miðvikudagur, júní 28, 2006

Úti að aka

Laugardagurinn síðasti var með fallegri dögum sem mér rekur minni til að hafa nokkurn tíma augum litið. Ég sat bak við stýrið og ók sem leið lá, með Bolungarvíkina mína í baksýnisspeglinum í fyrstu, í átt að höfuðborgarsvæðinu. Á öðru hundraðinu, undir rammfölskum söng mínum (helvítis bilaða útvarp) sigldi ég í gegnum einn fjörðinn af öðrum og naut útsýnisins og gæðastundar minnar með sjálfri mér. Í botni Skötufjarðar fannst mér heimurinn sjaldan hafa verið fallegri. Sjórinn skartaði átján tónum af grænu og vígalegur örn flögraði um sem eigandi alls heimsins. Póstkortamóment - algjört. Og þau orð sem hér hafa fallið eru ekkert lík Mæju Bet, enda var rómantíkinni senn lokið. Eftir djúpið, góða hluta vestfjarða, tóku við strandirnar og að sjálfsögðu sprakk hjá mér eins og endranær þegar ég keyri þessa krossbölvuðu slóða.

Villuráfandi stóð ég hvítklædd úti í vegkanti og klóraði mér ýmist í kollinum eða rassgatinu. Það rann upp fyrir mér, kristaltært, á meðan ég óskaði þess að dekkskrattinn færi sjálfur undan bílnum, að helvítis rauðsokkurnar eru búnar að drepa alla riddaramennsku. Bílarnir renndu framhjá hver af örðum, spúandi yfir mig rykmekki og smásteinum í stað þess að staldra við og sjá hvort þessi stelpukjáni þyrfti kannski á aðstoð að halda. Ég held að þeir séu smeykir um að þeim mæti fjúkandi illur kvenvargur sem sakar þá um að virða ekki rétt kvenna til að skipta um dekk. Málið er ekki að ég kunni ekki að skipta um dekk, ég vill bara frekar ekki þurfa að krjúpa í mölinni í skósíðu, hvítu pilsi og erfiða við eitthvað sem mér finnst í ofanálag frekar leiðinlegt. "heldurðu að mér finnist erfitt að skipta um dekk bara af því að ég er kona?" er spurning sem ég veit fyrir víst að margir karlmenn óttast að fá fleygt framan í sig ef þeir tækju upp á því að stoppa á þjóðvegum landsins til aðstoðar konu sem stendur og klórar sér í kollinum. Ég skal segja ykkur eitt; ég er kona, eða allavega svona á leið að verða það, og mér finnst erfitt að skipta um dekk.

Að afferma skottið var fyrsta skref. Það var að vísu í léttara lagi í þetta skiptið, henti nokkrum pyngjum í aftursætið og einni 30 kílóa tösku út í vegkant. Þegar skottið var tómt hófst uppgröfturinn, varadekkið, ásamt verkfærum, var falið í holu sem var full af drullu og drasli. Mér var ekki skemmt og ég var að verða uppiskroppa með blautþurrkur til handþvottar. Þegar varadekkið og tólin voru komin út í vegkant var næsta skref að býsnast við að ná hettu af felgunni svo ég næði í rærnar til að losa punkteraða dekkið. Enga hafði ég sexkantana við höndina (hélt ég allavega) svo þetta ætlaði að verða töluverð þraut. Ég gramsaði í beauty-boxinu og fann plokkara sem ég reyndi eftir fremsta megni að nota til að losa hettuna. Að lokum komst ég í gegn og gat þá fyrst hafist handa við verkið. Ég ætla ekkert að hafa mörg orð um hvernig það allt gekk fyrir sig. Það var hvorki skemmtilegt né kvenlegt - en það hafðist. Með skít, drullu og ryðbletti (af tjakknum) í andlitinu og svitadropa perlandi á enni mér skellti ég ónýta dekkinu í skottið og svo hurðinni á eftir því, lak niður í bílstjórasætið og brunaði af stað.

Eftir að hafa ekið einhvern spöl, fimmtán kílómetra eða svo, áttaði ég mig á því að 30 kílóa ferðataskan var enn úti í vegkanti.

Það er sem ég sæi að nokkur karlmaður hefði látið mig sigla af stað með alla kjólana mína hvílandi á vegslóða vestur á fjörðum.