fimmtudagur, janúar 22, 2004

Þroski

Ég er eitthvað svo ótrúlega mikið að þroskast upp á síðkastið – kannski ekki seinna vænna. Sem dæmi um þennan skyndilega þroska get ég tekið fram getu mína til að takast á við óvæntar tilfinningar á borð við, tjah... segjum bara afbrýðisemi. Fyrir fáeinum dögum síðan átti sér stað atvik sem gerði mig abbó, allt í lagi, við bara tökum á því. Hefði kannski alltaf getað harkað það út einu sinni án þess að gersamlega snappa. En þegar það fór síðan að gerast ítrekað þá fór gamla blóðbragðið að gera vart við sig í munninum á mér og ég fann hvernig sortnaði fyrir augum mínum en í stað þess að brjóta eitthvað, lemja einhvern eða öskra út grenjandi morðhótanir þá varð ég bara pirruð. Reyndar mjög pirruð, reyndar það pirruð að ég beit sjálfa mig til málheltis - en ég þagði þó og dró mig í hlé.

Annað dæmi; í nótt vaknaði ég við það að einhver viðbjóðslegur fnykur var að troða sér inn í herbergið mitt, ég hélt niðri í mér andanum á meðan ég hætti mér inn á bað eftir handklæðum til að bólstra hurðina svo fnykurinn gæfi mér einhvern grið. Í morgun var ég svo, aldrei þessu vant, ósofin þegar ég skreið fram úr. Fór upp og æpti á pabba að þessi beitningarfýla væri að drepa mig. Í ljós kom að þetta var ekki bara lykt að vinnugalla eða einhverju sem slysast til að vera inni á heimilum hjá venjulegu fólki – nei, pabba mínum datt í hug að hengja harðfisk upp til þerris við herbergisdyrnar hjá mér! – hvað ætla ég að gera í því? Diddelííí squat! Hugsaði ég um hefnd? Að sjálfsögðu, ég er bara mannleg og rétt farin að hafa þröskuld þroskaferils í augnsýn. Ég var auðvitað komin með ákveðnar hugmyndir um úldinn afbeiting og þorskshausa undir rúm foreldra minna, but I’ll take the high road og ég sit á mér.

Ég er æðisleg. Ég kem sjálfri mér stöðugt á óvart upp á síðkastið og er þess fullviss að fyrir vorið verði ég búin að læra að þekkja og stjórna hvers kyns bræði sem upp í mér blossar. Afbrýðisemi, hefndarhugur og stöðugur vitleysisgangur mun heyra sögunni til.

Vinnan mín er brjóstabani

Ég get svo svarið það að í kollinum mínum er engin minning um meiri sársauka en mér tókst að úthluta mér í gær – þetta var sko topp vinnudagur. Það var vitaskuld ekki nóg með það að svona eðlileg klaufa-atvik eins og að hnerra kaffiduftinu framan í mig, labba á viðbjóðslega þungu hurðina inn í skjalaskáp, hella á mig heitu vatni og skella alls konar drasli á puttana á mér væru fleiri en vanalega heldur þurfti ég svo að kóróna daginn með því helvíti að sprengja á mér annað brjóstið. Ætli vinnustaðurinn sé tryggður fyrir svona hlutum? Helvítis hillurnar sem ég, með mínum undurpena hætti, treð mér á milli oft á dag eru (mér) í brjósthæð. Þeir sem hafa séð til mín labba vita að þegar ég labba á eitthvað er það oftast ekkert lítið högg. Aldrei þessu vant var ég að drífa mig á milli skrifborða og gerði mér lítið fyrir og brussaði annarri túttunni minni á hornið á einni helvítis hillunni – ááááááááííííííííi! Hverjum datt í hug að troða þessu helvíti þarna? Ég sendi sko reikning á þessa fantastofnun þegar ég verð komin með sílikon í staðinn fyrir þessa náttúrulega fallegu elsku mína. Eins gott að hægri druslan mín sé nógu plássfrek til að geyma báðar hendur þegar eirðarleysið sækir að mér, þætti leiðinlegt að hafa ekkert að grípa í til að halda mér rólegri – það er kannski að stofnunin fái að punga út fyrir sálarskaða líka!

mánudagur, janúar 19, 2004

Ég veit virkilega ekki hvort er verra;

Mánudagsmorgnar

þá er ég að meina svona ekta mánudagsmorgnar eins og sá í dag, þegar allt fer í taugarnar á manni því maður er ósofinn og enn að pirra sig yfir einhverjum lágpunktum helgarinnar, þegar mann virkilega langar til að æpa á samstarfsfólk sitt og jafnvel ganga í skokk á börnum þeirra eða troða fuglaskít í bollurnar sem maður þarf að fara og kaupa með kaffinu. Svona viðbjóðslegir kúkamorgnar þegar allt er á móti manni og jafnvel ómandi breimasöngurinn fávitans sem ætlaði að gera mann geðveikan um helgina virkar fýsilegri kostur en það að vera vakandi á þessari stundu. Svona dagar þegar kerfið hleypir manni inn á MSN hverja fertugustu mínútu og akkúrat þá er EKKI HRÆÐA þar inni. Á svona dögum er maður með öll svör sem maður hefur nokkurn tíma þurft á reiðum höndum og maður er svo uppgíraður að maður er fyrir lifandis löngu kominn fram úr sjálfum sér með háværu blótsyrðis andsvörin til fólks sem er ekki einu sinni í bænum. Ekki einu sinni pókersigur undanfarinna þriggja kvölda kallar fram bros hjá mér á þessari stundu – enda kannski búið að sýna sig að póker sé ekki ástríða hjá mér, allavega ekki miðað við hvað stórsigrar máttu sín lítils gegn vægast sagt pirrandi aðstæðum á laugardagskvöldið. Skrítið hvað sumt fólk sem á venjulegum dögum er bara heimsk og leiðinlegt en þó furðu meinlaust verður réttdræpt og allra meina uppspretta á mánudagsmorgnum.

Eða sú staðreynd að allir dagar vikunnar eru orðnir nákvæmlega eins...