laugardagur, apríl 26, 2003


Call me stupid en ég hélt að það væru takmörk fyrir því hvað má láta manni leiðast mikið! Af því að ég er bara búin að vera lokuð inni í mellukompunni minni síðan á miðvikudag með verki í lungum og höfði, sjóveiki/riðu þó ég hafi ekki komist á sjóinn sökum flensu, hóstandi blóði og ælandi galli þá er auðvitað um að gera að láta mig ekki sjá sumarfagra veröld loksins þegar ég rís úr rekkju - já, nei - sko ekki til í dæminu, við skulum skella á snjókomu!

Það eina sem gerir það að verkum að ég er ekki farin í koju aftur er það að tölvunni minni skuli hafa þóknast að fara í gang í dag, þetta helvítis skuðræði er eins og gamall geldingur, þetta eru ekki einu sinni geðþótta ákvarðanir hjá henni hún bara getur ekki staðið sig -ef einhver veit hvar festa má kaup á víagra fyrir tölvur þá bendi ég á gestabókina mína.

Annars er vitaskuld ekkert með svo öllu illt að ekki finnist eitthvað gott (eða hvernig þetta á nú að vera) ég var heima í gærkvöldi og sá vini og american idol og allt þetta dót. Hef ekki verið heima til að horfa á vini síðan á öðrum þætti þessarar syrpu og fyrir þann tíma - guð má vita hvenær. Á meðan ég lá er ég líka búin að ná mest allri syrpunni - FIMM SINNUM! og svo er maður að væla þetta...

þriðjudagur, apríl 22, 2003


Pólitík og BER-jadrulla

Laugardagurinn 19. apríl reis enn bjartari en langi föstudagur gerði og vaknaði ég jafn ómannúðlega snemma. Ég lagði þó ekki í það að ræsa fólk fyrr en um ellefu og voru fæstir mikið skotnir í Mæju Bet þá. Ég fæ þó oft að ráða og tókst mér því að draga Evu, Rögnvald og Bjarna Pétur með mér á Þingeyri þar sem við pæjurnar ætluðum að hestast á meðan guttarnir færu á golfmót. Á mig sótti blinda og ég leifði Rögnvaldi að keyra – óvitandi að hann væri í afar annarlegu ástandi. Hvað um það...
um eittleitið köstuðum við strákunum á golfvöllinn en höfðum ekki komist langt þegar þeir báðu okkur að sækja sig aftur þar sem mótið hefði byrjað klukkan tíu – flott þetta. Hugsa reyndar að Rögnvaldur hafi verið sáttur þar sem hann var þynnsta fyrirbæri jarðríkis og lá í sjálfsvorkunn og gremju á meðan við hin fórum á hestbak. Fátt um morðtilraunir þennan daginn en helgið jafnvel meira – magnað þegar „kerlingar” væla mann máttlausan viljiði hætta þessum helvítis kossum...

Seinni part laugardags mætti ég afmælisbarninu Magnúsi Má sem skipaði mér úr hestagallanum og á pólitískan fund. Þessa hápólitísku samkomu sat ég til tvö um nóttina eða þar til haldið var á kaffi ísó á tvö dónaleg haust. Þetta var ekkert slæmt kvöld svo sem. Við Karvel frændi biðum eftir taxa í vel rúman klukkutíma hugsa ég og gátum rætt margt fróðlegt á meðan. Við fórum bara tvö út í vík þar sem Dibba og Ævar voru nú eitthvað of ljót og innileg – en það eru víst gamlar fréttir, ekkert veit maður greinilega.

Sunnudagurinn var fínn – fann páskaeggið mitt strax af því að mamma notaði sama staðinn og hún flaskaði á að vera að nota í annað sinn í röð Í FYRRA! Eftir ofát hjá systu var ég mætt til Dibbu alveg syndsamlega snemma í svall og kjaftæði. Það var samt alveg stuð. Þetta var ágætis dagur svo sem en það þarf bara ekkert að hafa mikið fleiri orð um hann. Kvöldið hinsvegar var alveg fráleitt. Ég fór á versta ball sem ég hef nokkurn tíma borgað mig inn á- aldrei séð svona mikið eftir neinum aurum. Svo var bara einhver bjáni þarna sem minnti mig á að ég hef ekki heyrt öppdeit frá litlu systur mjög lengi – fer að kippa því í liðinn.

Við Rögnvaldur áttum mörg orð um það á heimleiðinni hvað þetta ball var lélegt og ég veit að þá var ég að skafa utan af hlutunum.

En hvað um það.... góður dagur með kúkakvöldi – gott að komast heim að sofa.

