föstudagur, janúar 07, 2005

Ah the hell of it all....


Það jafnast ekkert á við jólin, hátíð ljóss og friðar. Það er bara á jólunum sem maður finnur hvað náungakærleikur, jafnaðargeð og fjölskyldusamheldni er rík í fólki. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki kaldhæðin manneskja svo ég get ekki verið að meina neitt annað en nákvæmlega það sem ég er að segja. Jólin voru frábær - Belfast fjölskyldan er án nokkurs vafa samstilltasta og afslappaðasta fjölskilda sem ég hef, um dagana, komist í kynni við. Það var bara eins og hver einasti fjölskyldumeðlimur væri harðákveðinn í að vera sammála öllum hinum um að láta ekkert ganga upp og að gæta þess að friður kæmist ekki fyrir nokkra muni inn á heimilið. Eitthvað getting of track hérna, en það sem mestu máli skiptir: ég hef það fínt! Ef maður getur ekki hlegið að hlutunum hvurn fjárann getur maður þá gert?

Rétt fyrir jólin ákvað ég að gera aðra tilraun til að skella mér út á lífið í ´smáborginni´ Belfast. Það er ótrúlegt hvað hin treystandi smábæjarsál er rík í mér! Fyrir mér er bara til almennilegt fólk í heiminum og það er sama hvað ég dett oft í sjóinn ég fatta það aldrei að brúin sé ekki nógu sterk til að bera mig. Þannig var nú að ég átti að hitta vinkonu mína á stað sem heitir Benedict´s, eitthvað var nú búið að segja mér að sá staður væri nú ekki upp á marga fiska og sennilega ekkert í það varið að fara þangað nema að hafa í fórum sínum hné- og olnbogahlífar. Engu að síður álpaðist ég þangað. Þegar ég mætti á staðinn bólaði ekkert á Jo. Sæta, saklausa Mæsa plantaði sér þá við barinn og var í mestu makindum að senda SMS þegar einhver durgur gengur upp að henni og rekur henni vænan kinnhest. Hálf vönkuð og illa ringluð staulast Mæsa á fætur og lítur með tárin í augunum á manninn sem leit til baka illa svikinn og sagði, áður en hann gekk út í næturhúmið "oh, sorry, I thought you were someone else". Af því að auðmýking mín var svo ógurleg, þar sem ég er nokkuð viss um að sést hafi glitta í bossann á mér þegar ég hlunkaðist aftur fyrir mig við kjaftshöggið, ákvað ég að láta mig hverfa frá þessum stað. Ég reyndi að hitta aftur á fólkið mitt en það reynidst ekki alveg eins auðvelt að finna einhvern á djamminu í Belfast eins og á ísó. Ég staulaðist því inn í leigara, sem ég valdi af kostgæfni til að verða nú ekki tekin á teppið. Nei, mín heppni er einstök. Þessi bílstjóri tók mig jú í rétta átt og nokkuð nærri réttum áfangastað en þá stoppaði þessi aldraði graðnagli burrann og vildi koss - hvað í fari mínu er það sem segir við gamla karla "hey reynið endilega við mig, mér finnst bara gaman þegar steingervingar byrja að klæmast við mig"? Þegar manni fór svo eitthvað að fálma eftir mér grýtti ég klinki í andlitið á honum og hljóp heim. Ég var víst mjög falleg þegar ég kom þangað! Og átti enn eftir að fríkka á komandi dögum þegar fagurgrænt mar fór að gera vart við sig á vanga mínum.

Ég veit ekki alveg hvort stefnan verði nokkuð tekin aftur í borgina á næstunni - held að ég sé betur sett hérna í kunnuglegri smábæjarsælu.

Hvað er títt?

Sonur minn er 14 ára í dag - vildi bara koma því að þar sem ég er loksins komin í netsamband (með íslenskt lyklaborð) eftir töluverða fjarveru.

Til þeirra sem hafa hent í mig saur fyrir að hafa ekki staðið mig hér sem skildi; hey, bite me! Ég er bara ótrúlega upptekin og mikilvæg manneskja. Það er ekki heiglum hent að gera ekkert í 18 klukkustundir á hverjum degi.

Til þeirra sem ekkert hafa lagt til málanna; mér finnst mín ekki nógu sárt saknað!

Jæja, þá er það frá. Prófin eru byrjuð - ég elska próftíð. Engir fyrirlestrar að þvælast fyrir manni og ekkert sem plagar samviskuna þegar maður liggur og gónir á FRIENDS langt fram eftir nóttu. Nú er eitt próf frá og eitt eftir. Bókmenntirnar búnar og stelpan tók prófið með svínslegri heppni eins og henni einni er lagið. Til hvers að lesa sér til um 11 höfunda og svitna yfir ríflega tuttugu bókum þegar maður getur með hjálp æðri máttarvalda giskað á tvö efni sem koma á prófinu og skrifað góðar ritgerðir um þau bæði. Svo mundi ég þessar ritgerðir að sjálfsögðu orð fyrir orð svo eftir klukkutíma var mér löngu farið að leiðast. Vona bara að ég verði eins heppin með seinna prófið því almáttugur hvað það vantar mikið upp á að ég viti eitthvað hvað fór fram í þessum áfanga. Pifff, þetta reddast!

Það er furðufátt að gerast í kollinum á mér þessa dagana, einhvern ógurleg lægð í gangi þar. En hey, gæti ekki gerst á betri tíma því þegar prófin eru búin fæ ég tveggja vikna frí - Happy days...

Ég vil minna gyðjurnar mínar á að hugsa til mín og hvað við gætum haft það rosalega gott saman um páskana.... nei bara svona!