Frábært hádegi
Matarhlé gerast bara ekki betri en þetta. Veðrið er vitaskuld svo ómótstæðilegt að þrátt fyrir að þrettán flugur hafi rifist um pláss í eyranu mínu þegar ég kom inn í bílinn minn þá gat ég ekki annað en brosandi sungið með einhverju væmnu sumarlagi í útvarpinu. Allir sem ég mætti á ferðinni brostu og kinkuðu glaðlega kolli – hvílík smábæjarstemning í sólinni.
Þegar heim kom stóð stóri surturinn bróður míns, ýlfrandi eða spangólandi eða hvað það nú er sem þessir labradorar gera, á tröppunum við útidyrnar, minn stóri surtur stóð í efstu tröppunni innan dyra og hnusaði í allar áttir og hvæsandi kallaði á mömmu sína, klárlega ósáttur við þessa heimsókn hundsins. Efri hæð hússins var á öðrum endanum og mamma með nefið svo á kafi ofan í skólabók að ég gat með engu móti náð sambandi við hana. Mér var alveg sama! Ég settist bara niður með kjúklingalegg í annarri og kókglass í hinni svo skítsama um öll heimsins hundahár og alla þessa óreiðu. Ég get reyndar ekki þrætt fyrir að maginn minn hafi tekið smá snúning þegar stóri bróðir kom askvaðandi inn í húsið með krakkann sinn undir handleggnum, skellti henni upp á borð og fór að skipta á henni þannig að ég fékk besta útsýni beint upp í útskitið rassgatið á óberminu. Veit ekki hvort þetta var ábending á að megrunar væri þörf – það hefur þá haft tilætlaðan árangur því eftir þetta át ég ekki einn einasta bita.
Þessi dagur er frábær til að halda á að viðra hugmynd mína um ráðhúsleika. Það væri dásamlegt að loka bara öllu klabbinu, bankanum, sýslumans- og bæjarskrifstofnunum, eitt síðdegi og mætast á túninu í ærslafullu kappi til að verða ráðhúsmeistari í hinum ýmsu greinum. Ég á enga ósk heitari í dag en að fá að eiga ráðhúsmet í brennó eða snú snú!