föstudagur, apríl 30, 2004

„Við vitum hvað klukkan slær”

Mikil var gleðin er fylgdi gjöf nokkurri sem beið mín þegar ég kom aftur úr hádegismat í dag. Beið mín ekki þessi fallegi, eiturgræni gripur sem er óneitanlega sláandi líkur græna, eineygða kvikyndinu í Monsters inc., nema þessi var ekki svona feitabolla, heldur stóð upp á mjóum stilk – falleg skepna. Þetta fyrirbæri var sem sagt gjöf til sparisjóðsstarfsmanna fyrir blessaða ánægjuvogina sem fitar okkur ár hvert, auk þess var þetta fyrirbæri klukka. Klukkunni fylgdu nákvæmar leiðbeiningar um hvernig megi stilla hana, það góðar að mér tókst það. Sátt við mitt, sat ég sem dáleidd og horfði á græna dýrið mitt með væmið sumarbros út á kinn. Ég fylgdist með klukkunni minni ganga heilar 7 mínútur áður en ég leit upp á aðra klukku og sá að það var liðið korter.

Ég veit ekki hvort þetta segir mér að það sé plott í gangi um að reyna að láta okkur vinna gífurlega langan vinnudag en ég veit að þetta segir mér að í heilt korter gerði ég ekkert nema horfa á þetta grey og hlæja að því – sælir eru einfaldir...

Frekar þann versta en þann næstbesta

Mikið held ég að maðurinn hafi oft vitað hvað hann söng. Þrátt fyrir að geta hljómað svo skynsamur þegar maður segir keikur að geti maður ekki fengið það sem maður vill þurfi maður að læra að vilja það sem maður fær þá veit maður oft að það er bara bull. Auðvitað er það líka bölvað bull að sætta sig við botninn fái maður ekki toppinn en það er samt eitthvað svo kvenlegt, og tja rómantískt næstum, við leit þess hryggbrotna að millivegi þess að vera réttilegur píslarvottur eða fáviti. Það er sennilega eitthvað í eðli okkar kvenna að halda í harminn, eða kannski er það bara eitthvað sem mér tekst ekki að losa mig undan - ég skal ekki segja. Ég veit allavega vel upp á mig sökina hvað það varðar að vaða úr öskunni í eldinn með galopin og helst tárvot augu. Komi ég að einhverju sem mér finnst nógu vont eða erfitt er það bókað að ég vel að leggja eitthvað enn verra á mig eins og til að smána hinn upprunalega sársauka – auðvitað er það bilun, en hver verður ekki vangefinn þegar kemur að samskiptum kynjanna?

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Er vilji guðs að birtast á undarlegustu stöðum?

Svona í seinni tíð, þegar mér er farið að reynast snúnara að kenna einhverjum öðrum en sjálfri mér um ófarir mínar er ég ósköp mikið farin að velta mér upp úr æðri mætti og leita að merkjum hans. Það er mjög hentugt, því þeir sjá merkin sem það vilja - og mér tekst að sjá þau hvar sem mér hentar. Ef ég t.d. er að koma úr ræktinni en langar samt í súkkulaði þá þarf ég ekki nema að heyra eina nammiauglýsingu í útvarpinu til að tapa rökræðunum við sjálfa mig, af því að þessi auglýsing hefði ekkert komið núna nema af því að ég má alveg fá mér smá nammi - nema notla það sé verið að auglýsa snickers, sem er bara viðbjóður.
En hvað um það...

Ég var að keyra heim frá viðbjóðslegu Reykjavík nú fyrir skemmstu, það í sjálfu sér er ekkert til frásögu færandi - kemur fyrir besta fólk. Nema hvað að inni í Álftafirðinum þarf ég að stoppa vegna vegaframkvæmda, lendi í smá bílaröð og þarf að sitja í lengri tíma. Þetta hljómar nú eins og eitthvað sem gæti verið agalega leiðinlegt - en nei nei, gott fólk, guð er alls staðar. Fyrir framan mig í röðinni stóð bíll, í honum sátu maður og kona, hún var að prjóna, hann að lesa. Ekki hafði ég nú setið þarna mjög lengi þegar maðurinn snarar sér út úr bílnum og vindur sér í spjall við mig. Hverjir voru þar mættir nema vottar Jehóva;

Votti: Sjekkir tsú guð mit nabbni?
Mæsa: ha? Já já...
Votti: tsú mátt lesa tsessa blött og spjatla við mig seinnara

