föstudagur, júlí 29, 2005

Skyndipróf


Hér forðum daga, þegar undirrituð var enn lítil stelpa í grunnskólanum, þá var almenna reglan sú að þegar kom að prófum þá voru spurningarnar léttari eftir því sem tíminn var naumari. Hvaða guðdómlega speki er þá á bak við það að gefa okkur eina mannsævi til að átta okkur á lífsgátunni?

Ég var að hugsa þetta um daginn þar sem ég stóð á brún Bolafjallsins og horfði niður í algleymið, frelsið ólgaði beint fyrir neðan mig, spurði einskis og svaraði engu.

Nú er ekki svo gott að geta sér til um tímann sem maður hefur á þessari jörð. Margir vilja meina að lífsstíll geti haft þar mikið að segja - ég sef aldrei og ég borða kokteilsósu, ekki lítur það vel út. Samkvæmt annarri speki gæti ég þó hafa unnið mér inn einhverjar mínútur með hlátursköstum í gegnum tíðina - það er ekki gott að segja. Ég ætla því bara að álikta, í mikilli bjartsýni, að ég sé í hið minnsta komin á seinni hluta fyrsta þriðjungs lífs míns.

Og gott fólk, ég er ekki búin að svara einni spurningu rétt á lífsprófinu. Samt er ég búin að pæla meira í þessu en góðu hófi gegnir - kannski það sé einmitt meinið. Ég einblíni svo mikið á spurninguna að það er ekki vegur fyrir mig að sjá eitt einasta svar.

Enda hló brimið, upp í opið geðið á mér. Það góndi á þessa einmanna, glórulausu veru sem finnur sér hvorki stað eða hlutverk á leiksviði veraldar.

Þegar ég var púki ætlaði ég að bjarga heiminum. Á sex ára afmælinu mínu gaf ég alla aurana mína í hjálparstofnun kirkjunnar, þetta var ekki há upphæð en þetta voru allir peningarnir sem ég átti í heiminum. Svona hugsjónir uxu upp með mér og ég ætlaði að finna leið til að bjarga öllu og öllum. Í dag er með naumindum að ég geti bjargað sjálfri mér frá drukknun. Ég treð marvaða í gegnum lífið, ég veit ekkert hvert ég stefni eða með hverjum.

Kannski brimið ætti ekkert að vera að glotta við mér, það er sennilega ekki að ástæðulausu sem ég leita hælis hjá þessu tregafyllsta og mest einmanna fyrirbæri sem mér dettur í hug. Samkenndin ræður þar sennilega mestu um.

En briminu sameinast ég ekki, allavega ekki fyrr en ég hrekk upp af. Fram að því geng ég á voninni um að ég finni einhver svör og vonandi líka einhvern sem ég má elska - ég held að það sé nefnilega alls ekki allra að vera einir.

Er það annars ekki bara hverjum manni hollt að skella sér í smá tilvistarkreppu við og við?