laugardagur, júlí 12, 2003

Jíííííhaaaaaa, er í fríi í borg dauðans - það er fínt. Á að mæta bráðum í flug til að komast heim að leika við Tinnu - það er fínt. Er að drekka bjór svo ég verði ekki of hrædd í flugi - það er fínt. Það er grenjandi rigning og vélan á örugglega eftir að slæda eins og mófó þegar/ef hún lendir á ísó - það er fínt. Mig langar í pizzu - það er fínt!

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Mig langar að pússa kústskaftið mitt og fljúga á brott



Stundum á ég enga ósk heitari en þá að leggja land undir fót niður í kyndiklefa þar sem ég gæti pússað kústskaftið mitt og svo þaðan flogið á brott til marka tveggja heima. Þess forna heims fjölkyngis og galdra, þar sem ég get iðkað allt mitt óáreitt, og þessa heims hér.

Ég vil ekki yfirgefa þennan heim með öllu, þar sem ég er yfir allt og alla hafin – magnaðari en nokkur önnur sála en mikið væri gott að fá frí frá yfirburðum og lotningu almúgalýðs. Hverfa aðeins á fornar slóðir og hafa það rólegt í smá tíma sem nánast aðeins hver annar meðalskussi.

En í þessum heimi er það bara ekkert lengur móðins að fljúga um á kústskafti, það er beinlínis illa séð af hinum fáfróða almenna íbúa þessa heims. Ólmur vill hann þó eiga fleiri tonna svífandi stálflykki til einkanota þar sem hann getur horft á nýjustu rómansvelluna á DVD á meðan hann talar í rándýran síma sem tekur líka myndir.
Mér finnst þetta ekki flottara en að þeysast um heima og geima, þá meina ég það bókstaflega - heima á milli, á vel fægðu kústskafti, hola sér svo niður í skógarrjóðri þar sem maður bruggar seið sem sýnir manni allt sem maður vill sjá.
Maður sér raunveruleikann og óveruleikann eftir eigin geðþótta, þú ræður sjálfur endinum og söguþræðinum öllum. Á meðan kjaftar þú svo við fólk í gegnum hugskeyti og hendir álögum um alla veröldina eins og þig lystir.
Af hverju samt að ráða endinum sjálfur? gæti margur spurt sig.

Vegna þess að vissulega getur vissan komið á óvart, vissan er heimsmeistari í að klæða sig upp sem óvissu og þær tvær saman leika mann sífellt grátt eins og skuggalega líkir tvíburar sem báðir hverfa upp í tré, eftir prakkarastrik annars, og benda svo hvor á annan.

Það er mun æðra takmark að vita það sem sjálfur veit en það sem enginn veit. Þegar ég veit vissu mína frá óvissu, vini mína frá fjendum, kyrrð mína, ró og gleði frá angist og taugatrekkingi þá má ég sátt við sitja. Og þó ég sækist enn í spennu og af og til óvissu þá verður það minn innri friður, minn styrkur, mitt vopn að þekkja rétt frá röngu, gott frá illu, mig frá þér. Í hinum forna heimi er allt þetta svo mikið léttara en hér, á tímum efnishyggju, undirferla og eiginhagsmunapoti. Ekki svo að skilja að þetta sé ekki til hinu megin en þar veit maður hverjir breyta rangt og það sem meira er þeir sem breyta rangt vita að þeir gera svo.

Ég breytti sjálfsagt rangt með að stökkva upp á kústskaftið og nýta mér þar með alla yfirnáttúrulegu hæfileika mína – en núna er ég hér, svo hvað veit ég?

mánudagur, júlí 07, 2003

Og svo var komin laugardagur


Hvílík snilld að mæta í ríkið þeirra Ólsara. Það er á neðri hæð í reisulegu heimahúsi ásamt barnafataverslun. Varla var mér stætt þegar þar inn var komið því þetta var jafnvel fyndnara en í Grindavík þar sem ég greip vodka úr hillunni við hliðina á Andrésblöðum og litabókum fyrir púka. Við versluðum þarna ábót á bjórinn okkar og svo var haldið aftur upp á tjaldstæði þar sem ég fékk mér smá sopa af birgðunum – bara svona til að tryggja að það væri alveg örugglega allt í lagi með þetta.

