Fyrir enga muni gat ég fest svefn í nótt þökk sé aukinni, fáránlegri spennu í mér. Ég lá og snérist eins og kjúklingur í grilli, þungt hugsi og víðs fjarri. Guð, hvað ég reyndi að telja ekki stjörnurnar í loftinu en það var svo komið að ég varð að fá að vita tölu þeirra. Ég er búin að ná að hemja mig lengur en ég hefði nokkurn tíma trúað að ég gæti og því frekar svekkjandi að þurfa að fara, eins og fáráður, að telja þær í nótt. Að sjálfsögðu lét ég það ekkert strax eftir mér, fyrst fór ég inn á bað og horfði á tannburstana mína – en ég vissi alveg hvað þeir voru margir svo þar var engu svalað. Eins vissi ég að ég á eina tannkremstúpu á hvern tannbursta, ekki var til neins að telja ilmvatnsglösin eða skoða hve nærri innihaldslýsingunni sjampóið var komið. Allt þetta var ég alveg með á hreinu – fólk gæti haldið að ég kunni baðherbergið mitt of vel en það er þó nokkuð skárra en að telja allar bækurnar í herberginu mínu.
Á meðan ég reyndi að horfa ekki á stjörnurnar taldi ég rósirnar í knippinu ofan við rúmið mitt, myndarammana á veggjunum, koddana og sængurnar í rúminu. Allt kom fyrir ekki – ég gat ekki sofið. Ég reyndi enn á ný að róa mig yfir ljóðasafni og las gullleitarmanninn einu sinni enn – það hjálpaði ekkert. Las brúðarskóna – sömu sögu var þar að segja. Ég reyndi þó að leggjast aftur eftir þessar tilraunir mínar og lá lengi við þessu frábæru og of tíðu iðju mína – að reyna að sofna. Seint og um síðir gafst ég upp, spratt á fætur og taldi helvítis stjörnurnar – je minn eini hvað mér leið dásamlega. Brosandi sveif ég inn í draumalandið og hló dátt í alla nótt, í draumum mínum gerðust bara góðir hlutir (eftir að ég hafði hlaupið volandi út úr prófi) og hamingjan beið mín á hverju strái. Svo þurfti ég að vakna... hvað er það? Af hverju má maður ekki njóta þess í smá stund að hafa allt til alls og vera elskuð og dáð af öllum veraldarinnar skepnum? Nei, við skulum láta helvítis vekjarann fara að öskra... god damn it!