Er vilji guðs að birtast á undarlegustu stöðum?
Svona í seinni tíð, þegar mér er farið að reynast snúnara að kenna einhverjum öðrum en sjálfri mér um ófarir mínar er ég ósköp mikið farin að velta mér upp úr æðri mætti og leita að merkjum hans. Það er mjög hentugt, því þeir sjá merkin sem það vilja - og mér tekst að sjá þau hvar sem mér hentar. Ef ég t.d. er að koma úr ræktinni en langar samt í súkkulaði þá þarf ég ekki nema að heyra eina nammiauglýsingu í útvarpinu til að tapa rökræðunum við sjálfa mig, af því að þessi auglýsing hefði ekkert komið núna nema af því að ég má alveg fá mér smá nammi - nema notla það sé verið að auglýsa snickers, sem er bara viðbjóður.
En hvað um það...
Ég var að keyra heim frá viðbjóðslegu Reykjavík nú fyrir skemmstu, það í sjálfu sér er ekkert til frásögu færandi - kemur fyrir besta fólk. Nema hvað að inni í Álftafirðinum þarf ég að stoppa vegna vegaframkvæmda, lendi í smá bílaröð og þarf að sitja í lengri tíma. Þetta hljómar nú eins og eitthvað sem gæti verið agalega leiðinlegt - en nei nei, gott fólk, guð er alls staðar. Fyrir framan mig í röðinni stóð bíll, í honum sátu maður og kona, hún var að prjóna, hann að lesa. Ekki hafði ég nú setið þarna mjög lengi þegar maðurinn snarar sér út úr bílnum og vindur sér í spjall við mig. Hverjir voru þar mættir nema vottar Jehóva;
Votti: Sjekkir tsú guð mit nabbni?
Mæsa: ha? Já já...
Votti: tsú mátt lesa tsessa blött og spjatla við mig seinnara
þrátt fyrir að mér þætti þessi maður hinn elskulegasti sótti að mér beygur þar sem ég hef nú frá blautu barnsbeini heyrt draugasögur af svona mönnum svo að mér læddist nú sú hugdetta að reyna að losa mig við hann. Ekki tókst mér það sem skildi því ég álpaðist til að láta það út úr mér, í kurteisishjalinu, að ég væri nú að skoða það að fara í guðfræðinám - er ég algjör afglapi... ég hélt að maðurinn ætlaði að kaupa mig þegar ég asnaði þessu út úr mér. Til allrar hamingju var vegurinn opnaður áður en ég þurfti að bregða fyrir mig lyginni þegar maðurinn fór að ýja að því að ég væri best komin í hans hópi að segja fólki rétta nafn guðs. Ég slapp með haug af lesefni og þá vitneskju að maðurinn kann númerið á bílnum mínum og veit hvar ég vinn. Var þetta merki frá guði? Sem sannkristin eðalstúlka gæti ég alveg sannfærst um það. En ég hef ákveðið að skoða fleiri hliðar málsins. Sé guð þarna á ferð að reyna að leiða mig í einhvern sannleika þá man hann að sjálfsögðu eftir uppáhalds Bellu byttu*- sögunni minni, þar sem hún fékk einmitt fröken votta-Jehóva í heimsókn og ákvað að íra aðeins upp kaffið hennar svo úr varð mesta skemmtun. Kannski guð sé að senda einhver merki með þessu spjalli en ég ætla þá að líta svo á að hann sé að segja mér að snúa mér aftur að Bellu-sögum eða þá að hann hafi bara verið að senda mér einhvern til að gera þessa töf skemmtilegri – hvað veit maður.
Ég veit það allavega að í gær fór ég í gömlu tölvuna mína að leita að einhverjum Bellu byttu-sögum og það voru ljúfir endurfundir. Eins veit ég að ég hlakka næstum bara til að hitta þennan mann aftur því þetta lesefni vakti alveg upp nokkrar spurningar.
Allir vinna og guðs hróður er aukinn...
* Bellu byttu- sögur eru smásögur sem ég hef skrifað í gegnum tíðna, sjálfri mér til gamans – enginn vissi um þær (þar til núna) nema ég og minn guð