miðvikudagur, júní 01, 2005

Heim í sæluna

Já, þá er maður bara mættur heim og byrjaður að vinna. Þá get ég víst engu logið til að fegra skrifleti mína, sit við þessa blessuðu tölvu allann daginn, alla daga.

Fátt hefur svo sem á daga mína drifið síðan ég hér um bil hvarf af öldum ljósvakans. Mér er það ofarlega í minni þegar ég fór inn í Belfast að halda upp á afmælið vinkonu minnar, hvítklædd og sæt. Þeir sem til þekkja skilja kannski þegar ég segist stundum tala með höndunum, venjulega hefur það kannski verið til að pirra fólk en aldrei fyrr hefur hlotist varanlegur skaði af. Í miðri sögu ákvað síminn minn, Frank Betúel heitinn, að skjótast úr hendi mér og smokra sér ofan í nærliggjandi ræsi. Eitthvað ætla ég að leifa mér að efast um að það hafi verið fögur sjón þegar Mæsa litla skellti sér á hnén, í stutta hvíta pilsinu, snéri rassinum upp í vindinn og fór að fálma eftir símanum. Ég náði nú í rassgatið á kvikyndinu, hann vaknaði úr mókinu eftir nokkra sólarhringa en hefur nú ekki virkað síðan. Það er skemmst frá því að segja að sorgarferlið er enn í fullum blóma enda áttum við Frank Betúel saman ógleymanlegar stundir. Þrátt fyrir trega og sorg hef ég nú fjárfest í nýju símatóli sem virkar auðvitað ekki heldur ? sjáum hvort símamenn vilja eitthvað fyrir mig gera þegar ég draugast inneftir með litla dýrið í skoðun.

Best að taka þetta á milli verkefna, spölkorn í einu.