fimmtudagur, maí 27, 2004

Verður maður góður á einum degi?

Hingað til hefur verið hægt að hafa ófá orð um kænsku mína þegar kemur að því að vera afburðarléleg í golfi - er það liðin tíð? Nokkuð undravert gerðist rétt í þessu & því fer fjarri að ég sé nokkuð nálægt því að komast niður á jörðina af forundran & kátínu. Mæja litla Bet fór í mini-golf með Hauki frænda sínum, hún hefur prófað að leika listir sínar þar áður & persónulegt met hennar, fram til þessa kvölds að sjálfsögðu, var á að giska... æji, förum ekkert of náið út í þá sálma, allavega nokkur högg yfir pari. Í kvöld lék hún tvo hringi. Þann fyrri hélt hún ágætlega vel við honum frænda sínum og kláraði sátt á 5 höggum UNDIR pari. Hún var rög við að hefja seinni hringinn þar sem hún vildi hætta á toppnum með þessi fimm högg sín í pokahorninu til að gorta sig af um ókomna tíð. Til allrar lukku & hamingju hélt hún þó áfram. Stelpan hóf hringinn á glæsilegu höggi sem hún fylgdi reyndar eftir með hörmulegum mistökum en eftir það var ekki á nokkurn bratta fyrir hana að sækja. Þegar hún hafði svo gulltryggt sigur sinn með að leika sér að því að fara tvisvar (í röð) holu í höggi var ljóst að hún væri að klára þann seinni á NÍU höggum undir pari... níu níu níu!!! Takið við því, aldrei fyrr hefur golf verið svona sniðug hugmynd fyrir mér, ég verð kannski aldrei púttmeistarigolfklúbbsBolungarvíkurnítjánhundruðníutíuogátta en gæskan, farðu að gæta þín því hver veit nema þessi sveifla sé komin til að vera.


Utan við þetta er fátt títt úr auðninni. Enn þessi blíða sem ætlar mig að kæfa en það virðast allir svo ósköp sáttir að ég get ekki annað en brosað út í annað. Fór út að labba aftur í dag, verð að fara að passa mig því mér lýst alls ekki á þessa þróun - gæti bæði lagt af & tekið lit... engan ósóma takk! Við Haukur erum komin með nafn á bókina okkar, það er svo flott að ég held að það sé best að halda því leyndu enn um sinn til að forða því frá höndum ritruplara. Mér fannst strákurinn ekkert sáttur við tillögu mína um að taka sér upp listamansnafn svo ég stakk upp á að við mættumst þá á miðri leið og hann yrði áfram Haukur en frændi í stað Sigurðssonar.

Sumarið virðist komið allt í kringum mig, vonandi að það verði bara brátt aftur sumar í hjarta mínu... oj :)



þriðjudagur, maí 25, 2004

Hvaða vitleysa

Ja hérna hér, ég veit ekki hvað hljóp í mig fyrr í dag, svona leiðinleg ætla ég nú ekki að vera, o sei sei nei. Hafir þú ekki lesið síðustu færslu ráðlegg ég þér að sleppa því, hafir þú gert það bið ég þig að hafa mig afsakaða. Ég sit heima í eymd og volæði og má ekkert gera, það þarf sterk bein til að hverfa ekki á vit geðillskunnar þegar svo stendur á.

Rétt í þessu var ég þó að gera samning sem bjargar geðheilsu minni - ég hef fengið hann Hauk frænda minn með mér í það verkefni að skrifa bók á meðan hvorugt okkar er að vinna. Ekki nóg með að það bjargi mér heldur mun það sjálfsagt bjarga mannkyninu því við erum bæði svo sérstaklega dásamlegt fólk. Ekki er með öllu ljóst hvernig bók um ræðir, efni, nafn og útgáfudagur er allt óráðið en það eitt er víst að hún verður stórkostleg.

Nú sé ég fram á bjartari tíð, mun una mér vel við eitthvað sem ég dái í stað þess að velta mér upp úr hlutum sem eru svo óravegu frá mínum skilningi.

