mánudagur, nóvember 01, 2004

Ég er að koma heim...


Ég ætla að skella mér heim í brúðkaupið hjá stóra bró... Ég elska skyndiákvarðanir!

Oj!!!

Það var maður sem snýtti sér fyrir aftan mig áðan! Hann gerði það á svo viðbjóðslegan hátt að ég bý núna yfir þessum upplýsingum - after eight ís bragðast jafn vel á leiðinni upp og á leiðinni niður!

Ég sit í tölvustofu fyrir fartölvur. Eins og ávallt sit ég hér ein með japönunum - það er eins og við séum eina fólkið í háskólanum sem hefur þörf fyrir fartölvurnar sínar. Ég sé mig knúna til að taka það fram að ég er ekki fordómafull - en ég þoli ekki þetta fólk (þá er ég að meina þennan hóp sem er að gera útaf við mig hérna). Þau eru með svo mikið af tækjum og tólum með sér sem öll gefa frá sér óþolandi hljóð. Við erum að tala um hyski sem veit ekki að það er hægt að setja allt á mute. Gemsarnir þeirra hringja með ógeðslegum hringingum, þegar þau fá sms bregður mér svo rosalega að ég missi hjartslátt, þegar þau skrifa sms heyrist sinfonía í hvert sinn sem þau ýta á hvern einasta takka. Þau eru líka mörg hver með svona drasl sem þau tengja í tölvuna sína og þau geta talað í - Á JAPÖNSKU, og þetta lið er ekki neitt að hafa fyrir því að hvísla. Ég get þolað þennan hávaða - hann pirrar mig en ég held sönsum. En hvað er með hávaðann í þessu drasli þegar þau koma með æti hingað niður. Smjatt- og söturhljóð eins og ekkert sem ég hef áður kynnst. Ég hef aldrei fyrirhitt þann krakkaskratta sem getur étið á jafn ógeðfelldan hátt og stelpudruslan sem er á næsta borði við mig. Ég held að þetta sé samsæri - þau vilja ekki hafa mig í "japönsku koníaksstofunni sinni" svo þau reyna allt. Þau lögðust jafnvel það lágt að spila út hor-trompinu. Að láta einhvern mann snýta sér yfir öxlina á mér er ekki eitthvað sem ég mun gleyma - nokkurn tíma! Það var með naumindum að ég næði upp á næstu hæð áður en viðbrögðin við því fóru að gusast út um samanherptan skoltinn á mér.

Ég ætla að flýja heim, í íslensku koníaksstofuna, þar sem hor er meðhöndlað á sama hátt og aðrir líkamsvessar - öll meðferð þess á heima á bak við luktar dyr.

Halló ég heiti Mæja Bet og ég er asni ...

Önnur Belfasthelgi að baki og það vel sannað að smábæjarblómið hún ég á ekki heima í stórborg. Eins og eitt og annað sem ég hef brallað um dagana (eða næturnar) þá eru alls ekki öll afrek þessarar helgar prenthæf - en ég allavega fór á kostum. Það vill þó svo heppilega til að alheimsmeistarinn í að ganga fram af fólki var á staðnum líka svo ég rígheld í vonina um að uppátæki mín séu rækilega falin í skugga Bella bró. Almáttugur hvað það léttir þó brún mína á þessari móralfylltu stundu að einblína á goðsögnina.

Um leið og Belli mætti til Belfast fórum við að Pöbba-rölt; ég, hann og tveir Rendall-bræður. Þetta var hreint ekki amalegt kvöld, endaði með ping-pong einvígi milli Bella og Kyle sem var svo æsispennandi að ég sofnaði yfir því.

Á laugardeginum var fótboltaleikur. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð - hvílík hörmung. Þeir voru svo lélegir að ég og Belli grétum úr hlátri, tjah... allavega þar til hann fór inn á síðustu 10 mínúturnar þá grét hann vegna nálægðar sinnar við dauðann! Þetta var stórkostlegt tap og því enginn vafi á því að kvöldið yrði áhugavert.

