fimmtudagur, júlí 03, 2003

Fyrir enga muni gat ég fest svefn í nótt þökk sé aukinni, fáránlegri spennu í mér. Ég lá og snérist eins og kjúklingur í grilli, þungt hugsi og víðs fjarri. Guð, hvað ég reyndi að telja ekki stjörnurnar í loftinu en það var svo komið að ég varð að fá að vita tölu þeirra. Ég er búin að ná að hemja mig lengur en ég hefði nokkurn tíma trúað að ég gæti og því frekar svekkjandi að þurfa að fara, eins og fáráður, að telja þær í nótt. Að sjálfsögðu lét ég það ekkert strax eftir mér, fyrst fór ég inn á bað og horfði á tannburstana mína – en ég vissi alveg hvað þeir voru margir svo þar var engu svalað. Eins vissi ég að ég á eina tannkremstúpu á hvern tannbursta, ekki var til neins að telja ilmvatnsglösin eða skoða hve nærri innihaldslýsingunni sjampóið var komið. Allt þetta var ég alveg með á hreinu – fólk gæti haldið að ég kunni baðherbergið mitt of vel en það er þó nokkuð skárra en að telja allar bækurnar í herberginu mínu.
Á meðan ég reyndi að horfa ekki á stjörnurnar taldi ég rósirnar í knippinu ofan við rúmið mitt, myndarammana á veggjunum, koddana og sængurnar í rúminu. Allt kom fyrir ekki – ég gat ekki sofið. Ég reyndi enn á ný að róa mig yfir ljóðasafni og las gullleitarmanninn einu sinni enn – það hjálpaði ekkert. Las brúðarskóna – sömu sögu var þar að segja. Ég reyndi þó að leggjast aftur eftir þessar tilraunir mínar og lá lengi við þessu frábæru og of tíðu iðju mína – að reyna að sofna. Seint og um síðir gafst ég upp, spratt á fætur og taldi helvítis stjörnurnar – je minn eini hvað mér leið dásamlega. Brosandi sveif ég inn í draumalandið og hló dátt í alla nótt, í draumum mínum gerðust bara góðir hlutir (eftir að ég hafði hlaupið volandi út úr prófi) og hamingjan beið mín á hverju strái. Svo þurfti ég að vakna... hvað er það? Af hverju má maður ekki njóta þess í smá stund að hafa allt til alls og vera elskuð og dáð af öllum veraldarinnar skepnum? Nei, við skulum láta helvítis vekjarann fara að öskra... god damn it!

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Vá en sá dagur...


Ég ætla bara rétt að svara kommentum í gestabókinni minni-

Rúna: Mér er alveg batnað og ég var nú ekki að gera neitt svakalegt af mér - frekar en vant er

Tinna: Hættu þessu guðsvolaða væli stelpuskjáta og hættu að koma hingað akkúrat þegar ég er löngu búin að plana að fara suður - og by the way ég er nú búin að endurplana alla ferðina svo ég geti komið vestur til vítis að djamma með ÞÉR. Gratitude hérna...

samt vil ég fá fólk til að djamma með mér í Rvík á föstudeginum

Lovísa: Það að gera ráð fyrir hálfum sólarhring (hvora leið) frá Bolungavík til Hornafjarðar er ekki hægakeyrsla þetta er spurningin um að ætla sér að komast þessa ellefuhundruð kílómetra á lífi - ég er ekki sátt við að missa af þessu en svona er víst lífið - eitthvert árið kem ég... vertu bangin - vertu mjög bangin

Rúna (again):Vá, mig langar svo á Grundafjarðardagana - eftir að hafa gert allt vitlaust þarna í fyrra þá þyrstir mig í að mæta. Ef þú lofar góðri veðurspá (hún þarf ekki einu sinni að standa sko) fyrir þessa helgi eru allar líkur á að ég verði í útilegu þar near by og geti komið yfir til að fá fólk upp á móti mér. En Baldur? I don't think so... fljótlegra að rúnta þetta bara - eins og ég er að fara að gera núna um helgina - mættu núna.. ræfillinn þinn



en jæja, hlutirnir klúðrast ekki án minnar aðstoðar so i'd better get back to work!

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Hvaða leið er best að fara frá Bolungarvík og yfir til Ólafsvíkur?

Eftir töluverða íhugun og strangar vangaveltur um það hvort maður ætti að nenna að fórna rúmum sólarhring í keyrslu milli Hafnar í Horafirði og Bolungarvíkur hefur ákvörðun verið tekin um að skella sér á Færeyska daga í Ólafsvík og gleyma humarhátíðinni blessuðu. Þar sem karl faðir minn hefur greynilega takmarkaða trú á rötunarhæfni minni um þetta guðsvolaða land okkar (kannski er hann bara klár kallinn að læra af reynslunni) keypti hann fyrir mig þetta líka forláta vegakort sem ég hef nú legið yfir. Ég er búin að mæla út þær heiðar sem ég get valið á milli og vellt þessu öllu fyrir mér, tekið tillit til þess hvaða hluta ég þekki, hvaða hlutar séu malbikaðir og reynt að gera þetta allt á sem gáfulegastan hátt og útkoman er sú að ég hef ekki minnstu hugmynd um það hvernig sé best að skoppa þarna yfir. En mér er nokkuð sama - i'm going og það verður bara gaman, þó ég gæti átt það til að velja lengstu leið og vera 7 tíma á leiðinni - piff, færi þá bara aðra leið til baka.

