Ekki vil ég enda svona
Ég er virkilega ónýt og miður mín á þessari stundu. Hingað í vinnuna hringdi kona nokkur sem, af misgóðu, er þekkt og umtöluð hér í bæjarfélaginu. Kona þessi náði að böggla því út úr sér eftir fáeinar mínútur af logandi vítiskvöl og steypu að sig langaði að senda fax. Fyrir manngæsku þá er ég mun þekkt fyrir (JÁ!) ákvað ég að sjá aumur á konunni og reyna að verða við þessari ósk, svo fremi sem hvergi í textanum kæmi fram neitt sem falið gæti í sér sprengju- eða hvers kyns morðhótun.
Við uppljóstrun þessarar ákvörðunar minnar brast kellingin í grát og sagði að það væri dásamlegt að hvítvínslegnir gamlingjar, eins og hún, gætu nú stólað á, í hið minnsta, fáeina arftaka æskunnar. Eftir för frá gullslegnum dásemdum um sjálfa mig til úthúðanna fyrir að ég skuli hafa látið hana bíða á línunni og svo sorgarsögur um hennar líf og stöðugan ágang karlmanna eftir fráfall elskulegs eiginmanns hennar fékk ég loksins upp úr henni fax númer – viti menn, það var faxið hingað! Mér fannst það ágætt því þá gat ég, sama hvernig allt færi, sagt það með góðri samvisku að faxið hefði komist til skila. Kellingaruglan stundi því næst upp úr sér textanum sem var svo hljóðandi: “Gott að vita að þú sért lifandi, Caro”.
Nú varp ég öndinni léttar því ég taldi næsta víst að eftir þetta korter sem ég hafði nú varið í helvíti losnaði ég við konuna af línunni, sú varð ekki raunin. Hún vildi nú vita hver þessi engill á hinum endanum var og þar sem ég er fífl kunni ég ekkert logið svar hér við, fékk ég þá yfir mig annað kast grátar auk ættfræðikennslu. Af henni afstaðinni rann það upp fyrir þessari draugfullu konu, guð má vita hvernig, að hún hafði gefið mér upp rangt fax-númer. Ég er nú fávísari en froskalöpp fyrir að hafa ekki áttað mig á mistökum hennar og bent henni á villu síns vegar – já, það er ég sem er fífl.
En þrátt fyrir að ég hafi verið asni mátti ég nú heyra söguna í kringum faxið með tilheyrandi stunum og grátköstum. Þessu fylgdi hún svo eftir með því að segja mér hvaða hvítvínstegundir hún væri búin að skola sig með í dag og hversu einmanna og aumkunarverð manneskja hún væri. Af hverju? Af því að það væri séns í heimskasta helvíti að þetta hefði allt farið framhjá mér?
Nú sit ég með kökk í hálsinum og þykist hafa séð hversu illa getur farið fyrir manni. Ég vil ekki enda alein, í niðurníddum húshjalli á horni niður við sjávarsíðu, vinalaus og allslaus. Útúrdrukkin hrellandi ungar sálir, sjálf vitstola af einmannaleika og sjálfsvorkunn. b>Því lýsi ég hér með eftir fólki til að umlykja mig ást og umhyggju, trygglyndi og skemmtun að eilífu.