föstudagur, júlí 18, 2003

Ég er svo mikill endemis ekki sem helvítis klaufi

Í hádeginu hitti ég írann sem mér hefur verið úthlutað fyrir brúðkaupið – I think it’s safe to say að fólk þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að hann ílengist hérna mín vegna. Djöfull var ég ómótstæðilega guðdómleg þegar hann álpaðist heim. Ég lá svo makindaleg í lazy-boynum hans pabba þegar ég heyri einhvern íra biðja um Bella bró, ég taldi nú bara nokkuð víst að þetta væri Gareth svo það hvarflaði aldrei af mér að fjarlægja mestu hamborgaraleifarnar af smettinu á mér eða loka skoltinum á hálftuggðar franskarnar sem veltust um í kjaftinum á mér, með tilheyrandi óhljóðum sökum ofáts. Mér datt heldur ekkert í hug að hafa mig hæga í ropinu eða draga teppið nær þessu úfna höfði mínu til að fela sem mest af matseðlinum sem ég var búin að klína framan á hvíta vinnubolinn minn – pena stelpan í bankanum sagði einhver (áður en viðkomandi kjökraði undan rauninni). Ég heyrði svo einhvern pukrast fyrir aftan mig og reka svo upp hlátur í því sem hann segir “you’re just relaxing, I see” . Svo sorglega viss í minni sök, að þetta sé bara Gareth sem margoft hefur séð hvað ég get verið ljót, snéri ég mér við,lét skína í franskarnar og hugðist henda frá mér einhverri snilld – eitthvað fór nú lítið fyrir henni. Og eitthvað fór nú lítið fyrir því held ég að þessi maður hafi fallið fyrir mér. Ég frussaði aðeins framan í Kyle sem stóð þarna agndofa yfir þessum forkunnarfagra kvendi. Ég meina ekki svo að skilja að ég hafi eitthvað verið heilluð af þessu ráðabruggi og eitthvað búist við að vilja gera eitthvað í því – en maður veit notla aldrei. Fyrr en núna kannski...

Svo fór ég á klósettið áðan í fínu nælonsokkunum mínum, eins og ég klæðist á hverjum degi, og hvað gerðist? Ég tróð auðvitað hendinni í gegn og nú er ég með lykkjufall frá nára og niður á tær... ekki eitthvað svona einfalt sem maður léti kannski sjá sig dauðan með... nei prófið svona átta heilar línur... ég er svo sæt. Needless to say þá hef ég ekki staðið upp frá borðinu mínu eftir þessa klósettferð.

Með minni heppni er ég með homeblest í andlitinu og mæti einhverjum fola svona á leiðinni heim.

Men i'm getting old


Hvað gerðist? Og hvernig gerist svona? Ég man að fyrir svo fáránlega stuttum tíma (mér finnst að það hafi verið í gær) var ég örmagna á sál og líkama í vinnunni að væla það hve ömurlega langt væri til næstu helgar – rétt í þessu leit ég upp og það var kominn annar föstudagur. Ekki að ég sé að kvarta, það veit guð að ég er ekkert að nenna að vera í vinnu þessa dagana, en áður en ég veit af verður kominn desember og ég verð orðin tuttugu og tveggja.

Tíminn flýgur og flýgur. Fullkomlega meðvitaður um það að ellin sé að ná í rassgatið á manni, og að maður sé ekki búin að afreka skít á þessum allt of mörgu árum, gerir maður samt aldrei neitt í hlutunum. Ég veit að maður flýr ekkert fjárans ellina en maður gæti nú reynt að mæta henni með reisn – fullur af lífsreynslu og afrekum. En andskotinn að maður nenni eitthvað að hlunkast upp úr sófanum til að gera hluti.

Þegar ég var púki gerði ég lista yfir hluti sem mér þótti víst að ég yrði búin að upplifa þegar ég yrði TUTTUGU ára (sem mér fannst bara fáránlega mikið af árum). Ég á auðvitað ekki þennan lista lengur en ég get rétt ímyndað mér hvað það er margt á honum sem ég get ekki x-að við. Nú er spurning hvort maður eigi að gera annan lista til að ramma inn og virkilega reyna að krota helling af x-um á.



