Að leggja eða leggja ekki...
............................................Spilin á borðið
Það er alltaf talað um hreinskilnina eins og hún sé svarið, sama hver fjandans spurningin sé. Hún sé dyggð sem frelsi mann og færi mann fjarri áhyggjum og í átt til betra lífs. Ekki að ég sé ekki oft hlynnt þessu fífli, en djöfull er ég skeptísk á þetta núna.
Ég hef aldrei upplifað sjálfa mig eins smáa og heimskulega og núna. Því fer fjarri að sannleikur næturinnar hafi eitthvað frelsað mig, þvert á móti færði hann mig í fangelsun smæðar og smánar auk þess sem hann hélt fyrir mér vöku í alla nótt. Ég er búin að hugsa svo mikið að mér sundlar. Ég er föst í einhverjum Dawson’s creek þætti sem er fullur af vitleysu, veseni og vandræðagangi, mér leiðist þátturinn en ég kann bara ekki að slökkva á honum. Ég hélt alltaf að líf mitt væri grínmynd þar sem endirinn er nokkuð fyrirséður og alltaf ásættanlegur en núna er ég bara föst í dramatískum unglingaþætti sem ég hata. – það endar aldrei neitt vel í Dawson’s creek. Þetta er eitthvað sem byggist upp á eymd og volæði og alls konar ógeði sem ég nenni ekki að standa í – sem ég ætla ekki að standa í.
Fífl á aldrei að þykjast vera annað en það er. Fífl á aldrei bara allt í einu að standa upp og mæla í alvöru, segja sína meiningu. Fífl á alltaf að fela það sem því í brjósti býr því annað er að sigla undir fölsku flaggi og fífl á ekki að sigla neitt. Það á ekki að gera neitt... - nema fíflast.