Ég held að þetta verði góður dagur
Það liggja lirfur í loftinu og ég finn að tími fiðrilda er í nánd, ég kætist þar sem ég hef ekki haft slík í maganum síðan á einhverjum tíma sem senn hverfur úr manna minnum. Sólin er að glenna sig og gerir það svo skemmtilega að ég smitast af ákafanum og brosi flyðrulega framan í heiminn, svo svaraði ég í símann með brosröddinni minni sem hefur ekki heyrst síðan á minni fyrstu vinnuviku. Ég er furðu lítið eftir mig eftir helgina og ber hennar fá önnur merki en freknur sjóferðarinnar í þynnkunni á laugardagsmorguninn. Mér sýnist það væri ágætt að skella sér út í dag og draga fáeinar trossur því sjórinn er spegilsléttur, eins og hann var reyndar á laugardaginn. Ég er þess fullviss að ég hefði staðið mig jafnvel hetjulegar þá hefði ekki verið fyrir annarlegt ástand innviða minna eftir ölkennda heimsókn til óminnishegrans, sem er að verða mér allt of kunnugur, og hefði öldungurinn sleppt því að skella sér yfir borðstokkinn með tilheyrandi ógeðslátum.
Ég er enn með broskippi í munnvikunum og hláturtryllinginn í maganum eftir sprenghlægilegt laugardagskvöld í kompunni minni. Ég er víst dásamleg manneskja sem og frábær áheyrandi - skil ekkert í svona metum á svínslegri hegðan minni þegar mér finnst eitthvað broslegt - sem er æði oft. En sussu sei....
Ég var spurð að því áðan hvort ég væri ástfangin því enginn hefur áður séð mig brosa fyrir tíukaffi. Ég kannast ekki við að ég sé það en það er oft margt sem leynist í þokunni sem trónir í kringum toppinn á Algleymisfjalli - svo hvað veit maður. Ég var ekki neitt pirruð í dag þegar ég vaknaði þrátt fyrir þá vitneskju mína að flestir sem ég þekki svæfu enn á sínu græna. Ég gaf jafnvel kettinum að éta og brosti að óboðna gestinum sem hann feiti minn hefur ekki nennt að reka út um kattarlúguna. Það er bersýnilega eitthvað að mér! Konan úr síðustu færslu kom áðan og mér fannst hún ekkert óþolandi, þvert á móti hugsaði ég bara með mér hvað ég vonaði nú að hún fyndi einhvern til að verja með sumrinu og jafnvel ævivetrinum. Ég er góð og rómantísk kona.
Kannski dagurinn í dag marki tímamót, eitthvað frábært hlýtur að bíða mín...