Þegar ég verð þrítug verð ég búin að:

Eiga minnst einn kærasta
Eignast allavega einn krakka
Ná mér í minnst eitt BA-próf
Ákveða hvað ég ætla að gera við líf mitt
Flytja út frá mömmu og pabba
Kaupa mér rúm
Prjóna heila flík sjálf
Læra að sjóða hrísgrjón og kartöflur
Læra að éta kartöflur
Sætta mig við það að ég var komin með hrukkur fyrir tvítugt
Komast yfir það að vera ekki í menntaskóla lengur
Fækka fylleríum mínum um allavega helming – niður í einu sinni í viku
Skilja af hverju það var sniðugt hjá mér að líftryggja mig
Gráta yfir bíómynd
Fara til Brasilíu, egyptalands, kýpur og kína, japan eða taílands
Læra að meta sólina
Læra að fara með peninga
Hljóta viðurkenningu fyrir eitthvað frábært afrek (long shot – I know)
Upplifa heila viku án þess að villast
Klára sjótímana mína svo ég fái skipstjórnarréttindin
Komast yfir flughræðslu
Sanna mig fyrir fólki sem heldur að ég sé í alvörunni heimsk
Sýna að það er bara þetta fólk sem er heimskt
Læra tvö tungumál til viðbótar
Læra tvær nýjar setningar á frönsku
finna allavega eina rómantíska hugsun í mér
Breytast í gyðju...



Þetta er sennilega ekki tæmandi listi – allavega ætla ég að hafa hann opinn enn um sinn, ji minn hvað ég þarf að fara að demba mér í hlutina!

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Það er svo fínt uppi á Bolafjalli

Þótt slóðinn þangað upp sé ekki öllum heillandi finnst mér æðislegt að skutlast þangað upp, bæði finnst mér rúnturinn notalegur og svo er útsýnið, frelsið og eilífðin þarna uppi meiri en maður, á nokkrum öðrum stað og tíma, getur skilið. Að standa svona á hjara veraldar og sjá ekkert nema fegurð heimsins á meðan maður finnur ferskan andvarann leika um sig og hlustar á bergmál hvellanna þegar steinar hrapa niður í hið óendanlega.

Suma daga vildi ég eiga mér hús á svona stað. Samt ekki alveg þarna þar sem bílar koma og fara í sífellu, aðeins fjær, þó þannig að ég sjái agndofa áhorfendur stórbrotna lands míns en þeir sjái mig ekki. Svo vildi ég að í hvert sinn sem rolla villtist þangað upp þá gæti ég skotið hana, fleygt henni á tein og rúntað svo til byggða, á þyrlunni minni, að sækja vini mína í frábært grillpartý. Eftir matinn gætum við svo dansað í hæstu hæðum og velt okkur upp úr dögginni á grasinu sem loksins er farið að spretta þarna því ég er farin að skjóta allar rollufrekjurnar.

Svo þegar fer að snjóa þá vil ég taka þyrlu mína til byggða, sækja frændur mína og fara til Brasilíu þar sem við lifum eins og kóngar (og ein drottning) fyrir skít og kanil.


mánudagur, júlí 14, 2003

Þessi helgi var nú eitthvað meira en lítið kostuleg

Það var fínt að hanga bara í bænum á föstudagskvöldið og hafa það kósý – það var öllu verra hvað ég varð allt í einu ölvuð og heimsk og til í apapör. Gaman að þessu samt – þetta verður seint toppað.

Laugardagurinn var langur og allt of viðburðarríkur til að ég hafi orku í að þylja hann í huganum einu sinni enn og hvað þá fara að ræða hann. Ég kynntist bræði sem ég vissi ekki að ég ætti til og missti nýfengna trú mína á samböndum – back to being bitur og fer því biblía biturmanna senn í prentun eins og til stóð lengi vel.

Fram að þessu var nú samt helvíti gaman bara og fékk ég að eiga töluvert mikið í Tinnu minni Ágnús þessa kvöldstund – komdu bara aftur til mín Tinna – það er allt of hljótt hérna núna þó stormur hljóti að skella senn á.

Ég er hrikalega syfjuð og er það að bitna stórlega á skrifum mínum svo það er líklega best að láta staðar numið...

First things first

Ég lofaði því víst að nota næstu færslu til að bæta ungri stúlku það upp að hafa einhvernvegin aldrei verið nefnd í Ólafsvíkur færslunum mínum. Kannski hún hafi kúplast út úr allri umræðu af einhverri af eftirtöldum ástæðum:


* Hún kom ekki keyrandi með okkur og var því hvorki sigurvegari né tapari
* Ef ekki væri fyrir sláandi fegurð hennar færi ofboðslega lítið fyrir henni, því hún er afar stillt og prúð
* Hún eyddi mun meiri tíma í að hlaupa undan girnd karlmanna en í að hanga með okkur


Fyrir hvaða ástæðu sem það var þá þykir mér nú ósköp leiðinlegt að hafa ekki minnst á hana fyrr. Tinna mín þú er alveg ágæt (í mínum bókum er það sko mjög gott, því ég er svo gamaldags) og var það einkar fróðlegt að fylgjast með því hvernig þú virkar sem segull á allt karlkyns – sennilega hef ég ekki talað um þetta strax fyrir sakir hreinnar og klárrar afbrýðissemi.

Ég verð nú að fleygja því hér með að það var nú ekki síður gaman að fylgjast með þér núna um helgina – sóðastelpa! En þessi var vissulega vel ættaður eins og fleiri...