Skyndilega fékk einhver þá snilldarhugmynd að fara á Stykkishólm í sund – djöfull leist mér allavega vel á að komast í sturtu svo ég skellti mér með. Sömu sögu var að segja um alla aðra nema Bjarna (sem við köllum nú Palla). Mikið get ég ímyndað mér gleðiglott á sjálfri mér ef ég vaknaði í bæ þar sem ég þekki ekki hræðu, allt fólkið sem ég kom með á bak og burt, ég peningalaus, símalaus og bíllaus. Ég held að ég hefði ekki alveg verið sátt við þetta fólk – en hann Palli tók þessu með stóískri ró og lá bara sáttur inni í tjaldi þegar við komum aftur klukkan rúmlega fimm eða eitthvað.

Annars var fínt á Hólminum. Ég sofnaði í aftursætinu og rumskaði ekki fyrr en allt fólkið kom til baka úr sundinu. Þau stukku yfir í át á meðan ég fór þarna inn og fékk út af fyrir mig einar tuttugu sturtur til að hlaupa á milli – það var ógeðslega gaman. Það eru svona hreyfinemar á veggjunum sem ræsa sturturnar og Mæja flókna sál sem er mjög erfitt að skemmta gat fundið upp svo marga leiki að þessum nemum – hef sjaldan skemmt mér jafn vel við að baða mig. Þegar ég var orðin svona nokkuð strokin og fín fór ég upp og hitti Rúnar tjaldstæðismaster og kjaftaði við hann í smá stund – alltaf jafn sætur þessi kútur.
Dibba – sem mér segir nú hugur um að hafi ekki verið alveg fullkomlega edrú kom á Hexíu minni og sótti mig og færði yfir á fimm fiska, þar sem ég borgaði 1.100 krónur fyrir súpu og tók flottasta veitingahúsarop sem ég hef tekið langalengi. Ofboðslega vorum við ekkert að drífa okkur – eins og Palli hafi hreinlega verið gleymdur.

Laugardagskvöldið fannst mér langt um betra en föstudagskvöldið. Þótt ekkert hefði gerst annað en það að Dibba datt úr rólunni og ég hringdi í mömmu hennar til að spjalla þá hefði það dugað mér. Það var líka gaman niðri í bæ og fór Haukur frændi alveg á kostum með munnhörpuna... seigur strákurinn... djöfull fannst okkur við líka fyndin þegar við vorum orðin tékkar og töluðum bullandi ensku við fáránlega fullt heimafólk uppi við safnaðarheimilið – Evu var ekki eins skemmt. Inni á þessu magnaða balli hitti ég svo frænda minn sem tjáði mér það að hann væri víða búinn að heyra að ég væri komin út úr skápnumég var hvergi sátt við það af þeirri ofureinföldu ástæðu að það er ekkert til í því. Og ég er líka ekkert á leiðinni þaðan því ég er ekkert þar – eins og ég færi að gefa karlmenn upp á bátinn og afsala mér þar með eftirlætis eiginleika mínum, ég er kannski bitur en það er samt ekki þar með sagt að ég vilji hætta við karlmenn. Jæja.... höfum ekki um þetta fleiri orð. Ég hafði þarna mér við hönd karlmann sem ég kynnti sem kærasta minn og var það alveg skothelt plan þar til hann var spurður hverra manna hann væri og svaraði því sannleikanum sannkvæmt – klaufa grey! Núna finnst fólkinu mínu sem þarna var mætt ég ógeðsleg og heldur að ég sé að lúlla hjá litla frænda mínum... ahhh well...

Fátt veit ég verra en vakninguna á sunnudaginn. Það var svoleiðis mígandi rigning og klukkan ekki orðin neitt neitt. En um þetta hafði víst verið samið því fólk vildi komast í búðir og tívolí í Reykjavík áður en við færum heim – DREIFARAR ERU ÓMÖGULEGIR. Ég nennti ekkert að hanga með þeim svo ég fór heim til Rúnu að kúra hjá henni og Beckham.

Á heimleiðinni var ég svo næstum dauð í höfðinu fyrir sakir mótorsins í trantinum á fullu fullu Dibbu sem þagði samanlagt kannski í klukkutíma og eins næstum köfnuð þar sem Eva kúka-maskína losaði að meðaltali eina skítabombu fyrir hvern ekinn kílómeter.

Svarthvítu hetjur helgarinnar eru Haukur frændi fyrir frammistöðu sína á munnhörpuna og að sjálfsögðu á ballinu og svo Bjarni Pétur fyrir að keyra Heiði Helvítis aftur og raunar fyrir að losa mig við eins mikið af akstrinum og hann gerði.

