laugardagur, október 16, 2004

Morgunmæða

Þegar ég vaknaði í morgun hafði ég gjörsamlega allt á hornum mér. Hárið mitt var stærra en nokkru sinni, ég var með rautt lófafar á bringunni, koddafar sem sést hefði utan úr geimnum og enn einn morguninn blasti við mér rass sem var enn stærri en kvikyndið sem ég hafði bölvað undir svefninn. Afrakstur þess að hafa, eins og fáviti, vakað yfir sex and the city langt fram á nótt var fastur í hjarta mínu sem í morgun öskraði á mig að ég væri einmanna. Af því heimska hjartað mitt hafði ekki nógu hátt þá var helvítis lestin mætt utan við gluggann minn - ein af þessum gömlu, háværu sem prumpa mengun alla leið að tannburstanum mínum. Ég lokaði gluggahelvítinu og henti um leið fallegu plöntunni, sem Aideen gaf mér þegar ég flutti inn, út um gluggann. Hún liggur nú þar fyrir neðan og ég kemst ekki til að ná í hana því hliðið er læst og þessi rass er of stór til að klifra. Aldrei þessu vant langaði mig í morgunmat, ég átti seríos uppi í skáp og kom því þægilega fyrir í skál sem ég skreytti svo með mjólk sem var það þykk að mér datt í hug að nota hana til að raka á mér leggina. Mér var ekki skemmt! Ég einhvernvegin hafði það á tilfinningunni að ég myndi gleyma einhverju í dag svo ég ríghélt í lykilinn minn - það mun taka smábæjar Mæsuna tíma að venjast því að ganga um með svona grip. Ég læsti herberginu mínu utan frá, með lykilinn límdan við lófann, fór niður stigann og út. Skellti á eftir mér útihurðinni og gekk út á planið, við mér blasti vitaskuld öskugrár morgunn og ég blótaði honum á meðan ég gekk í átt að símaklefanum. Það var þar sem ég áttaði mig á því hverju ég hafði gleymt - þegar ég steig í poll! Hvernig á ég að vita hvenær ég er í skóm og hvenær ekki þegar það er enginn sérstakur staður þar sem maður sparkar þeim af sér og treður sér aftur í þá? Hérna vilja allir bara alltaf vera í skónum sínum svo ég hef orðið aldrei hugmynd um það hvort ég sé skóuð. Ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að ég var að fara í fjölmiðlafræðitímann minn sem er bara aðra hverja viku þá hefði ég skriðið upp í rúm og legið þar á meðan þetta morgunskrímsli hefði, hægt og bítandi, skilið sig frá öðrum persónuleikum þessa dags - hvenær varð ég svona samviskusöm? Ég fór inn, sótti skó, fór í skólann og fékk mér appelsínusafa í morgunmat.

Það var ekki beint til að kæta mig að allir gangar skólans voru eins og umferðarmiðstöð strax um níuleitið. Ég sat og var að reyna að koma ofan í mig safanum á meðan illa máluð frethænsn töltu framhjá mér með flugfreyjutöskurnar sínar og risa klumpa á bakinu. Þetta lið fer heim um hverja helgi, maður hefði haldið að það drægi aðeins úr athöfninni í kringum það að pakka niður. Oh, stundum þoli ég ekki stelpur! Píkuskrækjandi, ofpakkandi, slúðrandi drasl sem gengur um þrönga ganga, á lúsarhraða, í hópum dreifðum yfir allan ganginn svo það er bókað mál að ég kemst ekki framhjá þeim þegar ég er að reyna að strunsa úr mér skapillskuna.

Mig langaði að kúka á hausinn á tæfunum sem mættu í fyrsta tímann en svo gerðist eitthvað. Viskugyðjan sem er með þessa tíma er aldrei nema svona ca mínútu að draga mig inn í efnið sem hún er að tala um. Ég kom út úr tímanum hjá henni bara sæl og sátt. Skellti mér meira að segja á bókmenntafyrirlesturinn sem ég sór í morgun að mæta ekki á. Hann var frábær líka - hver hefði vitað að fyrirlestur um Dracula yrði bara fyrirlestur um kynhneigð, kynhegðun og kynlíf. Þegar ég kom þarna út var vissulega kominn föstudagur. Svo ég tók rútuna í bæinn og fékk mér hambó - nú er ég kát!

Þetta gat hún

Eftir skammarlega langan tíma er Mæsa loksins búin að redda tæknimálunum sínum þannig að fartölvan mín, hún Dolly Dell, er loksins nettengd.

Hvað er nú títt af stelpunni? Það er fátt raunar. Lífið hér er enn leikur einn, ég er enn langt á undan áætlun í skólanum - veit ekki alveg hvað það á að fyrirstilla, og er að sjálfsögðu búin að skíta upp á mitt bak í karlamálum. Ekki lengi að því sem lítið er.

Við eiginmaðurinn erum að plana bekkjarpartý, eða "drinkathon" eins og hann vill kalla það blessaður - ég veit ekki með hann, kannski ekkert svo góður fengur. Annars var hann nú elska við mig í gær. Ég sat og svitnaði og stiknaði í testesterón fylltri skólastofu og hlustaði á fyrirlestur um þýska stjórnmálasögu - ekki spyrja hvernig ég endaði í svoleiðis kúrs. Þegar ég fann hádegisverðinn koma skríðandi til baka ákvað ég að láta ekki sjá mig í seinni tímanum. Um kvöldið hringir svo eiginmaðurinn í mig til að athuga hvað hafi orðið um mig. Ég veit ekki hvort það voru myndrænar lýsingar mínar á æluferðinni inn á fatlaðaklósett sem gerðu hann skrítinn eða hvort hann var hræddur um að hann hafi náð að barna mig með því að ímynda sér fjörið sem ég veitti einhverjum öðrum á brúðkaupsnóttina okkar en hann varð allavega voðalega almennilegur og skilningsríkur og toppaði svo allt með því að segjast vera búinn að redda mér glósum úr þessum tíma frá einni af stelpunum því hans væru svo ólæsilegar. Ég veit ekki hvað ég á að halda, ég er eiginlega farin að gruna mannhelvítið um að vera að eyðileggja þetta fína sexless marriage okkar með að líta mig hýru auga. Ég hitti fólkið sem hann býr með fyrir skemmstu og fannst þau vita óþægilega mikið um mig... æji, yet again þá kenni ég túttunum mínum um þessa uppákomu. Ég hef ekki undan að koma mér úr vitleysunni sem þær eru að koma mér í hérna úti. Einhvernvegin hélt ég samt að ég gæti nú treyst á að eiginmaðurinn færi ekki að reyna neitt en andskoti hefur hann hagað sér undarlega síðustu daga. Sei sei...