Þroski
Ég er eitthvað svo ótrúlega mikið að þroskast upp á síðkastið – kannski ekki seinna vænna. Sem dæmi um þennan skyndilega þroska get ég tekið fram getu mína til að takast á við óvæntar tilfinningar á borð við, tjah... segjum bara afbrýðisemi. Fyrir fáeinum dögum síðan átti sér stað atvik sem gerði mig abbó, allt í lagi, við bara tökum á því. Hefði kannski alltaf getað harkað það út einu sinni án þess að gersamlega snappa. En þegar það fór síðan að gerast ítrekað þá fór gamla blóðbragðið að gera vart við sig í munninum á mér og ég fann hvernig sortnaði fyrir augum mínum en í stað þess að brjóta eitthvað, lemja einhvern eða öskra út grenjandi morðhótanir þá varð ég bara pirruð. Reyndar mjög pirruð, reyndar það pirruð að ég beit sjálfa mig til málheltis - en ég þagði þó og dró mig í hlé.
Annað dæmi; í nótt vaknaði ég við það að einhver viðbjóðslegur fnykur var að troða sér inn í herbergið mitt, ég hélt niðri í mér andanum á meðan ég hætti mér inn á bað eftir handklæðum til að bólstra hurðina svo fnykurinn gæfi mér einhvern grið. Í morgun var ég svo, aldrei þessu vant, ósofin þegar ég skreið fram úr. Fór upp og æpti á pabba að þessi beitningarfýla væri að drepa mig. Í ljós kom að þetta var ekki bara lykt að vinnugalla eða einhverju sem slysast til að vera inni á heimilum hjá venjulegu fólki – nei, pabba mínum datt í hug að hengja harðfisk upp til þerris við herbergisdyrnar hjá mér! – hvað ætla ég að gera í því? Diddelííí squat! Hugsaði ég um hefnd? Að sjálfsögðu, ég er bara mannleg og rétt farin að hafa þröskuld þroskaferils í augnsýn. Ég var auðvitað komin með ákveðnar hugmyndir um úldinn afbeiting og þorskshausa undir rúm foreldra minna, but I’ll take the high road og ég sit á mér.
Ég er æðisleg. Ég kem sjálfri mér stöðugt á óvart upp á síðkastið og er þess fullviss að fyrir vorið verði ég búin að læra að þekkja og stjórna hvers kyns bræði sem upp í mér blossar. Afbrýðisemi, hefndarhugur og stöðugur vitleysisgangur mun heyra sögunni til.