föstudagur, september 19, 2003

Draumfarir

Djöfuls ógeðsdrauma dreymdi mig í nótt. Það hreinlega sjokkerar mig að það sé svo mikið sem hægt að ímynda sér það magn af skít sem mig var að dreyma, ég var algjörlega þakin þessum óþverra frá toppi til táar. Ég minnist þess að hafa reynt mikið til að hrista þetta af mér og hafa jafnvel brugðið á það ráð að fara út í göngutúr (greinilega draumur – ekki þessi sem nennir eitthvað að labba mikið). Ekki lukkaðist það mér svo vel því hvar sem ég sté niður fæti lenti ég á haug af saur, þetta var svo raunverulegt að ég fann það óbærilega vel, í gegnum svefninn, hvernig ilvolgur kúkurinn spýttist upp á milli tánna með tilheyrandi hrollsförum og viðbjóði.

Ég hrökk upp við það um miðja nótt að dropadrulla var á leið upp í kjaftinn á mér. Skítafnykurinn hvarf ekki frá vitum mínum þrátt fyrir miklar þvottatilraunir inni á baði – mér leið illa út af öllum þessum kúk.

Þegar ég loksins náði að festa svefn aftur hófu draumfarir að sækja að mér aftur. Þessar byrjuðu bara ágætlega. Ég var stödd í sumarbústað með Helenu, báðar að slappa af í sumarfríi og hafa það gott – ljúfa líf bara. Ekki hafði mig dreymt þetta nema örskamma stund þegar við rukum báðar á fætur og hófumst handa við þá ömurlegu lyst að drulla. Við kúkuðum út um allt. Á leiðinni á klósettið var þetta búið að frussast út um allar trissur og var það þó skárra en myndin sem brennur í huga mér af stífluðu klósettunum sem við fylltum á augabragði. Ég hamaðist við að sturta þessi niður þar til ég var að niðurlotum komin, en allt kom fyrir ekki, fljótandi drullan virtist ætla að yfirtaka heiminn. Inni í hafsjó þessum af mannaskít sást ekkert nema ég gersamlega vitstola, Helena hissa á þessum hamagangi í mér og nokkrir stórir og góðir trompetlortar sem mér fannst ógna tilveru minni.

Mér leið ömurlega þegar ég vaknaði og ég er enn með kúkalykt í nebbanum.

Eitt er þó víst, ég ætla að lotta!

fimmtudagur, september 18, 2003

Fettur og brettur

Eftir vinnu í gær ákvað ég að skreppa í ljós – ég steinsofnaði. Eftir þennan frábæra lúr var ég svo endurnærð að ég ákvað að drífa mig bara í ræktina, ekki kann ég nú við það að vera full af orku svo það var eins gott að losa sig við hana strax. Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að merja á mér rassgatið eins og ég hef nú dálæti á. Að því loknu datt mér í hug að skella mér bara á brettið í einhvern hálftíma þar til jógatími ætti að byrja – það geri ég ekki aftur. Þegar ég mætti þarna löðrandi í svita, móð og másandi sá ég hvar konur á öllum aldri streymdu að, þurrar, afslappaðar og vel lyktandi – ég átti ekki alveg heima í þeim hópi. En hvað um það, löngu tímabært að maður gefi jóga smá séns, svo ég lét mig hafa eigin svita- og táfýlu (ó, já, ég þurfti að fara úr skónum). Stemningin þarna inni var hin rómantískasta, kertaljós og læti, og allir höfðu kodda og teppi – mér leið hálfpartinn eins og ég væri að ganga inn í hvíldarstund á bangsadeild.

Raunar var allur tíminn frekar mikið til að minna mig á bangsadeild. Þetta voru ósköp fínar æfingar sem áttu afar vel við mig. Eintómar fettur og brettur með útlimateygingum til allra átta – bara svona eins og ég er vön að láta. Mér fannst hins vegar mjög óþægileg þessi eilífa sjálfsskoðun í þessu, ég er alls ekki viss um að ég sé nógu sátt við sjálfa mig til að stunda jóga - það sem maður þarf endalaust að vera að horfast í augu við sjálfan sig. Ég hugsa nú að ég gefi þessu annan séns en þá verða það þurr föt og hreinir sokkar.

