föstudagur, desember 02, 2005

Móna blessunin

Ætli það sé ekki ágætt að koma því á framfæri, sökum ítrekaðra fyrirspurna, að Móna mín er á lífi. Daginn eftir þetta dásamlega ævintýri á ströndinni sá ég fyrir mér að annaðhvort væri bíllinn horfinn út á hafsauga og komin hálfa leið heim til íslands eða þá að hún væri föst í haug af sandi. Ég sá fyrir mér blessaða pæjuna í risastórum sandkassa með fullt af horprýddum krakkagemlingum að byggja sandkastala á þakinu á henni. Ég las í gegnum ca. 400 gular síður til að leita að þjónustu sem dregur bíla - engin heppni í þeim efnum. Ég ákvað þá að bregða á það ráð að spyrja Aideen hvað væri best til bragðs að taka, um að gera að koma fleirum inn í þessa skemmtilegu sögu þar sem kringumstæður voru að sjálfsögðu ekki neitt í vandræðalegri kantinum. Hún mætir á svæðið og ætlar að hjálpa mér að draga, ýta eða grafa upp bílinn, allt undir kringumstæðum komið. Ég klæði mig upp fyrir tilefnið og rogast svo út í bíl með skóflur, planka og reipi, svitnandi eins og nauts pungur undan öllum þessum flíspeysum og herlegheitum. Við tökum að sjálfsögðu með okkur fylgdarlið og hvílíkt lið sem það var; lítil prinsessa sem er svo pjöttuð að hún gat ekki einu sinni snert skóflu af ótta við að brjóta nögl og Simon - þarf að hafa mörg orð um það fyrirbæri?

Nú var okkur ekki til setunnar boðið og lá leiðin niður að strönd þar sem stund sannleikans beið okkar.

Þegar ströndin blasti við okkur í allri sinni dýrð iðaði hún af mannlífi. Fleiri fleiri bílar voru á víð og dreif um alla strönd og hópar af ískrandi krökkum hlupu um á þessum sólríka sunnudegi. Innan um alla þessa bíla niðri við sjóinn kom ég hvergi auga á Mónu. Ekki var laust við að ég hafi þurft að kyngja eins og einum kekki eða svo því mér leist ekkert á blikuna. Ekki fyrr en ég víkkaði sjóndeildarhringinn og sá að ca. kílómeter fyrir ofan sjóinn sat hún blessunin og beið mín. Ég settist inn og gat keyrt af stað án þess að hafa fyrir nokkrum hlut. Að sjálfsögðu vildi fólk skýringu á því af hverju ég hafi þurft að skilja hana eftir ef hún var svona langt uppi á strönd. Það er eins og hugtakið háflóð sé ekki til í þeirra skilningarforða og þurfti ég að eyða mikilli orku í að útskýra þetta fyrir Simoni sem engu að síður skilur söguna enn þannig að sjórinn hafi skolað henni upp á strönd aftur. Ég get ekki með nokkru móti komið honum í skilning um að það var sjórinn sem færðist - ekki Móna. Annars þætti mér gaman að sjá ástand á bíl sem sjórinn hefur verið að henda fram og til baka. Maðurinn er fyrsta flokks fáviti og gengur mér ekki neitt að reyna að troða skilningi inn í þennan þykka haus.

Ég keyrði Mónu heim af ströndinni eins og kátan titrara þar sem allur hjólabúnaður var fullur af sandi og selta hafði sest að víðast hvar. En eftir gott bað tók hún mig í sátt og sama kvöld héldum við á vit fleiri ævintýra í svefnleysinu.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Fan-Bloody-Tastic

Jú það kom að því. Loksins kynntist ég öðrum nátthrafni, mér til kátínu og léttis. Einhver til að spjalla við á löngum andvökunóttum og til að grallarast eitthvað með þegar allir aðrir sofa.

