föstudagur, ágúst 27, 2004

Að breyta rangt


Ég veit ekki alltaf á hvað ég trúi og ég trúi ekki alltaf öllu sem ég veit. Ég trúi þó á gott og illt og ég trúi á rétt og rangt og oftast veit ég ágætlega muninn þar á. Ég kappkosta oftast við að breyta eins rétt og mér er unnt og ég reyni að særa sem fæsta, stundum set ég mig jafnvel á háan hest og það kann að vera að ég troði mér í hlutverk siðapostula mun oftar en réttlætanlegt er - kannski ég vaði svolítið áfram blind á eigin breyskleika og mitt auma geð. Mig langar ofboðslega að vera góð og ég þrái að breyta rétt en þegar allt kemur til alls þá er ég ekki alltaf nægilegum styrk búin. Enn á ný sigrar aumt og hrátt eðli mannskepnunar hugsjónir hennar og betri vitund. Iðrast ég? Auðvitað. Myndi ég breyta öðru vísi? Ég hreinlega er ekki viss.

Eins sárt og það er að vaða í óvissu og sjá svo villu síns vegar þá er fátt sem svarar jafn mörgu af því sem er óráðið í fari okkar. Eftirsjá er tímaþjófur af verstu gerð og oft gerir hún ekkert nema auka á skaðann sem við stundum vinnum þegar við tökum "slæmar" ákvarðannir. Og ef ég þarf að velja - eftirsjá í vissu eða eftirsjá í óvissu þá tel ég mig vita hvort sé léttara korn í veganesti mitt - hvort sem kann svo að vera þyngri böggull á vogaskálar samvisku minnar, það er aftur annað mál.

Sumt get ég samt ekki réttlætt, ekki einu sinni fyrir sjálfri mér - en þegar ég er búin að taka agalega slæma ákvörðun er þá ekki best að reyna að henda fram nokkrum góðum í kjölfarið - svona áður en ég drukkna í vitleysu?

Við breytum öll rangt. Það er kannski einmitt það, hvernig við klórum okkur fram úr aðstæðum sem við sköpum okkur með því að breyta rangt, sem sýnir hvort við búum yfir getu til að læra af mistökum okkar og þroska með okkur sterkari vitund fyrir vikið.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Coleraine


Ég fékk dásamlegasta símtal lífs míns í hádeginu í gær. Það hringdi í mig írskur doktor, dimmraddaður og svona líka fáránlega sjarmerandi. Maðurinn skjallaði mig svoleiðis upp úr skónum, eins og það þyrfti eitthvað svona leynivopn til að sannfæra mig um að taka þessu boði! En hvað um það, ég má ekkert vera að því að segja frá þessu öllu ? í stuttu máli þá er ég að fara að flytja til Írlands og ég stefni á að negla doktorinn.


Mæsa Journalist kveður

mánudagur, ágúst 23, 2004

Er á meðan er...

Það má hæpið teljast að nokkuð markvert gerist hér um slóðir á næstunni - af gleðinni spretta aum skrif á meðan sorgin er líkleg til að fæða af sér meistaraverk. Eitthvað hefur gerst, því fer fjarri að ég skilji hvað það er eða geti með nokkru móti sagt frá því en ég er frjáls. Fyrir fáeinum morgnum síðan vaknaði ég við hliðina á mínum gamalgróna harmi og fór á fætur til að halda á minni píslargöngu - ekkert benti til þess að henni væri að ljúka. Þessi morgunn varð að degi sem síðar varð að kvöldi, þegar kvöldið varð að nóttu hafði ég misst sjónar af harmi mínum. Í dag er lund mín létt og hjarta mitt er glatt, ég þekki mig ekki fyrir sömu stelpuna. Ætla mætti að örvar amors hafi hitt mig en þvert á móti tel ég raunar að ég hafi loksins náð þeim úr sárum mínum. Sannast sagna veit ég ekkert hver fjárinn er að gerast en ég ljóma eins og sól í heiði!