Alltaf finnst mér það jafn grátlega kómískt þegar ég keyri eftir Aðalgötunni, gegnt fjöllunum fyrir handan, að sama hve lengi ég keyri móts þeim þá virðast þau alltaf fjarlægjast mig. Sama hvert er litið þar er hún, þessi sama nístandi íróníska en, já, kómíska fífldirfska tilverunnar, að planta allt í kringum okkur myndum af okkar eigin lífi. Kannski eru það þó bara egómanísku fíflin, eins og ég sjálf þá, sem sjá allt í kringum sig myndlíkingar eymdarlegs lífs síns, hrópandi samhljóm á milli þess sem er dapurlega einmannalegt í tilveru alls, annars vegar, og svo eigin tilbreytingarsnauðu tilveru hins vegar. Annars læt ég það ekki lengur á mig fá, þó ég hljómi full af oflæti, þegar ég saka almættið um að hafa plantað Snæfjallaströndinni einmitt þarna bara til þess að geta mig, hlægjandi, minnt á það, hvern einasta dag, að sama hve ég stíg bensínið í botn þá nálgast ég markmið mín ekki hætishót – ekki frekar en fjöllin standa í stað og hleypa mér að sér. Þetta sé allt bara grimmdarlegur minnisvarði þess hve þessi vitstola smástelpa hleypur stöðugt í hringi eins og heimsk hýena í leit að brandaranum sem hún er enn að hlæja að frá því í fyrra.
“jæja, einn hring enn”, segir svo fíflið á leið sinni heim af rúntinum, ekki vegna þess að því datt umræðuefni í hug eða af því að það öðlaðist skyndilegan áhuga á langþreyttum og tilbreytingarsnauðum drykkjusögum sauðanna sem drekka ekki af því að huggunar er að finna á flöskubotni heldur fróunar í aðdáun þeirra sem vita ekki hvað þetta ber vott um mikinn greindarskort. Nei, fíflið vill leika á almættið með því að nálgast fjöllin sem eins og þverhausar færast endalaust úr stað. Idol fáfræðinnar og fáráðlinganna sem segja sögurnar en víti til varnaðar, mynd þess sem kann að fara úrskeiðis, þeim sem ekki hafa graut á milli eyrnanna. Stundargaman hobbýpessimisstana og fals-dulspekingana en eymd þeirra sem horfa upp á grey hverfa fjær viti sínu og rænu.
Hvernig veit fólk sem aldrei hefur komið til Bolungarvíkur að veran hér hleypir þér frá sér, í besta falli, með vægar taugaskemmdir við heila og króníska biturð? Er þetta eitthvað sem liggur í augum uppi fyrir öllum öðrum en þeim sem fá í vöggugjöf pervertíska sýn á hið ómögulega, að vera þar sem engu er vært? Er þetta kannski bara eitthvað sem liggur í hlutarins eðli en við, Bolvíkingar og aðrir sjúklegir misbrestir mannlegs eðlis, höfum blindsýn á? Hugsar einhver svona þegar þessi skaði er skeður?
Fjöllin færðust nær!