miðvikudagur, maí 05, 2004

Mæsa kókosbolla

Nú er minn hróður stórlega aukinn – í fyrsta sinn síðan mælingar hófust hefur Mæja Bet Jakobsdóttir borið sigur úr býtum í kókosbollukappáti – og það á karlmanni. Já, í þessum töluðu orðum situr Rögnvaldur stórfrændi minn og hvílir þungt höfuð í kjöltu sinni á meðan hann grætur þetta ógurlega tap. Þetta mun aldrei gleymast...

Líka eins gott að eitthvað sniðugt skildi gerast því það er búið að hafa af mér ballið sem ég ætlaði á um helgina – kölluð suður með dags fyrirvara, takk fyrir takk!

Veit ekkert hvenær ég verð bloggfær á ný svo ég bið ykkur vel að lifa rétt á meðan

Gamli skórinn

Maður hefur nú slitið eða vaxið upp úr ófárri flíkinni í gegnum árin. Komið hefur fyrir að maður sé hættur að nota eitthvað sem getur svo nýst öðrum í áraraðir, oftast finnst manni það ekkert mál- en það er eitthvað öðruvísi við gamla skóinn. Sama hve slitinn og ljótur, illa þefjandi og óþægilegur hann getur orðið - hann er gamli skórinn. Jafnvel þó maður vilji ekki fyrir nokkra muni láta sjá sig í gripnum og maður fái hælsæri eða nagla í hælinn í hvert sinn sem maður treður sér aftur í hann þá er hann bara ekki hlutur sem maður er tilbúinn að láta af hendi. Maður getur átt gullfallegan og alveg heilan kjól inni í skáp sem manni finnst ekkert mál að gefa í söfnun Rauða krossins svo einhver fái hans nú notið, en gamli skórinn á bara að vera inni í skáp. Maður vill ekki sjá hann á einhverjum öðrum, hann á bara að sætta sig við þau örlög að vera – og verða aldrei neitt annað en gamli skórinn. Þetta er bara einhvernvegin svona með suma skó...