Hvað er ég að segja? Er þessi kona horfin eða....

miðvikudagur, september 17, 2003

Styrkir

Ég var að fá endurgreitt frá styrktarsjóði bankamanna fyrir skemmtilegu kjallaraskoðunina sem maður var skikkaður í um daginn. Það borgar sig greinilega að lesa klausurnar um þennan sjóð, ekki að mig hafi munað svo ofboðslega um 2.500 kallinn sem í þetta fór en það er svo fjölmargt annað sem þeir eiga það til að styrkja fólk um. Síðasta klausan fjallar um útfarasjóði fyrir félagsmenn – það er nú ekki amalegt að vita af því. Ef ég tæki nú upp á því að drepast svona fyrir aldur fram vill þá einhver gjöra svo vel að benda mömmu og pabba á þetta – það myndi kæta mig mikið að vita til þess að þau gætu notað líftryggingu mína nokkuð óskipta til að leika sér.


Ég var að drífa mig að svara í símann áðan og kippti tólinu svo hratt að mér að ég barði því í beinið fyrir ofan augað og ég vankaðist... ef það verða einhver ummerki eftir þetta þá er ég hætt að kalla annað fólk hrakfallabálka – þetta var svo aulalegt og sá sem var að hringja og var heilsað af mínum fallega munnsöfnuði og stunum mun sjálfsagt skipta um banka hið snarasta.

Ég vona að það sé eitthvað um að vera um helgina – mig langar svo á dansiball...

I'm Back...

Nú finnst mér þessi hvíld mín hafa varað full lengi og vil því binda endi á hana snöggvast. Ætli maður hafi ekki gerst sekur um það að detta niður í lægð tilvistarkreppu og volæðis – það er engum manni holt svo ég ætla að binda endi á það líka. Það er líka ekki nóg með að það sé andskotanum leiðinlegra að sitja í sorg og sút heldur er líka afar lítið að gera í vinnunni svo mig er farið að vanta leið til að láta tíman líða.

Síðan ég hripaði síðast niður orðum hér hefur ekki margt á daga mína drifið. Mér tókst að falla á áfengisbindindinu mínu og fór létt með það – lét draga mig á busaball þar sem mér hlotnaðist sá heiður að vera aldursforseti – það var frábært! Ég hélt áfram að vera fallin kvöldið eftir þó ég ætli ekki að hafa fleiri orð um það. Það kom svo önnur helgi og enn var ég fallin – var þó þurr og fín á föstudagskvöldið. Á Laugardagskvöldið var þessi líka klassa diskó hljómsveit að spila í sjallanum. Ég og Haukur frændi létum það nú ekkert á okkur fá þótt við værum oft tvö á dansgólfinu og tjúttuðum við með glæsibrag nánast allt ballið.

Þegar ég vaknaði á sunnudeginum gat ég ekki fullvissað sjálfa mig um það að ég væri enn með lappir. Ég var hálf bangin um að hafa ratað í ógöngur og látið höggva af mér fæturna, þrátt fyrir að hafa talið hegðun mína til fyrirmyndar þar sem hvergi var á mér ölvun að sjá – ekki mikla allavega. Þegar ég náði að kasta mér fram úr sá ég mér til mikillar kæti að þessir forkunnarfögru stilkar mínir voru enn á sama stað – ég var bara einfaldlega hálf lömuð úr strengjum eftir einhvern Body-pump tíma sem ég hafði álpast í daginn áður. Nú þremur spinning tímum, miklum hlaupum og göngum og öllum mögulegum og ómögulegum teygjuæfingum síðar vottar enn fyrir þessu helvíti í lærum mínum og er ég því enn á ný svarinn óvinur alls sem hollt er. En ég ætla samt að halda áfram að fara í spinning af því að ég fíla það geðveikt þegar mér líður eins og einhver hafi bombað mig með flutningabíl í rassgatið.