Bölvaður útnári
Rétt liðinn föstudagur var með viðburðarríkustu dögum sem ég hef upplifað í lengri tíma - kannski líka afar eðlilegt miðað við allsherjar gúrkutíð síðustu vikur. En hvað um það! Ég fór á fætur upp úr klukkan tíu (vissulega til frásögu færandi) og mætti niður í sparisjóð til þess að blása upp helíumblöðrur. Eins fáránlega mikil og stemningin sem skapaðist í kringum það var bliknaði hún við hliðina á þeim allsherjar skrípaleik sem það var að reyna að troða nokkrum tugum af þessum uppblásnu elskum í skottið á Volvo sparisjóðsstjórans. Hafi einhvertíma verið settur á svið góður kokteill af hafnfirðinga - og ljóskubrandara þá var það útfærsla okkar Öldu þarna á planinu. Þegar manneskjan skipaði mér í fyllstu einlægni að skella nú skottinu þar sem hún stóð með hausinn á milli komst ég óþægilega nærri því að míga á mig. Ekki þótti mér heldur neitt leiðinlegt að keyra með allt draslið yfir á Suðureyri!
Húllumhæið hér fyrir utan tókst afar vel, mikið elska ég svona heimtufreka krakkaskratta sem koma aftur og aftur og aftur að biðja um blöðru. Það er að sjálfsögðu ekki að ræða það að ég fari eitthvað að afla mér óvinsælda með að neita þeim um þær - áður en ég vissi af voru púkarnir allir skrækir og hálfskrítnir - jæja, það er ekki mitt að hafa hemil á þessum líð!
Að kvöldi þessa hlægilega dags (kannski mest svona had to be there brandarar að vísu) héldum við Haukur frændi svo af stað í afmælið hjá Hrafnhildi Ýr. Hvað er málið með út í rassgati djókið?!? Eftir að hafa keyrt alla leið á Þingeyri (for crying out loud) þá keyrðum við í gegnum bæinn (eins og mér var sagt að gera), framhjá staðnum þar sem við fórum alltaf á hestbak (eins og mér var sagt að gera), framhjá golfvellinum (eins og mér var sagt að gera), framhjá flugvellinum (eins og mér var sagt að gera), í gegnum Haukadal (eins og mér var sagt að gera), framhjá gula auða húsinu (eins og mér var sagt að gera) og yfir í næsta dal (eins og mér var sagt að gera) - þar var ekkert. Við tóku grýttar hæðir sem litu ekki út fyrir að hafa verið keyrðar frá því að fyrsti bíllinn kom til landsins. Þessar vegleysur, sem minntu einna helst á slóðann sem liggur norður í Ingólfsfjörð á ströndum, hjökkuðumst við á heflinum mínum, ég er með strengi eftir að hafa lyft upp rassinum í hvert sinn sem ég hélt að allt væri að fara undan bílnum. Þegar ég var alveg að fara að gefa upp alla von um mannaferðir sá ég löggubíl - great. Í brjálæðisofsahræðslu við að vera stoppuð (á nagladekkjunum mínum) brunaði ég framhjá löggunni og hélt áfram út í óvissuna. Fljótlega kom ég að skilti sem sagði mér að kanna ástand vegarins áður en ég heldi áfram, það gæti verið bundið sjávarföllum og þessi vegur væri aðeins fær jeppabifreiðum. Skítt með það, ég hélt á - því þetta gat nú ekki versnað! - ó jú, lengi getur hitnað í helvíti! Nú tóku við einhverjar mílur af stórgrýti, pollum og þverhnípi og allt var þetta svo dásamlega einbreitt að það var ekki heiglum hent að ætla að snúa við þarna. Engu að síður var ég komin í það hugarástand að ég vildi ólm fara að bakka til baka þegar ég keyrði fram á bjórdós. Hvílík stundargleði. Það liðu þó ekki nema fáeinar sekúndur þar til ég var farin að hugsa með mér að kannski væri þetta upplituð dós utan af bruggi frá því á bannárunum - gat ekki verið að nokkur hefði farið þennan veg síðan þá.
Ekki leið á löngu þar til annað kom þó í ljós. Að vísu vorum við að sjálfsögðu á kolrangri leið - en það höfðu fleiri gert þessi mistök. Bjórdósin/tálsýnin var þarna eftir Rögnvald sem hafði líka farið framhjá afmælinu og haft upp úr krafsinu sprungið dekk. Þegar hann mætti svo á réttan stað kom löggan á svæðið vegna þess að greyið hafði gleymt að borga fyrir hamborgara og franskar á Þingeyri. - Þessu sinna þeir en þegar ég kný dyra í grenjandi rigningu og segist hafa orðið fyrir skotárás þá geispa þeir og senda mig heim - fusssssss!
Þetta var fínasta afmæli. Góð hugmynd að láta fólk hafa svolítið fyrir því að mæta á svæðið. En þessi færsla er orðin allt of löng...