Klukkan er rúmlega sex og ég var að koma heim. Fannst það frábær hugmynd þar sem ég sat í herberginu mínu og hataðist út í Simon að skreppa á rúntinn. Að sjálfsögðu vildi Ryan fá að koma með, enda andvaka á hinni línu skilaboðaskjóðunnar. Ég held að þetta hafi verið einn af viðburðarríkustu rúntum lífs míns. Til að byrja með tókum við rúnt inn í Ballymoney, sem er afar áhugaverður rónabær. Þar kenndi nú ýmissa grasa; sáum við m.a. par kyssast á ákaflega ófágaðan hátt á götuhorni, þar til daman sleit kossinum og gerði sér lítið fyrir og ældi á guttann. Eins sáum við hóp bólugrafinna unglinga fljúgast á í strætóskýli og afar drukkinn klæðskipting detta ítrekað á sama búðargluggann. Mér þótti mikið til koma en var engu að síður þess fegnust þegar ég rúllaði út fyrir bæjarmörkin og aftur í átt að Coleraine.

Þegar aftur var komið í siðmenninguna fannst Ryan tilvalið að gerast leiðsögumaður um æskuslóðir sínar og fékk ég sögu við hvert götuhorn. Við tókum sveig að gamla barnaskólanum hans þar sem við rötuðum í merkilegar ógöngur og ætluðum við aldrei að finna leiðina út af þeirri skólalóð. Við vorum nú samt ekki mikið að stressa okkur á því, allavega ekki Ryan sem stökk út og stal reiðhjóli sem hann svo hálf flaug af á meðan það sveif ofan í nálægan gám. Loksins fann ég leiðina þaðan út og verð ég að segja eins og er að við tók alls ekki sú fegursta sjón sem ég get ímyndað mér. Úti í glugga á þriðju hæð í fjölbýlishúsi stóð maður; frekar digur, loðinn og lasaralegur - já, kannski að bæta því við að hann var KVIKNAKINN. Ég stoppaði bílinn um stund til að varpa öndinni og reyna að róa hláturtaugarnar sem voru vel strekktar.

Eftir þetta fannst mér nóg komið af herlegheitunum svo við tókum rúnt á kunnuglegar slóðir fyrir mig. Að sjálfsögðu lá leiðin niður á strönd. Undir stjörnubjörtum himni var eitthvað svo tilvalið að stoppa bílinn í fjörunni. Njóta náttúrunnar og spjalla svolítið. Það lítur út fyrir að náttúran hafi ekki notið okkar nærveru, tjah, eða jafnvel notið hennar einum of mikið. Þann stutta tíma sem við stöldruðum þarna við skall á háflæði og framhluti bílsins sökk á bólakaf í þennan viðbjóðslega gula sand, sem örfáum mínútum áður var meginstólpi þessa rómantíska umhverfis. Á meðan við reyndum að losa bílinn fór að sjálfsögðu að helli rigna, sem var hvorki að hjálpa til með hitastig eða möguleikana á að ná bílnum upp úr forinni. En af því að þetta var víst ekki nógu slæmt og ónýtt fólk sem kann ekki að sofa á nóttunni á ekkert gott skilið þá skall á haglél á stærð við hafnarbolta.Greeeaaaaat!

Við leituðum skjóls inni í bílnum á meðan, sjálfsagt senn marin og blá eftir þessa ógeðslegu bolta. Ég fór að reyna að hugsa með mér hvað maður tæki til bragðs væri þetta snjór. Sá fyrir mér einhverskonar planka í hyllingum sem hvergi voru þó nálægir. Holurnar sem bílinn sat í virkuðu ekki svo djúpar svo mér datt í hug að bregða á það ráð að troða skónum mínum undir framhjólin. Mér til varnar skal það tekið fram að, eins heimskulega og það hljómar, þá leit allt út fyrir að það myndi virka. Það er að segja alveg þar til stór og feit alda mætti á svæðið og skolaði skónum mínum út á hafsauga.

3 tímar og hvorki ráð né nokkur velgja. Ég veit ekki hvort það var taugaveiklun eða bara kæruleysið sem fylgir því að vera fullviss um glötun sína sem réði því að ég hló allan tímann. Enn var flóðið þó að hækka og útlitið orðið heldur svart. Það var ekkert í stöðunni annað en að játa sig sigraða og sit ég nú uppi í rúmi eftir að hafa hlustað á leigubílstjóra hlægja að þessum svaðilförum og bið til guðs og vona að bíllinn minn verði enn á ströndinni á morgun.

Eitt er víst að dæmist Ryan mér til framtíðareignar (það er að segja ef hann finnur sér ekki einhverja á jeppa eða sem ákveður að hlusta ekki á hann þegar hann stingur upp á að demba bílnum í kviksyndi) þá verður þetta frábær saga til að segja barnabörnunum. When Dumbo met Doofus.