miðvikudagur, apríl 06, 2005

Good Friday - Bloody Sunday


Írar tala um Good Friday í stað þess að tala um föstudaginn langa, það finnst mér einkennilegt. Ég er samt farin að sjá að hann getur ekki verið neitt langur í þeirra augum, allavega ekki miðað við páskana sem sem virðast engan endi ætla að taka hjá þessu liði. Eins og heimamenn segðu "I'm bored stupid". Nema það er hæpið þeir segðu það af sömu ástæðu og ég því Írar eru með einsdæmum værukær þjóð og mér sýnist enginn annar kunna þessu 3ja vikna páskafríi illa.

Annars var dymbilvikan sjálf alveg prýðileg. Við Eva Ólöf höfðum það fínt saman þó einu sinni eða tvisvar hafi verið komin upp suðan á gráu silfri, enda sjaldgæft að tveir fuglar í búri sitji sáttir. Upp úr stendur sérstaklega þegar ég var að því komin að henda henni fram af hömrum fyrir að gera grín að akstri mínum í þessari öfugugga umferð hérlendis - segir sennilega meira um mína skapbræði en hennar. Við tókum þá ákvörðun að blása á allar tröllasögur og kíkja til Londonderry og sjá hvort við fyndum ekki minjar frá Bloody Sunday, þar á víst að vera góður og flottur garður sérlega hentugur fyrir fáfróða túrista á borð við okkur. Með þykkan þynnkufnik í bílnum (og að sjálfsögðu alla þá dásamlegu fylgifiska sem synda út um rassgatið á Evu þegar svo er ástatt) hentumst við um þessa þröngu vegi, með kolrangt vegakort í farteskinu að sjálfsögðu (Dublin er víst fyrir sunnan). Öfugu megin við gírstöngina ók ég úti í kanti sem leið lá í gegnum land hinna þrjúþúsundmilljón hringtorga - sem er það besta þegar þú skalt alltaf leitast við að fara öfugan hring. Við vorum rétt að vakna og læra að meta undur náttúrunnar þegar smábæjarsálirnar í okkur voru keyrðar á fullt. Áður en við vorum almennilega búnar að átta okkur á að við værum farnar frá bænum mínum vorum við að sigla inn í hina alræmdu borg Londonderry, falsgaulandi og hvergi nærri þessum heimi vorum við því síst að búast við hernum. Í því sem við komum inn fyrir bæjarmörkin blasti við okkur maður inni í runna í fullum herskrúða, ég reyndi að telja mér trú um að ég væri að ímynda mér þetta en þessi haugur riffla sem tók við gerði mér það erfitt fyrir. Við kyngdum þó kekkinum og ókum áfram, ekki af því að það væri efst á óskalista heldur af því að við vorum að skíta á okkur og áttum allt eins von á að vera skotnar ef við staðnæmdumst. Gátum við verið meiri smábæjarpjásur? Þegar þetta "hættuástand" var afstaðið grétum við úr hlátri og gerðum gott úr þessum degi án þess þó að finna nokkuð túristavert. Við fundum dótabúð og það dugði okkur fínt. Londonderry er eflaust ágætis hola.

Nú er Eva þó farin og ég sit uppi með aðgerðar- og algert svefnleysi. Það vill geðheilsu minni til bóta að skólinn byrjar á mánudaginn svo kannski þá megi enn sjá eins og einni og einni villuráfandi heilabylgju bregða fyrir. Fram að þeim tíma held ég á að liggja yfir skrifum fyrir Írana - fátt annað að gera á svona dögum.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Einhvern veginn bregst hugvitið manni þegar maður þarf kannski helst á því að halda. Að taka eitt og eitt próf aftur væri ekki það versta sem ég gæti hugsað mér en andskotinn hvað ég vildi oft að ég gæti stólað betur á það þegar kemur að hlutum sem raunverulega skipta máli. Þegar kemur að málefnum hjartans þá mun enginn leiðarvísir hjálpa okkur. Fólk kallar mig bitra og svartsýna en kannski er ég bara þreytt.