föstudagur, ágúst 22, 2003

Djöfull leið mér vel í gær

Með hvimleiðan hausverk og lyfjafjanda brennandi sér leið í gegnum líkama minn sat ég sem fluga á vegg svo furðulega sátt við lífið. Þetta var eins og að vera í æfngarsal tónlistarskólans og gat ég ekki varist brosi þar sem ég sat, algjörlega afslöppuð, úti í horni og horfði á alla þessa snillinga í kringum mig berja á hljóðfærum, með glettilega misjöfnum árangri.

Það var sem einhver ókunnur ynnri friður færðist um mig ásamt heilli hrúgu af tilfinningum. Dularfullt þegar íshjartað fer að slá og átta sig á því hvað það er umkringt góðu fólki.

Þessi helgi leggst allt í einu bara vel í mig.

miðvikudagur, ágúst 20, 2003

Mig klæjar


Hvílíkur kláði sækir sem morðóð hersveit á HNÉÐ á mér. Mörgum kann að þykja það lítið mál en fyrir mig er kláði í hné eins og kláði í lunga væri fyrir venjulega manneskju – það er ekkert sem ég get mögulega gert. Ég er að reyna á blása á þetta en viðskiptavinum bankans kemur þetta spánskt fyrir sjónir og ég hef verið litin hornauga í allan dag.

Þetta er alveg í anda dagsins. Þessu fylgir svo mikil gæsahúð og viðbjóður af því að þetta er akkúrat það síðasta sem ég get snert – þetta er meira að segja verra hnéð, það sem klofnaði um árið. Svo er ég núna búin að hugsa og tala svo mikið um kláða að þetta verður stöðugt verra og verra og ég er komin með svona viðbjóðis klígju, eins og þegar maður talar um að einhver sé lúsugur. Ég verð að komast í bað – ég er viss um að það myndi lækna allt...



annars eitt gott til að dreyfa huganum - það er óvissuferð með vinnunni um helgina - djöfulls klassa tilbreyting og skemmtun held ég að það verði!

Að leggja eða leggja ekki...
............................................Spilin á borðið


Það er alltaf talað um hreinskilnina eins og hún sé svarið, sama hver fjandans spurningin sé. Hún sé dyggð sem frelsi mann og færi mann fjarri áhyggjum og í átt til betra lífs. Ekki að ég sé ekki oft hlynnt þessu fífli, en djöfull er ég skeptísk á þetta núna.

Ég hef aldrei upplifað sjálfa mig eins smáa og heimskulega og núna. Því fer fjarri að sannleikur næturinnar hafi eitthvað frelsað mig, þvert á móti færði hann mig í fangelsun smæðar og smánar auk þess sem hann hélt fyrir mér vöku í alla nótt. Ég er búin að hugsa svo mikið að mér sundlar. Ég er föst í einhverjum Dawson’s creek þætti sem er fullur af vitleysu, veseni og vandræðagangi, mér leiðist þátturinn en ég kann bara ekki að slökkva á honum. Ég hélt alltaf að líf mitt væri grínmynd þar sem endirinn er nokkuð fyrirséður og alltaf ásættanlegur en núna er ég bara föst í dramatískum unglingaþætti sem ég hata. – það endar aldrei neitt vel í Dawson’s creek. Þetta er eitthvað sem byggist upp á eymd og volæði og alls konar ógeði sem ég nenni ekki að standa í – sem ég ætla ekki að standa í.

Fífl á aldrei að þykjast vera annað en það er. Fífl á aldrei bara allt í einu að standa upp og mæla í alvöru, segja sína meiningu. Fífl á alltaf að fela það sem því í brjósti býr því annað er að sigla undir fölsku flaggi og fífl á ekki að sigla neitt. Það á ekki að gera neitt... - nema fíflast.