Ástin og aurar...
Sambönd koma og sambönd fara, þau koma aftur og menn geyma aðra til vara. Þeir geyma eina í bóli og aðra í síma, eina í hverri höfn ef þeir hafa tíma.
Eru hugmyndir mínar um einkvæni virkilega svona gjörsamlega úreltar? Það er sárt fyrir þennan vonlausa rómanker að bíta í það súra að ungviði minnar kynslóðar upplifi raunverulega sjálfa ástina sem óvelkominn kláða. Þeir henda sér út í allt og ekkert, taka hverja óþarfa áhættuna á fætur annarri en þegar ógnvaldurinn Ást birtist þeim í öllum sínum dýrðarljóma þá verða þeir hræddir, neita að taka sénsinn og fleygja henni út á hafsauga, þar sem þeim finnst hún best geymd. Er þetta kynferðislega frjálsræði komið til að vera? Á ég bara að gleyma öllum tilfinningum og ríða eins og rófulaus hundur um alla framtíð án þess nokkurn tíma að elska? Nei takk, ekki þessi stelpa! Mér er sama þó ég hrufli á mér hnén í leit að ástinni og þótt ég endi á hafsbotni hennar vegna, mér finnst hún verðugur málsstaður, þó ég sé bara deskoti hrædd um að ég yrði einmanna ef ég stofnaði klúbb í kringum hann. Frá upphafi kvikmyndanna höfum við horft upp á rjóða vanga og ástarsælu á skjánum, þar áður lásum við um þetta í bókum. Alltaf var ástin svo dásamleg að vankantar lífsins bliknuðu fyrir mikilfengleik hennar - þú gast verið snauður að öllu öðru leiti en ef þú áttir ást þá lifðirðu af. Getur verið að mín kynslóð sé að snúa svona út úr öllum boðskapnum? Erum við farin að setja samasem merki á milli þess að elska og líða skort, að elska ekki og lifa í allsnægtum? Er það Mammonshyggjan sem er að drepa ástina? Ætlum við bara öll að verða rík og voldug, taka það og þann sem okkur langar til í fullkomnu skeytingarleysi um aðleiðingar? Keik stend ég upp og býð herjum Mammons að gjöra svo vel og gera áhlaup á mína höll, ég fell ekki!