fimmtudagur, janúar 29, 2004

Horfin sjónum almennings

Það er skemmst frá því að segja að Mæsa sprakk og mun ekki blogga í bili. Þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á vægast sagt ömurlega meingallaðri tjáningartækni hennar eru beðnir um að fyrirgefa og/eða gleyma. Fyrr en varir mun hún hverfa á vit einangrunar og verða þá sambandslaus við umheiminn í nokkrar vikur, engar tölvur, engir rúntar og engir helvítis GSM-símar.

Farið vel með ykkur, hver veit nema við sjáumst eftir fáeinar vikur – ef ég verð þá orðin hæf til mannlegra samskipta.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Magnaður andskoti

Ég er næstum hætt að hafa skoðanir á nokkrum sköpuðum hlut. Mér finnast að vísu kartöflur enn vondar og get talið eitthvað svona rusl til, en merkilegri málefni en þetta finnast ekki í kollinum á mér – skrítið.

En hvað um það. Sá það í gær að kannski er mér að vaxa vit bara – nokkuð gaman að því. Fór í trivial með tveimur skaphundum og tókst að bera sigur úr bítum með að svara, ekki bara einni, heldur tveimur sportaraspurningum.

Mér leiðist, ég hef ekkert að gera, minna að segja. Sennilega er ég stressuð vegna yfirvofandi breytinga á högum mínum, kannski er ég lúin sökum langvarandi svefnleysis. Ég er allavega örg og þreytt með hnút í maganum sem ég get fundið 50 ástæður fyrir en efast samt um að nokkur þeirra sé rétt. Það er manneskja í hausnum á mér að blaðra og ég veit ekkert hvað hún er að segja. Ég verð að fara að fá meiri og dýpri svefn en þessi stöku tveggja tíma lúr er að veita mér.

Annars er tilveran bara spaugileg með mínum þreyttu augum...