föstudagur, september 05, 2003

Tveir heimar

Það var rétt á meðan ég buslaði um í ísköldum sjónum sem ég var róleg, fann frið og leið vel. Þetta eina tímalausa fyrirbæri flutti mig frá hversdeginum og nær heiminum eins og ég vil hafa hann. Heiminum í hjarta mér. Það var hvergi í mér að finna strekkta taug, öll angist var á bak og burt. Ég hló upp í brimið og seltan flæddi um sælan skoltinn á mér á meðan allur heimsins hégómi sveif ofan við ströndina og átti ekki nokkra leið að mér. Ég var, í fyrsta sinn, einmitt þar sem ég átti að vera. Ég og sjóinn runnum saman í eitt – hann var heimkynni mín, betri helmingur, veröld. Allt var rétt.

Svo pípti vekjarinn og ég vaknaði upp í gráman. Þegar ég kom út sá ég að sjórinn var úfinn og úrillur og vildi ekkert með mig hafa. Enn á ný mátti ég bíta í veruleikann eins úldinn og hann birtist mér, enn á ný sat ég ein við mínar illa lukkuðu tilraunir til að snúa baki í systurnar Depurð og Drúldu.


Ég held að ég þurfi að taka mér frí frá þessum leik um tíma...

þriðjudagur, september 02, 2003

Ég sakna skólans og æskunnar

Í gær brá ég út frá öllu sem ég hef áður þekkt og horfði á næstum heilan fótboltaleik. Get ég nú ekki þrætt fyrir að hafa verið annars hugar og að hafa tekið hverri bón um sendiferðir fagnandi. Rögnvaldi mínum færði ég bjór og svo annan til og þá einn - kannski var það vanhugsað. Þegar leiknum lauk var frændi orðinn svo hávær og hress enda “ekki nema einu sinni á ári sem KR verða meistarar”. Hann fór röðina í símaskránni sinni og reyndi að draga fólk í partý, af því það voru, eins og fram kom svo óþolandi oft, tvær ástæður til þess að detta í það.

Í þá gömlu góðu hefði ég tekið þessari hugmynd hans fáránlega vel. Hversu oft var maður við dauðans dyr á mánudögum, bara af því að maður sá sig knúinn til að syrgja það hve langt var til næstu helgar? Ég vildi að ég væri enn skólastelpa með “fokkjúattitúd” til lífsins, kærulaus og til í tuskið. Núna hef ég ekki bragðað dropa í 11 daga og get ég sagt með fullvissu að það kom aldrei fyrir mig í menntaskóla eftir að drykkjutíð mín hófst. Eru þetta bara árin að tala? Mér fannst ég allavega mjög gömul þegar ég var alveg að sofna löngu fyrir miðnætti, ég var svo fegin þegar fólk fór bara heim svo ég kæmist þá í koju – ég þekki ekki þessa konu.

En kva...

Ég er búin að dagsetja næsta fyllirí hjá mér og mér vöknar um munnvikin við tilhugsunina – kannski enn renni ungt blóð einhversstaðar um æðar mér.

mánudagur, september 01, 2003

Gaman að sjá hvað bæjarstjórinn okkar nýtur mikillar hylli, hvílíkir yfirburðir yfir allt annað á þessum lista mínum. Það er þó ljóst að diskókóngurinn sjálfur er hrifnari af Rögnvaldi og sé ég að það var auðvitað fásinna hjá mér að hafa hann ekki á lista yfir bestu kosti Bolungarvíkur, svo ekki sé hann sjálfur nefndur í þessu samhengi – Diskókóngurinn.

Ég trúi samt ekki að Bolafjallið sé að skora svona lítið...

Ég er töffari

Ég hef fundið skýringu á því hvað ég er alltaf þreytt á morgnanna. Er það nema von að manneskja sem lætur eins og ég í svefni vakni þreyttari en hún sofnaði? Það er greinilega ekki nóg með að ég, eins og eflaust fjölmargir, tali upp úr svefni, hlægi, syngi og skemmti mér heldur komst ég að því í nótt að ég geng í svefni. Kannski var þetta einsdæmi - ég veit það ekki. Mig var að dreyma skít og ryk, ástandið á heimilinu var ógeðslegt svo ég ákvað að ryksuga. Ekki sjaldgæft að mig dreymi óhreinindadrauma svo þetta er ekki beint til frásögu færandi nema fyrir þær sakir að ég vaknaði uppi í eldhúsi með ryksuguna á tánum á mér. Það er ekki nóg með að ég sé stöðugt að gera mig að fífli með því að þylja upp tvíhöfðadiskinn eða vera með uppljóstranir í svefni, er ég núna líka farin að þrífa? Þetta er bara magnað!

Hvað um það! Um helgina fékk ég lifandi mús að gjöf frá kettinum mínum – fallegt! Ég “vaknaði” skíthrædd og greip málningarfötu sem mér tókst að veiða þennan viðbjóð í, hljóp svo út á tröppur þar sem ég áttaði mig á því, mér til mikillar kæti, að ég var á brókinni. Ekki gat ég þá farið að fara langt með músina, svo í geðshræringu og svefnþrá sturtaði ég þessu spriklandi ógeði ofan í ruslatunnuna – það verður ekki farið út með ruslið heima hjá mér fyrr en á miðvikudag þegar ruslakarlarnir eru búnir að koma.

Rögnvaldur og Bjarni eru komnir heim, mér finnst eins og vængbrot mitt sé gróið og fæ ég ekki betur skilið að ég ætli að hleypa þeim inn á heimili mitt til þess að horfa á fótboltaleik núna seinnipartinn. Allt á maður nú til...