mánudagur, janúar 02, 2006

Koddahjal

Koddahjal er efni sem mér hefur löngum verið dulin ráðgáta. Ég hef, satt að segja, mjög oft velt því fyrir mér um hvað fólk talar eiginlega þegar það liggur saman í koju að afloknum leikum. Í gegnum tíðina hefur lítið reynt á þetta hjá mér, hefur það þá helst verið vandræðaleg þögn eða það sem oftast gerist - ég þykist vera sofandi þar til ég heyri hrotur til þess að ég þori að læðast á brott út í nóttina. Ég hef eiginlega oft óttast þetta fyrirbæri og verið hrædd um að þegar ég færi að liggja á koddanum með sama aðilanum trekk í trekk (þá meina ég einhverjum öðrum en Evu Ólöfu) þá yrðu þetta að vera einhverjir væmnir og viðbjóðslegir frasar á borð við "Þú ert með svo mjúkar varir" eða "Búbbíbú, það er svo gott að kúra hjá þér". I stand corrected! Ég verð að segja eins og er að eftir að ungur maður fór að venja komu sína í koju mína ytra þá hefur álit mitt á samskiptum kynjanna stóraukist - ég er ekki frá því að koddahjalið okkar sé bara með þeim allra skemmtilegustu stundum sem mér hlotnast. Þemað er einfalt og nær alltaf það sama - gubbu-, og/eða kúkasögur.

Mamma, ef þú ert að lesa - hættu því núna!

Þetta byrjaði nú á nánast penum nótum, þar sem maður getur nú ekki afhjúpað allan viðbjóðinn strax við fyrstu kynni. Ég sagði honum sögu um unga snót, og vil taka það fram strax að þetta var ekki ég. Hún hafði fengið sér örlítið of mikið neðan í því eina kvöldstund og haldið heim með manni sem henni var nú ekkert of kunnugur. Engu að síður þegar hún vaknar næsta dag er hún sátt við fenginn og hugsar með sér að eftir vill geti þetta nú eitthvað blómstrað. Hún þarf þó að haska sér í vinnuna og ákveður að vekja ekki kauða. Hún er stödd á baðherberginu hans að hressa örlítið upp á sig þegar náttúran kallar, á ópenni mátann. Hún sér ekki að hún fái undan því komist að bregða sér á dolluna og hleypa blessuðum lollanum sína leið. Í sjálfu sér finnst henni það ekki svo agalegt þar sem þetta er árla morguns og gerir hún fastlega ráð fyrir að kauði muni sofa af sér óþefinn. Það er þó ekki svo létt á henni brúnin þegar henni verður ljóst að um sé að ræða flotkúk sem sýnir ekki á sér nokkurt fararsnið. Eftir vangaveltur og vandræðagang sér hún ekki neina lausn aðra en að veiða kvikyndið upp úr og koma honum fyrir í haldapoka sem hún finnur á gólfinu.

Sátt við þetta úrræði klárar hún að þvo sér og koma sér í sæmilegt horf og ætlar svo að koma sér áleiðis. Með viðkomu í eldhúsinu, til þess að skrifa miða með huggulegum skilaboðum og nafni sínu og símanúmeri, brokkar hún út og skellir í lás á eftir sér. Glöð í bragði gengur hún eftir götu þess fullviss að nú hafi amor fundið hana og hamingjan sé rétt handan við hornið. Það er svo ekki fyrr en seinna þann dag sem hún minnist þess að hafa lagt haldapokann frá sér á eldhúsborðinu á meðan hún skrifaði miðann. Það sem kauði fékk frá henni var sem sagt nafn, símanúmer og kúkur í poka. Þess ber vart að geta að hann hringdi aldrei í hana.

