Er ég hávær?
Ég hef lifað í þeirri trú, sjálfsblekkingu sennilega, að ég sé ekki hávær að eðlisfari - heldur aðeins þegar ég er heiðruð með nærveru ákveðinnar danaprinsessu (sem kemur hingað eftir 20 og eitthvað daga). Ég var stödd í gleðskap á sunnudaginn, sat þar bara nokkuð róleg og settleg i eign heimi. Ég var ekki að trufla nokkurn mann þegar ég heyrði allt í einu óma lag sem ávallt vekur hjá mér mikla kátínu. Eins og gefur að skilja brást ég við með að reka upp hlátur, venjuleg viðbrögð ekki satt? Nei, ekki miðað við viðbrögð nærstaddra. Það sló grafarþögn á hópinn, nokkrar sekúndur liðu á meðan fólk leit hvert á annað, eins og í spurn um hvernig ætti að bregðast við þessum óhljóðum, því næst sprakk allt liðið úr hlátri og í gegnum roðann og skömmina heyrði ég spurt "hver var þetta?". Það var eins og ég hafi bara tekið mig til og prumpað af öllum lífs og sálarkröftum, sleppt einu daunillu tundurdufli frá mér. Að sjálfsögðu gerði taugaveiklun mín það að verkum að ég hló enn meir og þá létu mín íðilfögru svínahljóð svo sannarlega ekki á sér standa. Ó, vá hvað ég hlýt að vera hátt skrifuð hjá ísfirðingum núna. Mæja Bet?, já þessi stórfurðulega með viðbjóðslega hláturinn?!?