju. En ég verð samt að skipta mér drengilega á milli því það er nokkuð ljóst að stubbarnir ytra eru ekkert að ráða við tilveruna án mín - allt orðið kolbrjálað rétt á meðan ég skrapp heim til að kúka í íslenskan sjó og drekka rándýran mjöð.
Ekki ætla ég þó að vera þekkt fyrir það að fara hljóðlega og hef ég því komið foreldraeiningunni í pössun og ætla að bjóða einvala liði ærslabelgja heim í litlu moggahöllina mína. Þar ætla ég að bjóða upp á Feita Froska bollu og er það einlæg von mín að hún fari sérkennilega í fólk og sjálfur andskotinn verði laus. Von er á fullu tungli svo allt getur gerst. Ég ætla mér að gera eitthvað svo munað verði eftir mér og ég verði mikið rædd næstu mánuði, á meðan ég er frá; spurning um að ná sér í fola úr grunnskólanum eða eitthvað - það ætti allavega að halda fólki við efnið. Sennilega er ég nú komin út á hála braut svo ég kannski hugsa þennan betur.
Þótt verulega hafi dregið úr þankaryki mínu hér á veraldarvefnum er ekki hægt að segja annað en að ýmsu hafi gengið þetta sumarið - eins og svo oft áður. Annars fer að verða hvert sumarið öðru líkt svo ef þið viljið vita hvernig mér hefur liðið þá skuluð þið bara lesa eldri færslur. Allt sem ég geri hef ég gert áður og allt sem ég segi hef ég sagt áður. Öll gömlu gildin eru eins - það er enn sama vinnan, sami kötturinn, sama ástin, sama sorgin og að sjálfsögðu sama árangurslausa megrunin. Ég held þó að mér sé að takast að fara héðan frá hreinum dyrum og eru allir sælir og sáttir, sem er jú fyrir öllu.
Spyrjum annars að leikslokum, lokakvöldið er eftir en það lofar svo sem bara góðu. Við Hexía förum suður á Sunnudaginn, sem ég er að átta mig á að er á morgun svo það er spurning um að drattast upp á afturlappirnar og byrja að pakka.
Lifið heil elsku börn