Throw Me a Bone
Það er ekki vegna þess að lífið sé svo viðburðarsnautt hjá mér þessa dagana sem ég kem engu frá mér á þessum blessaða miðli hérna. Lífið er eins og það hefur alltaf verið hjá mér - hálfgerður rússíbani. Það skiptast á skin og skúrir, eins og alltaf. Undanfarið hef ég að vísu náð nýjum hæðum og dýpri lægðum. Sveiflurnar eru jafn klikkaðar og veðurfarið hérna.
Fyrr í dag skellti ég mér inn úr sólinni til að kúra örlítið í baðinu. Innan við klukkutíma seinna var eins og stórskothríð hafi skollið á, húsið nötraði. Ég kíkti út um gluggann og sá hvar Simon var við snúrurnar að bjarga Monsoon kjólasafninu mínu inn úr slyddu viðbjóðnum sem skall á fyrirvaralaust. Akkúrat svona er tilveran í dag. Eins og hún hefur alltaf verið.
Það sem er breytt og gerir það að verkum að ég vanræki þetta blessaða blogg er einfaldlega það að allt mitt púður fer í að skrifa og vinna úr efni fyrir tímaritið sem mun vonandi líta dagsins ljós áður en apríl kveður okkur. Ég hef sorglega lítinn tíma til að sinna móðurmálinu á meðan ég er að keppast við að tæta í mig verk einstaklinga sem hafa skrifað á ensku lengur en ég hef vitað af tilvist hennar. Ó já, hrokinn og valdagræðgin er það sem ég þrífst á núna og, viti menn, mér finnst það æði.
Að vísu hendi ég inn stöku 'grátkasti' á hitt bloggið mitt, þar sem það er á ensku. En þar eru mörkin á milli veruleikans og þeirra sagna sem ég er að vinna með ótrúlega óljós og því hætt við að fólk vilji láta loka mig inni ef það stoppar þar við. Svo það er fólki kannski fyrir bestu að sleppa því...