föstudagur, október 31, 2003

Löngu tímabært

Kannski er það einhver afneitun sem hefur verið að meina mér að blogga upp á síðkastið. Í sífelldum flótta frá raunveruleikanum hef ég sennilega ákveðið að halda tangarhaldi í þann lífstíl sem einkenndi fríið mitt til að reyna að blekkja sjálfa mig og sannfæra um að enn væri nóg eftir af því dásemdarlífi og aðgerðarleysi. Lífstíll þessi einkenndist af óhóflegu áti, sjónvarpsglápi, slæpingshætti og síðast en ekki síst aðgangsleysi að veraldarvefnum. Nú er sennilega nóg. Þegar ég er að verða gangandi súkkulaðihjúpuð smjörkaramella sem er hætt að komast að tölvunni, til að slá í einhverjum orðum því síður en svo til dýrðar að nú sé komið að snjóa, er víst löngu tímabært að ég heyri kall veruleikans og fari að blogga, rúnta og mæta í ræktina. Hvort þessi lýsing mín á veruleika sé svo eitthvað minna sorgleg en títt afneitunarástand mitt er bara undir hverjum og einum komið að meta.

Hvernig var svo fríið?
Fríið mitt var, eins og klárlega má lesa út úr áður rituðum línum, verulega fitandi og afslappandi. Það hófst með helgi í Reykjavík þar sem ég eyddi fúlgu fjár og skemmti mér konunglega við það. Þar átti ég svo djamm sem reyndist það tíðindasnauðasta í manna minnum – þó það hafi vitaskuld verið mjög gaman að hitta fólk sem maður sér nú ekki á hverjum degi. Eftir þessa helgi hélt ég svo til Noregs þar sem mér tókst að gera minna í tæpa viku en ég er vön að gera á einum morgni. Bróðirinn Belli á nú nýtt barn sem bersýnilega er eitthvað skrítið því í hvert sinn sem ég svo mikið sem hugsaði um að taka telpuna upp snarhætti hún að grenja – eins og hún hafi aldrei vitað skárri stað til að hanga á en fangið mitt. Ég hef alltaf notað þá staðreynd að börn hati mig til að hafa hæfilega fjarlægð frá þeim – eitthvað var það að klikka með þessa snót. Hitt dýrið sem þarna var fyrir er að sjálfsögðu snarbrjálað. Drengurinn er alveg eins og Belli – iðinn við að tjá sig með kjaftshöggum og brjálæði. Hann stundaði mikla niðurrifsstarfsemi í minn garð með því að kalla mig alltaf “gale tante”, segja að allt sem úr mínum munni kæmi væri “pissprat” og með því að velta sér ákaflega mikið upp úr karlamálum mínum. Ágætis krakki en á margt ólært um gamlar, bitrar frænkur.

Eftir tæpa viku í aðgerðarleysi og vellystingum var komið að því að demba sér yfir til Köben. Það var alveg skítfínt að hitta þetta lið og fínt að skella sér á smá djamm en mér finnst samt Köben að sorglega litlu frábrugðin Reykjavík – nenni ekki að fara til útlanda til að líða eins og ég sé svo bara í borg óttans einu sinni enn. Helsti munurinn var danskan og hún er bara eitthvað sem mér flökrar við svo ég held að það sé óhætt að segja að kaupmannahöfn sé að hvergi nærri inni í myndinni hjá mér sem framtíðar heimili eða viðverustaður að nokkru leiti. (fyrir þessa fullyrðingu á ég sjálfsagt eftir að fá að rotna þar) Ég var í köben rúma helgi og hafði mjög gaman að því að hitta Tinnu og Kalla, litlu systur, Katrínu, þórhildi, Möggu,Halldóru og bara allt þetta lið sem maður rakst á. Einna mesta lukku vakti auðvitað íslenska bjórbandið sem ég dó næstum við að hlæja að á strikinu – toppband.


En hvað um það.
Þetta blogg er að verða lengra og leiðinlegra en svo að nokkur maður nenni að lesa það, svo í stuttu máli. Fór aftur til Bella, gerði ekkert fram að helgi, duttum í það saman systkinin – það var skrautlegt eins og við mátti búast, flaug heim, keyrði beint vestur, datt í það á mánudeginum og er að fara í söngbúðir í kvöld.
Takk fyrir mig – yfir og út