fimmtudagur, júní 24, 2004

Eymd er valkostur

Mikið hefur einn samviskupostulinn verið að hafa þetta fyrir mér síðustu daga og hefur þetta skilið mig eftir með þá hugdettu hvort ég geti mögulega verið háð því að vera í "ástarsorg". Getur verið að maður sé, án þess að gera sér fullkomlega grein fyrir því, nógu klikkaður til þess að troða sér alltaf í aðstæður sem geta ekki annað en endað illa? Vel ég mér karlmenn sem ég veit að munu aldrei endurgjalda mér tilfinningar mínar? Allavega hef ég aldrei komið vel út úr því að falla fyrir karlmanni, með hverju nýjum manni sem ég næ að verða "skotin" í kynnist ég nýrri tegund af sorg, alltaf fara þær síversnandi þar til núna síðast þegar ég hefði getað svarið fyrir að komið væri mitt helsár. Ef ég á eftir að upplifa sárari kenndir en þessar sökum fávisku minnar í samskiptum kynjanna held ég að mér sé hollast að demba mér í klaustur.

Ég veit ekki, kannski er þetta einhver freudísk tilhneiging hjá mér að sækja í höfnun eða þá að ég er einfaldlega að eyðileggja allt gott sem að mér er rétt með að heimta alltaf meira. Sennilega er nokkuð til í því að það sé ekki hægt að gera mér til geðs, ég sit og greini allt svo gersamlega niður og bíð þess að viðkomandi geri eitthvað sem ég get tekið til mín og gert úr því alls herjar sorg og drama. Öll smámistök safnast saman í eina hrúgu og sitja á mér þar til ég er orðið þetta brjálæðislega hörundssára skrímsli sem dembir þessu öllu fram í einu og man ekki lengur neitt sem var gott og fallegt. Það sem ég man leifi ég mér svo að efast um og ef enginn er reiðubúinn til að leggja sig allan fram til að sannfæra mig um ágæti veraldarinnar og segja það sem mig langar að heyra þá er allt ónýtt. Ég geri sennilega allt sem ég á ekki að gera, flæki málin um of og það kostar mig stórkostlegan vin. Ætli ég muni einhvertíma læra að þræða þennan fína veg á milli þess að vera kunningi og elskhugi? Og það sem meira er ætli ég fái einhvertíma að vera elskhugi?

Hvað sem því líður þá er ég föst í veröld sem byggist upp á pörum. Ég hata oddatölur og hef alltaf gert, allt þarf að passa saman í par. Ég er ekki par, nema Hreggviður teljist með þótt enginn sjái hann nema ég. Ég tók eftir því þar sem ég sat volandi á klósettinu fyrir skemmstu að jafnvel köngulærnar sem voru að skríða inn úr garðinum ferðuðust þetta saman tvær. Er ég týnd sál í stöðugum, árangurslausum, flótta undan þeim örlögum að þramma áfram til eilífðarinnar, ónáttúrulega, alein?