þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Scrupulous meanness


Ég er orðin alveg hringlandi vitlaust af þessu svefnleysi, ég veit aldrei hvort það er dagur eða nótt. Núna er klukkan rúmlega 4 og ekki nóg með að ég sé glaðvakandi heldur var ég að enda við að baka mér pizzu og sporðrenna druslunni. Þetta er fínt, við sitjum saman við arininn (sem er bara skraut að vísu - svindl) ég og hann James Joyce vinur minn og félagi. Ég gafst upp á að reyna að fatta hvernig ég ætti að afla heimilda fyrir þessa ritgerð sem ég er að skrifa um hann svo ég bauð kauða í heimsókn og við erum að skeggræða þessa hluti. Hann er alveg merkilega sammála mér að flestu leiti. Alveg magnað hvað fólk sem maður dregur fram með ímyndunaraflinu getur verið meðfærilegt. Það verður þó að segjast eins og er að það var svo sannarlega ekki raunin með hann Hreggvið, eins og glöggir menn muna.

En hvað um það, nú er helst í deiglunni jólaglögg 17. desember. Það er ekki laust við að það sé kominn fiðringur í vömbina hjá þessari, og hafið í huga að það er ekkert smá flæmi til að kitla. Það eina sem heldur mér á jörðinni er það sem gerist tíu dögum fyrir þessa stórhátíð. Ég er enn eins og diskókúla þegar kemur að þeirri hugsun. Á ég að halda í hefðina og leggjast í þunglyndi og neita að viðurkenna afmælisdaginn minn eða á ég að rétta úr mér, halda reifagleði, grípa í punginn á tuttuguogfjórum og eiga besta ár lífs míns (hingað til)? Ég er farin að hallast að seinni kostinum sem getur bara þýtt eitt - ég er loksins að þroskast upp í árin mín.

Ef mér telst rétt til þá er minna en mánuður þar til þetta skellur á og man ég ekki til þess að ég hafi verið svona róleg á þeim tíma árs síðan ég var að verða 18 ára - og þið megið alveg gera grín að því hvað það er langt síðan það var. Ég hef ekkert að fela - ég er búin að keyra í 8 ár, árið sem ég byrjaði í menntaskóla hét 1997 og ég er elst í 3 áföngum af 4 í þessum elskulega skóla mínum.


Að lokum;;fyrir þá sem vita um hvað málið snýst ber að taka fram að Simon nokkur sambýlingur minn, sem á öruggan stað í helvíti, er enn á lífi. Hvort sem það er leti minnar eða miskunnar vegna þá hef ég ekki snert hár á höfði kauða og hyggst ekki láta hann ganga plankann að sinni. Eitt er þó víst að komi hann nálægt einkalífi mínu aftur þá mun ég ekki teljast ábyrg gjörða minna.

Ég ætla að snúa mér aftur að honum Joyce. Hann kann víst lítið að meta að vera kallaður úr dvala til að þurfa svo að sitja og bíða á meðan ég hripa niður orð á öðru tungumáli til þess að halda systur minni góðri.

nóttin er ung, eins og þær allar...