Bráðum verð ég rekin úr vinnunni ef ég reyni ekki að snúa mér að einhverju örðu en þessu helvíti....

Færeyskir Dagar


Geispandi og gapandi, blinduð af sól, þreytu og sálardofa kom ég í hlaðið heima hjá mér um miðnæturleitið í gær. Það var ekki laust við að ég gæti fegin sleppt hendinni af þessari helgi sem, þrátt fyrir nokkra smáhnökra, var frekar mögnuð.

Tvö fullskipuð lið voru komin í starholurnar á fimmtudegi: Hexíu-gengið – skipað sjálfri mér og Bjarna Pétri sem útskipuðum bílstjórum og svo Evu og Dibbu sem beygjulesurum og guð minn góður hrópurum. Súbba- gengið – skipað Rögnvaldi sem sólódriver og Hauki og Gunnu Dóru sem farþegum og Guðmundu sem pissustoppsheimtara.


Ég stakk af úr vinnunni minni rétt upp úr fjögur á föstudaginn svo við gætum nú kannski lagt af stað á nokkuð kristilegum tíma. Að sjálfsögðu urðu þó víða tafir, eins og gengur, en voru þær flestar í tengslum við það að reyna að troða 3 bjórkössum, 4 tjöldum (þar af einu svona eldgömlu, risastóru sem tekur endalaust pláss), 3 svefnpokum, 2 sængum, nokkrum töskum og koddum, rúminu hennar Dibbu, tveimur kellingum og að sjálfsögðu landakorti í bílinn minn. Allt hafðist þetta að lokum með miklum sáttum um gríðarleg þrengsli og óþægindi alla leiðina. Ég var afar sátt við að sitja undir stýri – jafnvel þótt því skuli hafi fylgt miklar jesús-kallanir og fuss og svei í flestum dýrðarbeygjum Djúpsins. Hins vegar hætti mér að lítast á blikuna þegar að Þorskafjarðarheiðinni var komið og lét ég Bjarna Pétri það alfarið eftir að hefla það helvíti – blessuð sé minning Hexíu minnar sem sjálfsagt fæst senn úrskurðuð látin.

Eftir þessar framkvæmdir okkar á heiðinni (mikill sparnaður fyrir vegagerð ríkisins) gekk ferðin nokkuð áfallalaust og létum við söng og gleði óma það sem eftir lifði ökuferðar. Súbba gengið kallaði þó á fáein stopp þar sem frúin á þeim bænum þurfti að sinna kalli náttúrunnar og herrann gleymdi að fylgjast með bensínmælinum og sá fram á strand á einhverri heiðinni.

Við komust þó hólpinn og nokkuð heil á geði til Ólafsvíkur á sæmilegasta tíma – þó allt of seint til að finna tjaldstæði sem ekki stóð í brekku. Við hentum upp fáeinum tjöldum (hvergi nærri öllum) og tókum svo upp við þá dásemdariðju er mjaðarsötur er. Eftir iðkun hennar í töluverðan tíma var haldið niður í bæ á bryggjuball. Þar varð ég nær samstundis viðskila við fólkið mitt enda einfaldlega allt of mikið af fólki á svæðinu sem ég varð að heilsa upp á. Ég hitti Fanney Dóru og Fjólu Rós frænku, tók nokkra hringi með Fanney og Gísla frænda hennar sem ég, nema minnið sé að hrekkja mig all verulega, bað um að giftast mér – alveg tók hann fáránlega lítil illa í það. S’iðar um kvöldið veittist mér síðan sú óvænta ánægja að rekast á Guðbjörgu og Petruna mína, með þó því miður tilheyrandi angistar og grátkasti – það er þó bara gleymt vona ég.

Það var alveg ágætt að skríða bara inn í tjald og fara á smá flakk þar til að pirra fólk en laumast svo bara inn í draumalandið á rúminu Sigurbjargar á meðan Veslings Bjarni var hengdur upp á súlu þar sem hann fékk að dúsa næturlangt og Rögnvaldur kúrði til fóta með spörk mín í andlitinu - sorry Röggi minn!

Þessi færsla er orðin lengri en svo að nokkur maður nenni að lesa hana svo hér skal gerð pása, ég verð líka að fá mér te eða eitthvað því ég er að sofna.