mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég get ekki sofið

Ég blundaði í tvær til þrjár klukkustundir á laugardagsnóttina, núna er klukkan rúmlega níu á mánudagsmorgni. Ég hef ekki svo mikið sem geispað síðan ég fór á fætur fyrir tæpum 30 klukkustundum síðan - ég verð að segja að ég bíð spennt eftir því að sjá hvernig ég verð í tímanum sem ég er að fara í á eftir.

Þessi helgi var meira en lítið stórfurðuleg. Ég var svo týnd og tröllum gefin að það á sér ekki hliðstæðu. Ég sat ein heima hjá mér og reyndi að finna mér eitthvað til dundurs. Ég er búin að þvo hverja einustu flík sem ég á, þrífa íbúðina hátt og lágt TVISVAR og ég er búin að endurraða í allar hirslur - hvort sem um er að ræða skúffur og skápa í herberginu mínu eða í eldhúsinu. Ég hef farið í fleiri gönguferðir en ég kæri mig um að játa og ég settist jafnvel niður við að leysa þýskuverkefni. Í nótt þegar ég sá að mér tækist aldrei að festa svefn settist ég við tölvuna og úr varð 60 blaðsíðna jólagjöf fyrir a very special someone.

Ég trúi ekki að ég ætli að fara að taka upp á þessari helvítis vitleysu aftur. Það eru sjálfsagt ófáir sem muna þá tíð þegar Mæsan svaf aldrei, ég kæri mig ekkert um að hverfa aftur í það horf. Við vonum nú það besta, skrepp í bæinn eftir skóla og reyni að kaupa það sem ég á eftir að þessum jólagjöfum - það ætti að svæfa mig.

Sennilega er ég svona vakandi af því að ég tók upp á þeim ósóma að lenda í rifrildi en það verður senn gleymt og þá hverf ég til draumalandsins, sæl og sátt!

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Mér leiðist

Ég er einmanna og ég hef ekki komist inn á MSN í viku. Mig vantar íslensku í blóðið mitt, slúður og einhvern sem veit hvað ég er frábær þótt ég sé auli. Vill einhver í guðanna bænum senda mér bréf áður en ég fer að hallast að því að ég hafi dottið af hnettinum og sitji föst í ímynduðum veruleika á meðan ég raunverulega ligg einhversstaðar í öndunarvél og bíð þess að rafmagnið fari.

Meira um það seinna.