Á koddanum hlógum við vel að þessari sögu og launaði hann mér hana með annarri svipaðri. Sú var um unga konu að reyna að vinna sig upp í viðskiptaheiminum. Hún er send á mikilvægan fund fyrir hönd fyrirtækis síns og þarf að hitta fyrir mikinn stórlax. Fundurinn gengur vonum framar og er hann kominn út í létt spjall á skrifstofu þess stóra. Rétt áður en kemur að því að hún þurfi að ná flugvél sinni til baka þarf hún að bregða sér á klósettið og verður þá að spyrja manninn hvar næstu aðstöðu sé að finna. Hann býður henni nú bara að gjöra svo vel og nota sína aðstöðu sem liggur inn af skrifstofunni. Hún kann nú ekki við að afþakka svo hún skellir sér þar inn og losar sig við morgunkaffið og bollurnar. Sama vandamál og áðan blasir við - hann fer hvergi! Hún þorir ekki að leggja samkomulagið sem þau höfðu náð að veði svo hún stingur hendinni ofan í klósettið og veiðir skrattann upp, vefur honum svo inn í klósettpappír og kemur fyrir í skjalatöskunni. Þegar hún ætlar svo að þvo sér kemst hún að því að sökum einhverra endurbóta vantar kranann. Í taugaveiklunarkasti heyrir hún manninn ræskja sig fyrir utan dyrnar svo hún veit að hún kemst ekki undan óséð. Bregður hún þá á að það ráð að sturta niður nokkrum sinnum og skola það versta af sér þannig. Þegar hún kemur út stendur maðurinn þar skælbrosandi og er ekki hjá því komist að taka í spaðann á honum. Hún sagði eftir á að hún hafi verið stjörf af þeirri tilhugsun hvar þessi hendi var nýbúin að vera og af kúknum í töskunni.

Svona sögur flugu okkur á milli á meðan við vorum enn örlítið að halda aftur af okkur. En er fram liðu stundir fórum við að hætta okkur út á hálar brautir og sagði ég honum hina löngu frægu lýsissögu, sem ég ætla nú ekki að fara að rekja hér. En á móti fékk ég þá agalegustu sögu sem ég hef nokkurri sinni heyrt - ég hreinlega grét úr hlátri.

Mamma, í alvöru - ef þú ert enn að lesa HÆTTU!

Þannig var að kunningjar drengsins fóru af stað í veðmál um hvor gæti fyrr fengið baksviðspassa hjá einhverri snót. Sér annar fram á að vinna þetta veðmál og ætlar að hafa sannanir fyrir máli sínu. Hann fær þá annan félaga til að koma sér fyrir í fataskáp með video-cameru til að ná öllum ósómanum á mynd. Einhver forleikur á sér nú stað og svo er seilst eftir túpu með sleipiefni. Það er skemmst frá því að segja að drengurinn sprautar eins og hálfri túpu upp í rassgatið á stelpunni og makar svo rest á sjálfan sig. Það hafa kannski glöggir menn getið sér til um hvaða áhrif þessar stólpípuaðfarir höfðu. Jú, eftir fyrsta skak lekur út vænn skammtur af illa þefjandi leðju og verður drengnum sem greinilega er mikið niðri fyrir á orði "did you just shit on my dick?". Óþefurinn er að fylla vit hans og styður hann sig við bakhluta konunnar til að reyna að ná andanum. Honum tekst nú ekki betur til en svo að hann hreinlega ælir upp í rassgatið á vesalings stelpunni. Hennar viðbrögð eru skiljanleg þar sem hún ælir líka. En ekki er öllu lokið þá, þar sem þriðji aðilinn, myndatökumaðurinn, á eftir að hendast út úr skápnum, ælandi. Það sem mér finnst allra best við þessa sögu er að sjálfsögðu sú staðreynd að stór hluti þessa skrípaleiks er til á myndbandi.

Ég veit nú ekki hvernig tilhugalíf gengur almennt fyrir sig, en nú hafi þið allavega fengið innsýn í mitt. Ég verð að segja að þvert á mína sannfæringu þá er koddahjal bara ekkert leiðinlegt.

Eftir óralanga bið...

... er Ár Mæsunnar loksins gengið í garð.