Annars vil ég fátt segja í dag, ég er með þriðjudagsverki - mikið eru það vondir dagar!

og helvítis skatturinn tók alla peningana mína einu sinni enn......

mánudagur, júní 30, 2003

Hlöðuball

Þetta var fíííííín helgi! Þótt föstudagurinn hafi verið sallarólegur var bara ósköp fínt að hanga heima hjá Dibbu í drykkjuleik með henni, mömmu hennar og móðursystur. Stemmningin á Finnabæ var alveg bærileg þótt gjarnan hefði þar mátt vera fleira fólk. Við Sigurbjörg erum eðal grúbb-píur og kunnum næstum öll frumsömdu lög dúetsins Myst. Ég er ekkert döpur með það að hafa bara verið komin undir sæng á nær kristilegum tíma eða upp úr 3.

Laugardagurinn fór nær eingöngu í það að hanga og bíða eftir að stelpuskjáturnar yrðu búnar að vinna svo hægt væri að drattast yfir á Ingjaldssand. Reyndar fór ég í ríkið upp úr eitt og mætti heilli fylkingu fávita sem var að hlaupa hlíðina í hinu árlega Óshlíðarhlaupi - for the love of god, hvað amar að þessu pakki? af hverju dettið þið ekki bara í það eða gerið eitthvað svona eðlilegt á laugardögum?

En hvað um það... Eftir heilan dag í bið var dagur loks að kveldi kominn og við gátum haldið af stað yfir. Það hafðist eftir fáránlega akstursleið og tel ég að best sé að hafa ekkert um það mikið fleiri orð.

Um leið og við renndum í hlað á Hrauni var opnaður bjór og sýndist mér á þeim fyrstu sem við hittum að við þyrftum að hafa hraðar hendur ef við vildum reynda að draga úr forskoti því sem fólk hafði á okkur - ætli það hafi nú ekki með tímanum hafist. Eftir að hafa kastað upp þessu glæsta tjaldi var fátt annað að gera en að hella í sig og hafa gaman. Og svo var gert. Þarna var þessi líka fíni varðeldur og snillingur lék á nikkuna og fór á kostum mér til svo mikillar kæti og eftirtektar að ég er enn að jafna mig. Ekki minnkaði aðdáun mín þegar á ballið var mætt og í ljós koma að þessi guðdómlegi maður átti að sjá um að troða þar upp - mér var varla stætt.

Þegar töluvert var liðið á ballið hitti ég fyrir nokkra útlendinga - svía, norðmann, frakka, ítala, spánverja og einn sem búið hafði í noregi lengi vel og þóttist vera þaðan en reyndist svo vera íslendingur - það var neyðarlegt að komast að þessu þar sem munnsöfnuður minn fyrir framan hann var ekki af síðri endanum. Hvergi nærri eins neyðarlegt þó og sú staðreynd að ég talaði við frakkagreyið á minni bjöguðu og ónothæfu FRÖNSKU - Go Mary! það sem stendur upp úr okkar spjalli er þegar litla manngreyið snéri sér að mér, banginn mjög, og sagði "you scare me". Hvað get ég sagt? allt sem ég kann í frönsku felur í sér einhverskonar hótanir.

Þó ég hafi kannski hrætt þennan mann jafnast samt ekkert á við ítalann sem Dibbu leist bersýnilega vel á - ég hef aldrei séð neitt fyndnara en þegar ég mætti þessum grátandi ítala á harðahlaupum með snargaraða Dibbu á eftir sér "is she always like this - alway so... excited?"

Sigurbjörg náði ekki ítalanum heldur var keyrt heim í tjald í hjólbörum - andskotinn að hafa ekki séð það...

Morguninn eftir var ömurlegt að vakna í tjaldi með eitt stykki Dibbu utan um sig, ahhh kúra! Ekki leist mér beint á blikuna þegar ég fór að leita að Evu og fann hvorki hana né bílinn. Snérist ég í hringi eins og riðuveik rolla í leit að sjálfri mér og æðri sannleik þar til mér var boðið í grill og spjall. Í þessu spjalli kom m.a. fram að einvher hefði séð grænan Subaru fyrir ofan eitthvað refabú - fjarri gestum og gangandi. Þegar ég hafði össlað í gegnum holdvott grasið sem náði upp á mið mín læri fann ég Evu á þessum stað - alsæla á milli svefns og vöku.

Eftir að hafa fundið bílinn ákvað ég að setjast undir stýrir (svo hann hyrfi nú ekki aftur) og hélt af stað heim... þessi sunnudagur var besti þynnkudagur sem ég hef upplifað svo lengi...

nú er það bara að plana færeysku í ólafsvík á næstu helgi...


p.s. Ég horfði á Evu éta SJÖ pylsur, mun ég einhverntíma gleyma því?