föstudagur, júní 10, 2005

Suma daga,

Hlaupa svartir kettir fyrir bílinn hjá manni, spegillinn brotnar, maður gengur undir stigann, krakkaskari á hjólum umlykur þig og hleypur svo fyrir bílinn, gamall skarfur með hatt beygir í veg fyrir þig, gömul kerling veð varalit út á kinn öskrar á þig að í þér búi djöfullinn og þegar þú heldur að það geti ekki versnað annað hvort springur hjá þér eða byrjar að rigna - nema þegar hvorutveggja gerist.

Dagurinn í dag er ekki svoleiðis.

Nokkuð er það þó sem ég er ósátt við - ég finn hvorki Abbababb diskinn minn né Hemma. Á báðum hef ég fest kaup oftar en í tvígang en þeir hafa þessa tilhneigingu til að hverfa - ég er ekki hissa svo sem, ég myndi sennilega hnupla þeim ef ég fyndi þá á glámbekk. En mig bráðvantar þessa diska - sérstaklega Abbababb því hann kippir öllu í lag - alltaf. Hemmi Gunn & Kalli Hallgríms - er hægt að biðja um meira?

fimmtudagur, júní 09, 2005

Svörin

Ef þú villt vita eitthvað um Bronislaw Malinowski eða Willy Wimmer, þig langar að sjá gíslaaftöku frá Írak eða vilt lesa textann við hvaða helvítis gaullag sem hljómað hefur á öldum ljósvakans þá eru öll svör við fingurgómana á þér - þú getur "gúgglað" þetta allt. En ef þú reynir það með hlutina sem berja á kollinum á þér alla daga og flestar nætur þá er hvergi svör að finna. Prófaðu að stimpla orð á borð við náungagæsku, dauðann eða ástina inn á leitarvél og hlauptu (hratt) yfir klisjurnar sem blasa við þér. Til að toppa þetta allt skaltu svo leita eftir orðinu tilgangur og sjá hvernig opnast fyrir þér Atlas inn á vísindavefi heimskringlunnar.

Er það bara veraldarvefurinn sem er til þess hannaður að við fáum aðeins svör við því sem er svart á hvítu eða er það veröldin öll sem mælir gegn því að við hugsum of mikið um eilífðarspurningarnar? Ætli það sé til að hlífa geðheilsunni eða til að tryggja fall hennar? Kannski svörin séu mannsskeppnunni bara síður en svo í hag.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Þrumufótur

Alveg er laust við það að ég sé gáfuleg þegar ég er að reyna að tjá mig um nokkuð sem viðkemur íþróttum. Enn og aftur er það fullsannað að mér er hollara að halda kjafti þrátt fyrir hinn allra besta tilgang. Þannig var nú að eitthvað voru þær stöllur í vinnunni minni að baksa við að senda póst á hina mætu menn hjá bb.is. Þær vildu nú benda þeim á rangnefni á meistaranum sem skoraði markið geng erkifjendunum handan hlíðar í gær. Þegar ég sá hvursu brösuglega þetta gekk hjá þeim tók ég á mig þetta verðuga verkefni. Ég settist niður og skrifaði vandaðan lítinn póst í okkar nafni og reyndi hvað ég gat að koma ekki upp um mig sem fávita. Það er skemmst frá því að segja að mér mistókst! Fyrir einhverja slysni skaut orðinu þrumufótur upp í kollinn á mér og varð mér á að nýta það því til skrauts á þessum góða pósti. Svarið sem kom um hæl var eitthvað á þessa leið; "takk fyrir þetta, en skondið að þú skulir kalla hann þrumufót úr því hann skoraði nú úr skalla í þetta skiptið". Ég kenni Helgu Guðrúnu alfarið um að draumur minn um að verða vestfirskur íþróttafréttamaður hjá BB sé kominn út á hafsauga.

En hvað um það, svona meðal annarra orða þá er ég búin að henda inn nokkrum myndum frá helginni, ansi vel ritskoðaðar og það allra ósæmilegasta er allt komið úr umferð.