Tveir heimar
Það var rétt á meðan ég buslaði um í ísköldum sjónum sem ég var róleg, fann frið og leið vel. Þetta eina tímalausa fyrirbæri flutti mig frá hversdeginum og nær heiminum eins og ég vil hafa hann. Heiminum í hjarta mér. Það var hvergi í mér að finna strekkta taug, öll angist var á bak og burt. Ég hló upp í brimið og seltan flæddi um sælan skoltinn á mér á meðan allur heimsins hégómi sveif ofan við ströndina og átti ekki nokkra leið að mér. Ég var, í fyrsta sinn, einmitt þar sem ég átti að vera. Ég og sjóinn runnum saman í eitt – hann var heimkynni mín, betri helmingur, veröld. Allt var rétt.
Svo pípti vekjarinn og ég vaknaði upp í gráman. Þegar ég kom út sá ég að sjórinn var úfinn og úrillur og vildi ekkert með mig hafa. Enn á ný mátti ég bíta í veruleikann eins úldinn og hann birtist mér, enn á ný sat ég ein við mínar illa lukkuðu tilraunir til að snúa baki í systurnar Depurð og Drúldu.
Ég held að ég þurfi að taka mér frí frá þessum leik um tíma...