föstudagur, ágúst 29, 2003

Stillta stelpan

Mikið er ég búin að haga mér vel upp á síðkastið. Á seinasta föstudag var að vísu óvissuferð með vinnunni sem endaði með heldur meiri ölvun en til stóð, telst mér svo til að ég hafi verið heldur óaðlaðandi en þó vissulega kómísk þegar ég mætti á eyrunum heim til Dibbu. Það var ömurlegt að vakna þar daginn eftir, vitandi ekki neitt.

Upp úr hádegi lögðum við svo í hann suður á leið, ég og Röggi á Hexíu og Bjarni á Signý. Það var ömurlegt! Sökum aðstæðna eftirlét ég Rögnvaldi það að keyra á meðan ég lá í aftursætinu og hrópaði á hann með reglulegu millibili að stoppa bílinn svo ég gæti ælt út í kant. En að lokum komumst við þó alla leið í Skorradalinn þar sem við tók þessi líka ágætis rólegheita helgi.

Upp úr stendur:

Bjarni að hengja fötin sín upp á herðatré
Rafmagnstannburstarnir okkar Rögga
Fjarstýrðu bílarnir okkar Rögga
Kaffibrúsakarlarnir og tvíhöfði
Skottúrar í bæinn
Einhver kona að tala upp úr svefni
Einhver kona að detta fram úr rúminu
Yndisleg bíóferð
Ekki dropi af áfengi fyrir mig
DVD
Hvíld og notalegheit

Takk strákar mínir fyrir þetta stórgóða frí!


Í kvöld ætla ég að vera heima hjá mér með púkana systur minnar. Það verður sjálfsagt afar fróðlegt og það besta er að ég mun þá svo sannarlega ekki freistast í einn einasta sopa – sjá hvað maður er að fullorðnast!

Svo er planið að kíkja í Trostansfjörðinn á morgun og hitta félaga mína úr fyrrum ritstjórn Muninns.


Núna er ég lúin og skrítin og ætla því að láta staðar numið.