31. des.
Mikið er ég fegin að þetta skuli vera síðasti dagur ársins. Rétt eins og þegar maður treður í sig um helgar því maður stendur svo fast á því að byrja í megrun á mánudegi er sjálfsagt að hlaða nógu miklu veseni á sig í lok ársins til að geta þá sáttur byrjað frá grunni á nýjárinu. Eiginlega færi ég sátt að sofa núna svo ég þurfi ekki að vita af mér fyrr en á vakna á morgun á nýju ári – ný manneskja.
Aldrei hef ég stundað það að strengja áramótaheit, þó vissulega hafi ég tekið þátt í nokkurskonar samningi eða veðmáli fyrir síðustu áramót og staðið við mitt. En núna ætla ég hinsvegar að gefa sjálfri mér tvenn loforð og nái ég að standa við þau veit ég að ég skil við næsta ár sáttari við lífið, tilveruna og sjálfa mig.
Vinum mínum, nær og fjær, óska ég farsældar og hamingju á komandi ári. Mér sjálfri óska ég aukinna samskipta við ykkur því ég tek fyrir að eyða öðru ári í jafnmikinn söknuð og sút.
Að lokum...
Þú sem sendir mér sms af vit.is í gær; ef þú þekkir mig nógu vel til að senda mér ráðleggingar um lífshamingjuna ættir þú að þekkja mig nógu vel til að vita að fyrir forvitnis sakir kvelst ég – svo í guðanna bænum, aldrei senda mér neitt nafnlaust aftur.