föstudagur, apríl 23, 2004

Frábært hádegi

Matarhlé gerast bara ekki betri en þetta. Veðrið er vitaskuld svo ómótstæðilegt að þrátt fyrir að þrettán flugur hafi rifist um pláss í eyranu mínu þegar ég kom inn í bílinn minn þá gat ég ekki annað en brosandi sungið með einhverju væmnu sumarlagi í útvarpinu. Allir sem ég mætti á ferðinni brostu og kinkuðu glaðlega kolli – hvílík smábæjarstemning í sólinni.

Þegar heim kom stóð stóri surturinn bróður míns, ýlfrandi eða spangólandi eða hvað það nú er sem þessir labradorar gera, á tröppunum við útidyrnar, minn stóri surtur stóð í efstu tröppunni innan dyra og hnusaði í allar áttir og hvæsandi kallaði á mömmu sína, klárlega ósáttur við þessa heimsókn hundsins. Efri hæð hússins var á öðrum endanum og mamma með nefið svo á kafi ofan í skólabók að ég gat með engu móti náð sambandi við hana. Mér var alveg sama! Ég settist bara niður með kjúklingalegg í annarri og kókglass í hinni svo skítsama um öll heimsins hundahár og alla þessa óreiðu. Ég get reyndar ekki þrætt fyrir að maginn minn hafi tekið smá snúning þegar stóri bróðir kom askvaðandi inn í húsið með krakkann sinn undir handleggnum, skellti henni upp á borð og fór að skipta á henni þannig að ég fékk besta útsýni beint upp í útskitið rassgatið á óberminu. Veit ekki hvort þetta var ábending á að megrunar væri þörf – það hefur þá haft tilætlaðan árangur því eftir þetta át ég ekki einn einasta bita.

Þessi dagur er frábær til að halda á að viðra hugmynd mína um ráðhúsleika. Það væri dásamlegt að loka bara öllu klabbinu, bankanum, sýslumans- og bæjarskrifstofnunum, eitt síðdegi og mætast á túninu í ærslafullu kappi til að verða ráðhúsmeistari í hinum ýmsu greinum. Ég á enga ósk heitari í dag en að fá að eiga ráðhúsmet í brennó eða snú snú!

Alltaf að læra

Það varð skammhlaup í fartölvunni hennar mömmu í nótt því ég grenjaði svo ógeðslega mikið ofan í hana. Frábært alveg og ótrúlega mikil hreinsun og eitthvað svona bull sem maður selur sjálfum sér þegar maður er búinn að grenja eins og smástelpa. Vill hver sá sem stal grátstopparanum mínum gjöra svo vel að skila honum! Til augnanna er ég eins og Tilda Rice daginn eftir að hún horfði á Pearl Harbor og ég kann ekkert að meta það. Ég vil mikið frekar fá að vera aftur tilfinningalega lamaður freðklettur – ég hef séð nógu marga lifa fínt með því til að vera sannfærð um ég geti það líka.

Það er ótrúlegt hvað maður getur öslað áfram í einhverjum blekkingaleik og trúað á eitthvað sem fyrir öðrum aðilum sem að því koma er bara bóla. Væri ég freðin í gegn hefði mér verið slétt sama þegar sannleikurinn skall á mér eins og dragúldin kúkableyja – næst mun ég ekki finna fyrir því. Maður verður að spila úr því sem manni er gefið og þó ég hafi greinilega misskilið þessa hönd – hélt ég væri að spila grand en var að spila nóló (ekki alveg sjóuð í þessu spilamáli), þá er bara að læra af þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Það er líklega kominn tími á að maður láti af þessari barnslegu trú á að góðir hlutir gerist og fari að hugsa aðeins um sjálfa sig. Þó sannleikurinn sé sár þá er hann manni sennilega fyrir bestu – það væri bara frábært ef maður gæti einhvertíma skilið hann. Ég fer allavega með meiri gát á næstunni, þó eitthvað/einhver birtist mér sem gull þá er ég sennilega bara að byggja mér skýjaborgir sem eru engum öðrum sjáanlegar.

Mæsa, reynslunni ríkari, kveður að sinni – dauðþreytt og grátbólgin.