föstudagur, nóvember 21, 2003

Vælukjóar

Voðalegt tuð er í þessu fólki mínu. Af því að það þekkir mig ekki 100% s.m.k. Þessu prófi þá á bara að ráðast á mann með svívirðingum, væna mann um lygar og undirferli. Hvaða vitleysa... ég sé nú aðeins fram á tvennt sem getur þaggað niður í þessum upphrópunum; annars vegar getur fólk bara drullast til að kynnast mér betur eða þá að ég get breytt prófinu og haft það nógu létt til að fólk láti af öllu væli. Ég er að hugsa um að létta það frekar en að þurfa að sitja undir yfirheyrslum ofan á svívirðingarnar.

Þið skuluð þá líka drullast til að taka þetta svínlétta próf sem ég er búin að skapa!

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

I’m a bit of a mystery woman, aren’t I?

Frábært að sjá hvað fólk (tjah, þessar tvær hræður sem hafa tekið prófið mitt) er að skíta á sig í þessu mæsu-prófi! Enn hefur þó enginn fallið J

Í nótt dreymdi mig í fyrsta sinn í langan tíma hvorki limlestingar né manndráp – veruleg framför fyrir sálartetrið mitt. Hinsvegar dreymdi mig sjálfa mig í einhverjum sumarbústað þar sem ég ól barn. Mamma var skyndilega komin á svæðið svo mér fannst ekkert sjálfsagðara en að henda króganum í hana á meðan ég fór að leita að þessu báthræi sem ég vissi að átti að tilheyra bústaðnum. Drauma-Mæja er greinilega ekki sú klókasta því hún tók Tilduna með sér að leita. Ég vissi að lítið bryggjutetur átti að vera falið inn á milli trjánna einhverstaðar, hvort ég þyrfti að hoppa yfir lækinn eða klifra niður klettana var svo aftur ráðgáta. Tildan hreyfst að hvorugu og lagði til að við gengjum eftir vegslóða sem virtist liggja langa eilífð út í buskann, hún bannaði mér meira að segja að taka Hexíu eins langt og hún kæmist – taldi hana ekki hafa nokkra burði í þennan slóða. Lítið hrifin af þessari hugmynd Tildunnar, að ganga fleiri mílur í þveröfuga átt við nokkuð sem ég vissi að var rétt átt, leifði ég henni þó að ráða.
Eftir gífurlega langa og mikla göngu og töluvert meira þras um hvor okkar væri fáviti blasti við okkur húsaþyrping. Hrósaði Tildan þá happi, þess fullviss um að fljótlega myndi blasa við okkur bryggjan og bátur sem lykillinn sem við höfðum milli handa gengi að. Þessi húsaþyrping virtist þó ekki hafa neina bryggju að geyma við fyrstu sýn. Ört fór hún þó stækkandi og vorum við allt í einu staddar á þjóhátíðarfagnaði Smáhrepps sem, eftir því er ég gat næst komist, var smábær fáránlega nærri Neskaupsstað og því drasli öllu. þá höfðum veið gengið úr sumarbústaðnum á suðurlandi lengst austur á firði vegna þess að Tildan nennti ekki að hoppa yfir lækinn. Þessi stórfenglegi mannfögnuðu þeirra smáhreppsbúa innihélt þó nógu mikið af myndarlegum karlmönnum á fengialdri til þess að Tildan væri tilbúin að staldra við. Mikið var þetta flón svo hissa þegar við stukkum upp í hjólabát út gúmmíi og bátalykillinn okkar gekk ekki að!

Þegar þarna var komið við sögu varð ég fyrir skyndilegri truflun þar sem ég vaknaði við að þurfa að hlaupa til og æla.

Ég sofnaði þó aftur og sveif inn í framhald af hátíðarhöldunum í Smáhrepp. Ég var að reyna að draga Tilduna frá ótalandi og mjög sennilega óalandi folunum sem henni leist svo vel á. Ótrúlegt að ótaminn losti þessa kvenvargs skuli skila sér svona hárrétt inn í drauma mína. Mér tókst nú að lokum að ná henni með mér. Þegar við komum aftur í bústaðinn var verið að ferma krógann minn og Tildan hafði fengið að hafa 3 fola meðferðis.

Þannig fór nú um sjóferð þá.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Brjálað að gera

Mér er búið að leiðast það mikið í vinnunni í dag að ég er farin að dunda mér við að hugsa um jólin. Ekki svo að skilja að mér finnist það eitthvað gaman að sjá að fólk sé farið að skreyta svona snemma, eða að mér finnist það eitthvað æðislegt að Bylgjan sé að missa sig í alltof snemmbærri jólaheimsku og alls ekki vegna þess að mér finnist það frábær hugmynd að byrja svo brjálæðislega snemma að hringla í litlum krakkalökkum að þegar loks líður nær jólum þá verði þau orðin löngu snaróþolandi og farin að halda að þetta sé allt eitt allsherjar gabb. Nei, nei ég er auðvitað fyrir lifandis löngu búin að sætta mig við það að jólin eins og ég elskaði þau séu fallin fyrir hendi markaðssetningar, efnishyggju og trúleysis. Því er ég ekki að hlakka til hátíðar og finna kitlandi spennu við hverja óþolandi jólaauglýsingu, ég er bara hugsa um djamm. Kallið það guðlast ef þið viljið – mér er sama. ég hef mínar ástæður fyrir mínum leiðum og er alls ekki að leita að áliti fólks á bjánum sem skreyta of snemma eða gera of mikið úr jólunum. Það eina sem vakir fyrir mér er að fá að vita hvort það ætli ekki einhver að djamma með mér? Foreldraeiningin ætlar að flýja til noregs svo það þýðir aðeins eitt...

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Ég þori ekki að fara með það

en ég tel upp á að nú hafi verið skorað á mig í stríð. Maður reynir að aumkva sig yfir hana Tildu litu með að búa til sögur um að hún hafi loksins fengið eitthvað og þá á að bregðast við með illu. Nú er bara verið að fylkja liði gegn manni og siga fólki á einhvern alsaklausan íslenskukennara við MÍ sem á að draga inn í þessa saurspilltu orrustu. Það kemur mér þó í sjálfu sér ekki á óvart að hún Tilda skuli snúa þessu upp í einhverja baráttu, það eina sem mér finnst einkennilegt er að hún skuli ekki sýna meiri trú á mér en þetta. Ég mun að sjálfsögðu fara eins langt með þetta mál og ég frekast get – og sama hvað út úr því kemur þá mun ég ávallt standa uppi sem sigurvegari í þessu stríði fyrir eftirtalda eiginleika mína:

- ég hef enga blygðunarkennd
- ég læt hafa mig út í allt
- mér dettur alltaf eitthvað í hug til að toppa ALLT sem fólk getur mögulega gert mér
- ég tapa ekki stríði á einhverjum smáhindrunum eins og að þurfa að leggjast með þessum blessuðum kennara
- ég finn aldrei til með andstæðingum mínum


ef hún Tilda mín var ósátt við spaugsögu helgarinnar þá má hún bíða og sjá hvað gerist ef þetta símtal berst mér.