Þá var haldið á bar-crawl. Ég ætla ekki að kvarta, þetta var fantafínt. Frábært lið þarna og meistarinn að sjálfsögðu að fara á kostum í kjaftinum. Hann vildi finna einhvern til að hræða líftóruna úr og gerði það eftirminnilega... Við flökkuðum á milli staða og á hverjum stað tók við ný uppákoma. Það sem stendur upp úr núna eru reyndar axarsköft mín og einn viðbjóðsgamlingi sem ég var svo heppin að fá að kynnast;

Ég sat hjá barnum, til allrar hamingju með stóra bróður mér við hlið, þegar ég kom auga á mann á sextugsaldri sem var að glápa á mig, þegar ég leit upp blikkaði hann mig og ég fann hvernig mallakúturinn snérist við innan í mér. Ég ákvað að skreppa á klósettið. Þegar ég kom til baka beið mín sú dásamlega óvænta ánægja að Belli var kominn á spjall við gamla svínið. - Mikið sá ég eftir því eftir á að hafa spurt Bella um hvað þeir voru að ræða. Svo ég stikli á stóru þá var kallinn að spyrja hvað hann væri að gera með stelpunni með stóru brjóstin, svo fór hann út í grófar lýsingar á því hvað væri hægt að gera við svona júllur og hvað hann gæti hugsað sér að vera í hans sporum. Þá loksins setti belli upp reiða svipinn og sagði að ég væri litla systir hans. Það dugði honum til að þagga niður í kalli og sleppa frá honum. Því miður kom það mér ekki svo vel því viðbjóðurinn króaði mig af seinna meir. Ég hef nú orð á mér fyrir að tala ekki undir rós en þetta svín gekk svo fram af mér að mótorinn í kjaftinum á mér steindrap á sér. Þá vitum við það að móteitur sem virkar á minn kjaft er gamalt, feitt svín sem reynir að kaupa mig til að gera viðbjóðslega hluti við sig með perlufestinni minni.

Hvað um það - við fórum bara út af þessum stað og héldum á að flakka. Eftir nokkra staði og þúsund bjórkollur var stóri bróðir orðinn þreyttur. Hann var því fegin þegar það var loksins haldið á local-staðinn, fór inn, tók einn hring og heimtaði svo að fara heim.

Þegar Belli og Kyle, tengiliðir mínir við svefnstað minn, voru farnir tókst mér að verða viðskila við alla sem Kyle hafði skilið eftir í því ábyrgðarhlutverki að passa mig. Ég vafraði um stræti Belfastborgar með saklausa smábæjarbrosið mitt og leitaði að leigubíl. Í fyrsta sinn síðan ég kom út voru þeir ekkert að þvælast fyrir mér svo ég álpaðist inn í "black taxi" sem ég Belfast lingo fyrir BIG NO NO. Ég var að sjálfsögðu ekki með heimilisfangið á tæru og svo sannarlega engar líkur á að ég rataði þangað en ég hafði götuheiti og ákvað að þreifa mig svo áfram þaðan. "Take me to mill road" - fyrst þurfti maðurinn að tala í símann í fimm mínútur til að fá leiðbeiningar að þessari götu svo sat ég í taxanum í heila eilífð á meðan hann keyrði lengst út í rassgat og smábæjarglottið mitt tók að stirðna all verulega. Þegar við komum á Mill road vaknaði ég upp við þann vonda draum að það eru víst tvær götur í Belfast með þessu nafni - hvaða djók er það? ég vildi að sjálfsögðu hina. Þá hringdi ég í Kyle og bað um leiðbeiningar - mér var ekki fagnað! Þegar glottandi bílstjórinn var búinn að skila mér símanum og segja mér að "vinur" minn væri ekki glaður þá hringdi síminn. Það var frúin sjálf að hringja í miðju taugaáfalli. