föstudagur, nóvember 07, 2003

Eftir mánuð verð ég tuttugu og tveggja ára

Og hvað get ég gert við því annað en bara að halda mínu striki sem framúrskarandi fábjáni? Þar sem nú er kominn föstudagur er sennilega ekki seinna vænna að fara að taka seinustu helgi í sátt. Eftir ömurlega feitan og ljótan laugardag tók við ömurlega feitt og ljótt laugardagskvöld. Það var með naumindum sem að við Drullí fengumst út úr húsi til að fara á kvennafjör í Krúsinni. Ég verð að segja að við hefðum nú barasta betur sleppt því. Svo ég stikli á stóru þá fór ég í enn meiri fýlu, lagðist á barinn og eyddi eins og einu vikukaupi, missti allt vit, var með uppistand í sjallanum þar sem ég kokaði titrara og hreytti víst alls konar vitleysu í þann mann sem síst átti það skilið. Góð heimferð hjá okkur Dibbu, skil enn alls ekki af hverju okkur var ekki hreinlega hent út á hlíðinni – en svona er sumt fólk greinilega fljótandi í þolinmæði.

Þrátt fyrir uppistandið mitt átti ég vafalaust betri sunnudag en Drullí. Ósköpin hófust strax þegar hún vaknaði guðmávitahvar við hliðna á guðmávitahverjum, hún hafði ekki nema rétt stunið upp úr sér spurningunni “hvaða helvítis vitleysu gerði ég núna?” þegar hún áttaði sig á að því að þetta voru nú aðeins ég og hann feiti minn. Þessi dagur fór nú að mestu í það að velta sér upp úr orðnum hlut og æla því sem við tróðum ofan í okkar vel timbruðu vambir.

Öll vikan hefur borið keim þessa dags og er ég hreinlega að niðurlotum komin af ælu, áhyggjum og svefnleysi. Því heiti ég sjálfri mér því að næsta vika verði að öllu leyti betri og ætla ég að byrja með dansiballi á laugardagskvöld. Því.....

“dansa, hvað er betr’en að dansa
í dansi gleðst ég sérhverja stund”