“Home should be a refuge, not a place for you to dwell upon, with misery and sorrow”
Ég fann hvað veggirnir eru farnir að þrengja að mér þegar símaógeðið fór að emja klukkan hálfníu í morgun, ég náði ekki að hugsa þá hugsun til enda;
hvað gerðist ef ég færi í vinnu, svo ég ákvað að taka daginn í smærri skrefum. Ég staulaðist inn á klósett og gerði þau mistök að horfa í spegilinn, ég var venju fremur ljót enda græn eftir enn eina ælunótt. Fyndið hvað maður verður grænn og tekinn í framann á meðan helvítis kviðurinn þenst út og telur það lensku að teygja sig út til allra átta. Eftir að hafa klætt mig í græna dragtarógeðið og drekkt verstu magaverkjunum í vatnsþambi fór ég upp og góndi á imbann þar til klukkan var skriðin leiðinlega nærri níu. Þá sagði ég sjálfri mér að ég ætlaði aðeins að skreppa niður í banka þegar ég í raun var auðvitað bara á leið í vinnu. Reyndar leið svo vinnudagurinn nokkuð fljótt og átakalaust þegar ég var loksins komin þangað, að undanskildum nokkrum árekstrum og fáeinum æluferðum að klósettinu. Kannski vinnan sé það skásta hér um slóðir þessa dagana.
Ég kom svo heim eftir vinnu í dag og hlammaði mér í sófann, með skeifu framan í mér. Mér varð litið á teikninguna af prinsessu forelda minna og að mér sótti felmtur þegar ég áttaði mig á því að mér fannst ég vera að horfa á mynd af látinni manneskju – svo mér er spurn;
eru dagar Mæsunar senn taldir?
Þrátt fyrir alla mína raupfyrirlestra og það beljandi stórfljót af ást sem ég þykist bera til heimahaga minna þá þykist ég vita að ég verði að komast héðan. Fari ég ekki senn héðan og geri þetta, með aðstoð fjarlægðarinnar, að þeirri paradís sem ég alltaf tala um þá mun ég deyja. Þessi kroppsfjandi minn mun sennilega tóra um ókomin ár, af fífldirfsku og gömlum vana, en sýkið sem er að myndast hérna í kringum mig mun drekka upp sál mína og koma henni út á hafsauga.
Þegar maður er krakkafífl eins og ég, þrátt fyrir háan aldur, tel mig enn vera á maður ekki að sitja heima í sorg og sút. Erfiðleikar eiga að vera bundnir við alla aðra staði en heimahagana. Þangað á maður að geta leitað til að gleyma, drekkja sér í yndi bernskunnar, hlæja og láta eins og fífl – hvíla sig á amstri hins vaxandi einstaklings. Maður á að vera flúinn annað þar sem maður tekur út alla breidd tilfinningaregnbogans en kveður hann svo aftur, sáttari og reyndari. Maður á ekki að snúa aftur heim nema annað hvort til að hvíla sig á sveiflum frá hæstu hamingju til dekksta svartnættis eða sé maður til þess reiðubúinn að setjast að heima og takast á við lífið, hæðir þess og hóla.
Ég er ekki tilbúin til þess. Og enn síður er ég tilbúin til að takast á við einsemd heima hjá mér – ég þarf að komast burt áður en ég fer að hata víkina mína.
Annars er bara enn mánudagur í mér og ég er einmanna, hver verður ekki leiðinlegur við það?