Ágætis síðdegi hér í einskismannslandi, þannig viðrar að ég minnti sjálfa mig á sveittan grís þar sem ég gekk, hlæjandi, um götur bæjarins í fríðum hópi kvenna ásamt krónprinsinum hennar Stebbu... og ofvaxna hundinum hennar að sjálfsögðu.


Ta ta

p.s. kann einhver óbrigðult ráð við hárlosi?

Pirruð!!!


Ég held að mig skorti greind til að halda uppi eðlilegum mannlegum samskiptum, það er á mörkunum að ég nenni því orðið. Getur það í alvöru þurft að vera svona mikil vinna að halda sambandi við vini sína? Ég vil bara fara að fá reglur, svartar á hvítu, um hvað ég má og hvað ég má ekki, hvað sé gott og hvað sé slæmt. Er það kannski sneið sem ég þarf að fara að taka þegar ég er farin að þurfa að elta fólk uppi til að yfir höfuð vita hvort það sé á lífi? Þegar fólk hringir aldrei, sendir aldrei SMS, stoppar mann aldrei á rúntinum og talar aldrei við mann af fyrra bragði á MSN er ég þá kannski bara hlægilega flónið að sitja og trúa því enn að það sé eitthvað pláss fyrir mig í lífi viðkomandi? Það er ekki hægt að skrúfa svona algjörlega fyrir öll samskipti án þess að manni verði eitthvað brugðið! Kannski er ég bara leiðinlega manneskjan, so be it - hvernig væri þá bara að segja mér það í stað þess að láta mig hanga endalaust eins og fávita?

Í Veikindafríi


það er ekki laust við að sparnaður í heilbrigðiskerfinu sé farinn að vera áþreifanlegur - ekki svo að skilja að ég hafi fundið fyrir honum á leiðinlegan máta, þvert á móti raunar. Áður en bráðskemmtileg sjúkrahúsdvöl mín hófst, nú fyrir skemmstu, var ég send heim með eitt og annað til að undbúa mig fyrir skurðaðgerð. Hér áður fyrr hefði ég bara verið lögð fyrr inn en nú eru breyttir tímar, ég fékk hvorki meira né minna en að sprauta mig sjálf. Já, gott fólk, nú fyrst er Mæsan langt leidd - þetta fólk er ekkert að taka það inn í myndina að maður sé nýlega laus úr meðferð... nei nei, stuðlum að falli því þetta er svo ódýrt - þetta á nú reyndar ekkert við í mínu tilfelli... en vissulega umhugsunarvert.

Það er ekki laust við að mér hafi verið skemmt fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð, það mikið skemmt að ég var farin að halda að ég þyrfti að byrja talningu mína upp á nýtt, (sleppti því samt og stend í 145 í dag). Ég vaknaði öll tjóðruð við rúmið með snúrur út um allt, mér leist ekkert á þær svo ég vakti kátínu allra viðstaddra með að rífa hverja og eina einustu af mér. Fyrsta klukkutímann kom svo ekki eitt íslensk orð upp úr mér, þess í stað fékk ég munnræpu á ensku og fræddi banginn útlending um ágæti þess að éta súrt slátur. það er nokkuð ljóst að ekkert má út af bera hjá henni þessari - þarf að hafa sig alla við til að vera ekki gegnheilt fífl.

En sjúkrahúsdvölin var að mestu bara notaleg, ég litla barnið á svæðinu (ágætis nýbreyttni) og naut því mikils dekurs og væntumþykju. Fékk til mín sjúkraþjálfara sem nuddaði mig í bak og fyrir - ekki slæmt!

Ég ætla ekki að fara út í sjúkrahúsmatinn að svo stöddu - eins og gefur að skilja er ég ekki sátt við að fá hakkaðar gulrætur í kjötinu mínu og gæti haft um það mörg og stór orð en ég er að verða svo dönnuð að ég ætla að sleppa því. Þrátt fyrir þessa skýru morðtilraun er ég komin heim, heil og sæl og má ekkert gera fyrr en guðmávitahvenær.

Fréttaritari einskis kveður að sinni, en lofar fregnum úr aðgerðarleysinu von bráðar :)