Langi Föstudagur


Föstudagurinn langi reis svo bjartur og sætur og fékk ég fyrsta sólargeislann í geiflurnar um áttaleitið – er það elli kerling sem gerir þetta að verkum að ég get ekki lengur sofið á morgnanna? Ég lá og horfði á Evu sofa fram til ellefu, þá gafst ég upp á að reyna að vekja hana með augnaráðinu einu og sparkaði í hana. Ég fann mikla ást frá henni þá. Eftir hangs, vitleysu og útræsingar lögðum við af stað ásamt Dibbu áleiðis til Þingeyrar þar sem stefnan var tekin á hesthúsin. Pabbi sagðist feginn að heyra að ég riði hestum þar sem ég fengist nú ekki nálægt neinu öðru, ég er að hugsa um að taka upp sömu afneitun- já, það er nefnilega ég sem fæst ekki nálægt karlmönnum en ekki þeir sem forðast mig eins og heitan...
En já, Þingeyri! Eftir tilheyrandi þynnkuútbelgingar og vökvabyrgingar mættum við galvaskar til Hrafnhildar sem splæsti hrossum á línuna. Þegar ég komst loksins upp á Brjánsa minn í fimmhundruðustu tilraun (og þá með koll til að príla þetta) varð þetta magnaðasti útreiðatúr sem ég hef upplifað. Það er mér mikill heiður að tilkynna fólki að Mæja Bet tolldi á baki hvorki skemur né lengur en allan tíman og finnst mér það undur og stórmerki. Evu hinsvegar var hent af baki og var mikið hægt að hlæja að því og ekki skánuðu hláturrokurnar þegar Dibbu (sem hélt í hest Hrafnhildar á meðan hún elti Evu hest) tókst með undraverðum hætti að snara Mæju Bet með taumnum svo hún sat í ljótri súpu. Með hest undir sér sem vildi upp brattan og snöruð af öðrum sem vildi niður. Hún hugsaði með sér að drýgja þá hetjudáð að grýta sér af baki en sá fram á harkalega hengingu og að verða að lokuð slitin í tvennt. Ég veit ekki alveg hvernig þetta blessaðist en ég er ánægð með þetta – sjaldan hlegið jafn óviðjafnanlega mikið.

Á föstudagskvöld var ball í Hnífsdal sem væri meiriháttar ef ekki hefði verið fyrir þetta kúkaband sem átti að halda uppi fjörinu. Við slíku er aðeins eitt ráð og á það brá ég – drekka nóg. Sat teiti heima hjá Rögnvaldi frænda þar sem Eva (fædd 83) var næst elst í hópi þar sem allflestir voru ´85 og ´86 módel – I felt old!

En hvað um það, ballið var alveg fínt og ég man ekki eftir að hafa tekið eftir Laukhjalinu að glenna sig þó ég dansaði mjög mikið allan tíman. Í rútunni á leið út í vík skemmti ég mér að mestu konunglega nema rétt á meðan einhver sveppur reyndi að bjóða í barminn á mér – eru vestfirðir að fyllast af brjóstapervertum? Ég hef aldrei orðið fyrir slíku áreiti eins og upp á síðkastið – myndi fíla það ef það væri ekki bara lúserarnir sem reyndu að fleka mig! Hvað um það – fór á kostum í þessari rútuferð og skeit hægri/vinstri yfir ást og hamingju og allt þetta sem venjulegt fólk hatar. Því miður var ég nokkurn vegin bara umkringd fólki sem er ekki venjulegt og lá knúsandi maka sinn og hatandi þessa háværu mellu sem fór svo bara ein heim að sofa – eins og alltaf!

Hefst hin langa helgi...

Ég veit ekki fyrir tilstilli hvaða kraftaverks ég lifi til að líta þennan dag en ósköp er ég þakklát fyrir það. Ég minnist þess þegar ég lét, hér um árið, út úr mér falla að ákveðin ónefnd vinkona mín hafi breytt jólunum í hórdómsmessu – í hvað breyttust þessir páskar?
Þótt lítið hafi fyrir hórdómi farið þá voru þeir nokkurn vegin gersneyddir öllu hófi, skynsemi og sérstaklega velsæmi.

Þessi allt of langa helgi hófst á miðvikudegi með fullu tungli og ömurlegri heimsókn til versta vinar sem ég gæti kosið mér – ómynnishegrans. Fimmtudagur tók óvenjufljótt við með lífsbjörg minni á fyrsta bjór klukkan átta að morgni og svo dauðaleit að skónum mínum sem fundust síðar úti á hlaði – þeim megin sem heimildamönnum ber saman um að ég hafi ekki gengið inn. Mér líkaði ekki við gloppótt minni mitt svo ég gerði það sem ég gat til að drekkja móralnum í öli og ógeði. Það hafðist furðu vel og við tók fyndnasta kvöld í manna minnum. Ekkert opið og því engin peningaútlát – bara setið og hlegið að fyndnasta frænda veraldar.

Öll iðrun og eftirsjá hvarf í vímu hláturs sem færði mig hamingjusama, sæla og sæta og sadda af eldamennsku Evu og Rögnvaldar inn í vaggandi draumaheim þar sem allt var gott og fallegt!