Góðæri glæpamanna
Ég get endalaust velt mér upp úr dómskerfi þessa blessaða lands en þó aldrei þannig að mér finnist það vera að gera góða hluti. Nú þori ég ekki að hafa um þessa hluti of mörg eða stór orð þar sem í mínu nánasta samfélagi ríkir nú ringulreið og fólk er í lamasessi sökum nýlegra axarskafta þessa götótta fyrirbæris. Ég get þó ekki algjörlega orða bundist – 2 og 3 ár! Á þetta að kallast refsing? Ekki að ég sé að réttlæta glæpi sem “einungis” torvelda mönnum að halda lífi sínu áfram en 2-3 ár má kannski kallast refsing fyrir slíka brotamenn en þeir sem láta ekki staðar numið fyrr en ungur maður liggur í valnum hljóta að eiga að sæta þyngri refsingu. Ég veit að enginn dómur afturkallar glæpinn en má fólki ekki svíða annars staðar en bara í eigin samvisku (þeir sem eiga hana til) fyrir svona verknað? Hvern skal undra þótt maður sem hefur svona mál til umfjöllunar hafi það í flimtingum að hann ætti kannski að bruna yfir á rauðu ljósi, verða manni að bana og sýna hversu lítið yrði gert í því. Á íslandi ríkir góðæri glæpamanna, alltént ef þeir fremja nógu stóran glæp. Mér er sama um það þó fólk sé fyrir lífstíð stimplað þótt það losni út úr fangelsi og líf þeirra verði af þessum verknaði og dómi mótað það sem eftir er, þegar menn eru sekir af þessum glæp á hann að fylgja þeim! Fyrir brotaþola er ekki neitt líf til að lifa og fyrir aðstandendur hans er hver dagur þolraun.
Sá er eldurinn heitastur er á manni sjálfum brennur og því kannski ekki að furða að litla samfélagið vestfirðir sé að vakna til vitundar um þetta einmitt núna. Það er ekki aðeins fyrir bræði í garð ódæðismanna af þessum toga heldur einnig, og kannski ekki síður, fyrir hluttekningu í garð aðstandenda sem við sjáum á götu tilsýndar.
Þó þetta tiltekna mál sé að vekja umtal í dag er það bara ekkert einsdæmi, þetta er svo sorglega algengt. Menn eru að rekast á morðingja feður sinna, vina og vandamanna á götuhornum um allt land. Svo ég minnist ekki einu sinni á svívirta minningu þess sem fallinn er þá spyr ég; hvaða réttlæti er það fyrir þann sem eftir stendur að mega sitja með hendur í skauti og horfa á menn hlæja að því hvað það var auðvelt að komast upp með þetta á meðan þeir halda áfram að feta braut glæpa og miskunnarleysis? Af hverju er þeim sýnd slík miskunn sem þeir eru svo með engu móti reiðubúnir að tileinka sér?
Ég er sammála því að tönn fyrir tönn skilar sennilega ekki bættu samfélagi en er þá rétt að snúa því upp í bros fyrir tönn, klappa glæpamönnum á bakið og segja “æ góði, gættu þess að gera þetta ekki aftur”?
Nú fer mér að hitna í hamsi svo það er vissara að ég hætti áður en ég fer að missa undan mér fæturna og hlaupa áfram í blindandi bræði.