fimmtudagur, júní 22, 2006

Sælla Minninga



Ég stend, á berum bossanum, fyrir framan spegilinn á baðinu og mér er starsýnt á það sem við mér blasir. "Fimm ár" tauta ég, í vanþóknun og vantrú, rétt í því sem ég teigi fram vísifingur og strýk honum eftir ímyndaðri kjálkalínu á speglinum. "Þessi íðilfagra snoppa er allt of spegilslétt til að þessi tölfræði almanaksins geti mögulega verið rétt." Ég flissa þegar ég tauta þetta undir handakrikann, gríp svo hnefafylli af appelsínuhúð, neðan við sístækkandi bossann, og hristi duglega áður en ég dembi mér ofan í allt of heitt baðið.

Fimm ár finnst mér gífurlegur tími, þó er ekki nóg með að þessi fimm ár frá útskrift hafi liðið á ljóshraða heldur öll þau níu frá því að ég fyrst mætti í menntaskólann. Mér finnst það ekki ólíkleg tilhugsun að áður en ég verð búin að snúa mér við verði ég í sömu sporum og skemmtilega frúin sem flutti ræðu tuttugu og fimm ára júbilanta 16. júní. Á meðan ég hlustaði á hana rifja það upp hvernig hún mundi menntaskólann fór velti ég því fyrir mér hvernig menntaskólinn man okkur. Hvaða atvik eru það sem samferðafólkið man? Mér þykir forvitnilegt að velta því fyrir mér og eins þótti mér sérstaklega gaman að heyra mismunandi punkta frá ólíku fólki á þessum stutta tíma sem við áttum til endurfunda.

Eins og gefur að skilja var vinsælt að rifja það upp þegar ég, á harðahlaupum, missti niður um mig súmó-bleyjuna þegar við dimmiteruðum. Að sjálfsögðu flæktist þá frenjan vel fyrir fótum mér með þeim afleyðingum að ég féll kylliflöt og steinrotuð í göngugötuna á Akureyri, og tókst mér í leiðinni ekki aðeins að taka með mér heilann rekka af ferðatöskum, sem þar voru til sýnis, heldur líka að beygla og bráka vel á mér olnbogann. Skemmtilegt þótti að segja frá því í fréttatíma það kvöldið að súmóglímukappi hafi rotast í miðbæ Akureyrar. Þá er mér minnistætt eftir þetta þegar húsfrúin dásamlega frá Steinnesi kom og sauð okkur egg og endaði á að mata mig þar sem ég hef litla hæfni til slíkra verka með vinstri hendi.

Annað atvik, öllu ófrægara, var sagan af naglalakkeyðinum mínum í fyrsta bekk. Sennilega best að endurtaka hana ekki of oft á veraldarvefnum, þar sem hún er einkar heimskuleg. Hún barst þó oftast í tal núna þar sem frægasta atvik mitt um þessa helgi var kannski ekki mjög ósvipað. En það er skemmst að segja frá því að mér þótti einkennilegt þegar ég vaknaði eftir strembna óvissuferðina að ég skyldi æla sápukúlum. En svo kom á daginn að ég hafði, í misgripum, tekið glas af uppþvottalegi og tæmt úr því í skoltinn á mér. Svo það sé á hreinu - þá voru glösin hlið við hlið og alveg örugglega eins á litinn.

Það sem mér fannst þó flestir hafa hvað mest yndi af að rifja upp var fastur liður úr mötuneytinu. Nú er ég ekki viss um hvort þetta er almenn vitneskja, en ég hef þó í gegnum tíðina, stöku sinnum, gerst sök af matvendni. Hér áður og fyrr þótti mér fátt verra en sósa, og hvað þá svona pottréttasósa prýdd alls konar grasi og viðbjóði. Þetta var þó vinsælt hjá þeim í mötuneytinu og var það ósjaldan sem okkur var boðið upp á gúllas í svona sósu með kartöflumús. Eins mikið og ég reyndi að láta lítið fyrir vanþóknun minni fara varð tækni mín við át á þessu þó fljótt mönnum kunnug og kom víst æði vel upp um sérvisku mína. Alltaf skyldi ég taka með mér auka vatnsglas og heilan regnskóg af bréfþurrkum. Kjötbitana veiddi ég svo upp einn af öðrum, skolaði þá í auka vatninu og þurrkaði af með bréfi. Ég sum sé át kjötið ískalt, vatnsmaukað og með trefjatæjum úr servíettunni. Þessi tækni var þó sjaldnar notuð þegar ég komst yfir símanúmerið hjá Greifanum.

En það er nú langt liðið frá þessum minningum, jafnvel enn lengra en síðan ég kom síðast við á þessum vanrækta þankavettvangi mínum hér. Ég ætla þó ekki að lofa bót og betrun, en lengi má vona. Og á þetta jafnt við um bloggleti mína sem og sérvisku og seinheppni.

Lifið heil.