Móna blessunin
Ætli það sé ekki ágætt að koma því á framfæri, sökum ítrekaðra fyrirspurna, að Móna mín er á lífi. Daginn eftir þetta dásamlega ævintýri á ströndinni sá ég fyrir mér að annaðhvort væri bíllinn horfinn út á hafsauga og komin hálfa leið heim til íslands eða þá að hún væri föst í haug af sandi. Ég sá fyrir mér blessaða pæjuna í risastórum sandkassa með fullt af horprýddum krakkagemlingum að byggja sandkastala á þakinu á henni. Ég las í gegnum ca. 400 gular síður til að leita að þjónustu sem dregur bíla - engin heppni í þeim efnum. Ég ákvað þá að bregða á það ráð að spyrja Aideen hvað væri best til bragðs að taka, um að gera að koma fleirum inn í þessa skemmtilegu sögu þar sem kringumstæður voru að sjálfsögðu ekki neitt í vandræðalegri kantinum. Hún mætir á svæðið og ætlar að hjálpa mér að draga, ýta eða grafa upp bílinn, allt undir kringumstæðum komið. Ég klæði mig upp fyrir tilefnið og rogast svo út í bíl með skóflur, planka og reipi, svitnandi eins og nauts pungur undan öllum þessum flíspeysum og herlegheitum. Við tökum að sjálfsögðu með okkur fylgdarlið og hvílíkt lið sem það var; lítil prinsessa sem er svo pjöttuð að hún gat ekki einu sinni snert skóflu af ótta við að brjóta nögl og Simon - þarf að hafa mörg orð um það fyrirbæri?
Nú var okkur ekki til setunnar boðið og lá leiðin niður að strönd þar sem stund sannleikans beið okkar.
Þegar ströndin blasti við okkur í allri sinni dýrð iðaði hún af mannlífi. Fleiri fleiri bílar voru á víð og dreif um alla strönd og hópar af ískrandi krökkum hlupu um á þessum sólríka sunnudegi. Innan um alla þessa bíla niðri við sjóinn kom ég hvergi auga á Mónu. Ekki var laust við að ég hafi þurft að kyngja eins og einum kekki eða svo því mér leist ekkert á blikuna. Ekki fyrr en ég víkkaði sjóndeildarhringinn og sá að ca. kílómeter fyrir ofan sjóinn sat hún blessunin og beið mín. Ég settist inn og gat keyrt af stað án þess að hafa fyrir nokkrum hlut. Að sjálfsögðu vildi fólk skýringu á því af hverju ég hafi þurft að skilja hana eftir ef hún var svona langt uppi á strönd. Það er eins og hugtakið háflóð sé ekki til í þeirra skilningarforða og þurfti ég að eyða mikilli orku í að útskýra þetta fyrir Simoni sem engu að síður skilur söguna enn þannig að sjórinn hafi skolað henni upp á strönd aftur. Ég get ekki með nokkru móti komið honum í skilning um að það var sjórinn sem færðist - ekki Móna. Annars þætti mér gaman að sjá ástand á bíl sem sjórinn hefur verið að henda fram og til baka. Maðurinn er fyrsta flokks fáviti og gengur mér ekki neitt að reyna að troða skilningi inn í þennan þykka haus.
Ég keyrði Mónu heim af ströndinni eins og kátan titrara þar sem allur hjólabúnaður var fullur af sandi og selta hafði sest að víðast hvar. En eftir gott bað tók hún mig í sátt og sama kvöld héldum við á vit fleiri ævintýra í svefnleysinu.