fimmtudagur, júní 03, 2004

Er ég hávær?

Ég hef lifað í þeirri trú, sjálfsblekkingu sennilega, að ég sé ekki hávær að eðlisfari - heldur aðeins þegar ég er heiðruð með nærveru ákveðinnar danaprinsessu (sem kemur hingað eftir 20 og eitthvað daga). Ég var stödd í gleðskap á sunnudaginn, sat þar bara nokkuð róleg og settleg i eign heimi. Ég var ekki að trufla nokkurn mann þegar ég heyrði allt í einu óma lag sem ávallt vekur hjá mér mikla kátínu. Eins og gefur að skilja brást ég við með að reka upp hlátur, venjuleg viðbrögð ekki satt? Nei, ekki miðað við viðbrögð nærstaddra. Það sló grafarþögn á hópinn, nokkrar sekúndur liðu á meðan fólk leit hvert á annað, eins og í spurn um hvernig ætti að bregðast við þessum óhljóðum, því næst sprakk allt liðið úr hlátri og í gegnum roðann og skömmina heyrði ég spurt "hver var þetta?". Það var eins og ég hafi bara tekið mig til og prumpað af öllum lífs og sálarkröftum, sleppt einu daunillu tundurdufli frá mér. Að sjálfsögðu gerði taugaveiklun mín það að verkum að ég hló enn meir og þá létu mín íðilfögru svínahljóð svo sannarlega ekki á sér standa. Ó, vá hvað ég hlýt að vera hátt skrifuð hjá ísfirðingum núna. Mæja Bet?, já þessi stórfurðulega með viðbjóðslega hláturinn?!?

Ég elska kvef

Heilsufarið er dásamlegt í dag. Það er svo gaman að vera stíflaður út um allan haus, hver einasta ennishola er stútfull og suðandi eins og STRIKIÐ á mollulegum sumardegi, það surgar í eyrunum á mér og helvítis stillimyndarhljóðið eykur á áhrif hellunnar sem nær að trekkja upp mínar fínustu taugar. Þetta er þó bara ósköp notalegt við hliðina á þeirri staðreynd að ég er með hor í nefinu - seigfljótandi, linan, grænan viðbjóð sem mér gengur ekki vel að losna við. Ég reyni að snýta mér en það er bara hlutur sem ég ræð ekki við án tilheyrandi uppkasta, ekki kúgast ég minna við að sjúga upp í nefið svo ég reyni að útiloka tilvist nebbans og anda bara með munninum. Nú er svo komið að froða er farin að vella um munnvik mín og ég minni sjálfa mig á sveittan og aumkunarverðan Labrador. Síðast þegar ég tók sénsinn á andateppu til að koma nokkrum orðum frá rak ég mig á þá staðreynd að ég er komin með hæsi - ekki svona flott hæsi sem gerir röddina töff og sexý eins og króníska hæsið Tinnu Ágnús, nei meira svona "ég er ljótur, bólugrafinn ræfilsnörri í mútum" hæsi. Ég er ekki í sjálfsvorkunn, mér bara fer það ofboðslega illa að vera kvefuð.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Hringrás lífsins

Mér finnst ótrúlega sniðugt hvað börn og gamalmenni eru alveg eins. Það er eins og hægt og sígandi frá miðjum aldri fari fólk að þróast aftur í átt til bernskunnar. Frumbernskan er einhver svona sælureitur, útgangspunktur eins og byrjunarreiturinn í mattador. Fólk er bara hálft æviskeiðið að átta sig á þessu, eyðir ótrúlegum tíma í að reyna að vaxa og þroskast og í eitthvað svona bull um að axla ábyrgð og svona. Gamalmenni geta mikið frekar leift sér kæruleysi bernskunnar, þau eiga hvort eð er ekki svo voðalega mikið eftir. Þrátt fyrir lítt svo dulda ellikomplexa mína er stór partur af mér sem iðar í skinninu eftir ellinni - mínir komplexar eru meira svona kvíði fyrir mid-life crisis. Þegar ég verð alvöru ellismellur mun ég elska það. Allt sem ég hef látið almenna skynsemi banna mér að gera mun ég prófa á elliheimilinu. Ljómandi af digrum hlátursgasskammti mun ég elta unga sjarmerandi sjúkraliða á röndum og vekja hjá þeim viðbjóð og ótta með ægilegum talsmáta mínum, þeim sem forðum einkenndi mig en er nú í dvala kominn sökum "Þroska".

Anywho, það vakti nú ekki fyrir mér að fara að velta mér upp úr glansdraumórum elliáranna, það sem ég var að velta fyrir mér er af hverju er enginn að nýta þennan markað. Gamalmenni þurfa voða mikið að nota sömu vörur og börn. Af hverju er enginn að markaðssetja eitthvað sérstaklega fyrir gamla liðið? Það eru til tískumerki fyrir ungabörn, fullt af vörumerkjum sem meira að segja ég þekki, Osh kosh er víst rosa flott og dýrt fatamerki, libero og pampers eru töff bleyjur, gerber er æðislegt barnamauk. Reyndar notar gamla fólkið ekki sömu fötin og börn og heldur ekki sömu bleyjur en hver veit hvað gamlafólksbleyjur heita (að Helenu minni undanskilinni)? Gamalt fólk étur samt oft barnamauk og það notar sólarvörn sem er hönnuð fyrir barnahúð.

Það sem mér finnst samt vera besta sameiginlega einkenni barna og gamalmanna er að þau heyra bara það sem þau vilja heyra - en það hefur svo sem ekkert með markaðssetningu að gera.
... ég er syfjuð