þrátt fyrir að mér þætti þessi maður hinn elskulegasti sótti að mér beygur þar sem ég hef nú frá blautu barnsbeini heyrt draugasögur af svona mönnum svo að mér læddist nú sú hugdetta að reyna að losa mig við hann. Ekki tókst mér það sem skildi því ég álpaðist til að láta það út úr mér, í kurteisishjalinu, að ég væri nú að skoða það að fara í guðfræðinám - er ég algjör afglapi... ég hélt að maðurinn ætlaði að kaupa mig þegar ég asnaði þessu út úr mér. Til allrar hamingju var vegurinn opnaður áður en ég þurfti að bregða fyrir mig lyginni þegar maðurinn fór að ýja að því að ég væri best komin í hans hópi að segja fólki rétta nafn guðs. Ég slapp með haug af lesefni og þá vitneskju að maðurinn kann númerið á bílnum mínum og veit hvar ég vinn. Var þetta merki frá guði? Sem sannkristin eðalstúlka gæti ég alveg sannfærst um það. En ég hef ákveðið að skoða fleiri hliðar málsins. Sé guð þarna á ferð að reyna að leiða mig í einhvern sannleika þá man hann að sjálfsögðu eftir uppáhalds Bellu byttu*- sögunni minni, þar sem hún fékk einmitt fröken votta-Jehóva í heimsókn og ákvað að íra aðeins upp kaffið hennar svo úr varð mesta skemmtun. Kannski guð sé að senda einhver merki með þessu spjalli en ég ætla þá að líta svo á að hann sé að segja mér að snúa mér aftur að Bellu-sögum eða þá að hann hafi bara verið að senda mér einhvern til að gera þessa töf skemmtilegri – hvað veit maður.

Ég veit það allavega að í gær fór ég í gömlu tölvuna mína að leita að einhverjum Bellu byttu-sögum og það voru ljúfir endurfundir. Eins veit ég að ég hlakka næstum bara til að hitta þennan mann aftur því þetta lesefni vakti alveg upp nokkrar spurningar.

Allir vinna og guðs hróður er aukinn...


* Bellu byttu- sögur eru smásögur sem ég hef skrifað í gegnum tíðna, sjálfri mér til gamans – enginn vissi um þær (þar til núna) nema ég og minn guð

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Games People Play

Djöfull get ég orðið ógeðslega þreytt á því að spila með í þessum veruLEIKUM – ég kann ekki reglurnar og ég þekki ekki mörkin. Er ég of einföld eða of saklaus til þess að geta fylgt eftir öllu þessu bulli í kring um mannleg samskipti? Ég er, fyrir svo lifandis löngu, komin með viðbjóð á óekta fólki og guð minn góður hvað það er eitthvað að tröllríða öllu á þessum síðustu og verstu. Það er ein regla sem ég virði – What you see is what you get, ef hún á ekki við um þig slepptu því þá að brosa framan í mig því ég HATA gervibros næstum eins mikið og ég HATA gervihlátur. Er virkilega enginn munur á kurteisi og gabbi lengur?

Kannski er ég að spila leiki án þess að fatta það, ég efast reyndar um það því bróðurpartur alls míns tíma upp á síðkastið hefur farið í að vera ringluð og pirruð á að skilja ekki leikinn sem ég er allt í einu komin inn í. Þegar leikur er leikinn eiga allir sem að honum koma að fá að vita reglurnar – ef fólk ætlar sér að spila með mig þá bið ég það vinsamlega að útskýra það allt fyrir mér – annars endar það bara með illindum. Auðvitað eru vissar reglur sem tengjast mér en ég leifi fólki bara að vita þær. Ég er vissulega skrítin á einhverjum sviðum, t.d. áttu ekki von á góðu ef þú snertir á mér hnén – það er bara bannað. Annað sem er ágætt að vita um mig er að ég hata bull og feluleiki svo ógeðslega mikið að ég er farin að vera allt of mikið eins og opin bók – ég nenni ekki að draga undan eða spila eitthvað sem ég er ekki því svoleiðis kemst upp um síðir. Ég á það til að vera óhóflega hreinskilin og leggja kannski helst til mikið upp úr því að fólk viti hvar það hefur mig af því að það er eitthvað sem ég kýs oftast að vita varðandi aðra. Ekki láta sem þér sé vel við mig ef þér er það ekki – það eru allar líkur á að mér sé ekkert vel við þig heldur. Ég er samt ekkert að tala um að þú eigir þá að hrækja framan í mig, vertu bara kurteis án þess að spila fávita. Það er ótrúlegt að manneskja sem fyrir fáeinum árum þoldi ekki krakka skuli í dag eiga sín bestu samskipti við börn – þau eru einfaldlega of hreinskilin og flekklaus til að taka þátt í blekkingaleikjum og undirferli.

Ég get ekkert komið þessu efni frá mér – ég er bara pirruð á fólki sem er alltaf að leika eitthvað sem það er ekki, hafi ég sagt við þig að mér finnist þú ekta þá veistu að þú ert ein af eftirlætis manneskjunum mínum.