... & from that moment I knew
Ég held að ég verði að segja eins og er að ég man ekki eftir einu einasta augnabliki lífs míns sem markaði einhver sérstök þáttaskil. Ég get auðvitað flett til baka og rifjað upp eitt og annað sem ég veit að hefur breytt einhverju - andskotinn hafi það, flest allt sem við gerum breytir einhverju. Helvítis hamborgarinn sem ég fékk mér í kvöld situr nú á mjöðmunum á mér á meðan ég hefði getað fengið mér gulrót og fengið drullu. Hvernig í andskotanum getur fólk þóst þekkja þessi augnablik sem skipta máli? Ég held að þetta sé bull. Fólk er að reyna að selja sér einhverja rómantík til að þurfa ekki að takast á við það að lífið er bara skrípasápa þar sem við erum bara peð og hvert augnablik skiptir jafn litlu máli í gangi alheimsins og sandkorn í sandkassa. Jú, vissulega þurfum við hrúgu af augnablikum alveg eins og sandkassinn þarf sandkornin, en hvert og eitt fyrir sig er bara prump sem skipta má út fyrir eitthvað annað. Einu skiptin sem við tökum eftir sandkorni er þegar það lendir í auganu á okkur - það skiptir í rauninni engu máli, það er bara pirrandi. Sem er sennilega mesti heiður sem augnabliki getur hlotnast, að vera pirrandi því þá man allavega einhver eftir því.
Ég er búin að taka ofstórann skammt af væmni og ástarsögum þessa helgi, Þetta er það sem ég held - ástin er bóla! Þú húkkar einhvern upp og hangir með viðkomandi, ef þú ert heppinn tekst þér að þola viðkomandi nógu lengi til að álpast upp að altarinu og lofa einhverju sem þú rembist svo við að taka hátíðlega á meðan þú ímyndar þér að makinn sé ekki að æra þig.
Ég verð að segja eins og er að mér finnst hugmyndin um jólasveininn trúlegri en hugmyndin um "hinn eina rétta". Ef það er bara einn réttur fyrir alla þá er ég þess fullviss að enginn í sögu mannskyns hefur nokkurn tíma endað með sínum rétta. Fyrir mitt leiti segi ég að ef ég upplifi það að finna einhvern sem ég þoli að vakna við hliðina á þrjá morgna í röð þá er hann "keeper". Hingað til hefur það gerst með Helenu, Tinnu og Kolla - ekkert þeirra er til í að vera makinn minn.
Oh, ég er bara pirruð eftir óheppilegt sjónvarpsgláp um helgina. Ástin er örugglega til, en hún er jafna sem gengur aldrei upp svo kannski maður ætti bara að vera fegin á meðan maður dettur ekki um hana. Í rauninni er það bara argasta sjálfspynting að vera að leita að henni.
Mæja cynical