þriðjudagur, júní 26, 2007

Heima er Best

Eins og verða vill tók hugur minn að reika á meðan ég pakkaði niður föggum mínum ytra og gerði mig tilbúna til heimferðar. Síðast þegar ég var að hoppa upp í smá stopp var eins og ekkert kæmist að hjá mér annað en íslenskar veigar sem ég hafði saknað í djúpsteikingarbrækjunni þeirra Norður-Íra, en núna var annað uppi á teningum.Það var eins og þjóðarstolt mitt hafi tekið vaxtarkipp á meðan ég sat og hlustaði á útgáfu Sigur Rósar af Dánarfregnum og Jarðaförum og rölti um hálendi Íslands á google earth. Í huga mér birtust svipmyndir af ungri Mæju Bet með skrifblokk og penna þar sem hún lék sér að orðum og skríkti úr kátínu yfir íslenskri snilld. Eins mikið og ég naut þeirra hlunninda sem ég sjálf gaf mér ytra með notkun annars tungumáls, þegar ég lét sem réttlætanlegt væri að láta allt flakka þar sem ég væri, jú útlendingur, þá saknaði ég einskis meir en íslenskrar tungu. Þar sem ég sat og pakkaði niður bókum írsku snillingana gat ég ekki hugsað um annað en hvað ég hlakkaði til að heyra málið mitt talað allt í kringum mig og sjá því bregða fyrir, ómenguðu, í íslenskum miðlum. Íslenska lyklaborðið beið mín með réttum táknum og ég sá fyrir mér spjall á hverju götuhorni við frænkur, frændur, öðlinga og villinga. Ég var að koma heim og það var ekki bara kókmjólkin sem beið mín í þetta sinn - það var landið mitt, það var fólkið mitt, það var málið mitt.

Orðið vonbrigði ná ekki yfir eymdina sem lúrir í hjarta mér á þessari stundu, rúmum 2 vikum eftir heimkomu. Hvað hefur komið fyrir? Í reykjavík þurfti ég að panta mér æti með handapati, í Borgarnesi var sem ég væri að brjóta einhverjar umgengisreglur þegar ég skrapp á óíslenska tímanum inn í ríkið og í kjörbúðinni heima blöstu við mér haugar auglýsinga með samhljóða kuðli sem var mér algjörlega óskiljanlegt. Allar þessar Z-etur og öll þessi tvöfoldu V, C-in kampakát þar við hlið og sérhljóðar á algjöru undanhaldi. Mig langaði að tæta í mig þessar auglýsingar, getur verið að það sé svo komið að íslenskar auglýsingar nái ekki lengur til meirihlutans?

Eins mikið og innrás annarra tungumála svekkti mig var hún þó lítið við hlið þeirrar velgju sem beið mín þegar ég fór könnunarleiðangur um netheima. Tjáningar íslenskra táninga voru mér jafn óskiljanlegar og auglýsingarnar í búðinni og það sem meira var, fréttamiðilinn okkar vestfirðinga á netinu, bb.is, var sem skrifaður af grunnskólabarni með lesblindu. Ásláttar- og fljótfærnisvillur eru eitt í svona blog-tjáningum einstaklinga, þar veit ég vel upp á mig sökina - þó standi það nú vonandi til bóta. Hinsvegar þegar fréttamiðill á í hlut þá finnast mér færslur eins og sú sem ég vil vitna í hér að neðan, óafsakanlegar og er mér spurn, hvað sé orðið um starf prófarkalesara. Aldrei nokkurn tíma hef ég verið svo hrokafull að geta ekki játað þörf mína fyrir góðan textarýni til að grípa villur mínar. Kunni ég Lovísu vinkonu minni alltaf þökk fyrir vel unnin störf, og geri enn, þar sem hún hefur án efa oft bjargað mér frá svona vinnubrögðum;

“... „Þetta er fyrir byrjendur sem og reynda því það verða um 4-6 í hverjum hæopi
svo ég get einbeitt mér að hverjum og einum.“ Námskeiðin fara fram í Hnífsdal
....
...er þaulreyndur hestamaður enda hefur hún verið stundar hestamennsku frá átta
ára aldri. Á félagsmóti Hendingar var hún valin knapi mótsins auk annarra verðlauna.”

Ekki er það nú meiningin að rífa í mig þennan miðil sem oft hefur verið afbragðsgóður í gegnum tíðina en hér er greinilega bóta þörf. Það sama má vissulega segja um aðra netmiðla þó oft hafi ég allt að því kunnað mbl.is þökk fyrir miklar hláturrokur yfir, oft og tíðum, sauðslegum mistökum.

Mér var hinsvegar ekki skemmt þegar ég las í gegnum morgunblaðið á dögunum. Þarna milda ég nú viðbrögð mín þar sem blóð mitt var komið að suðumarki áður en ég var hálfnuð með blaðið. Ekki var nóg með það að samsuða tungumála skildi fara ofboðslega fyrir brjóstið á mér heldur er ég ó-mögu-lega að átta mig á þessari lensku þegar kemur að of-not-kun band-strika. Mér finnst þetta ekki fallegt. Ég fann líka þörf hjá mér til þess að klappa í hvert sinn sem ég sá þeim bregða fyrir, eins og sá sem skrifaði væri að bjóða mér að telja hversu mörgum atkvæðum næðist að troða í eina frétt. Þetta eiginlega gerði fátt annað en að eyðileggja hrifningu mína á þankastrikum – sem mér hafa alltaf þótt nokkuð skemmtileg.
Nóg í bili,
Mæsa Íslenska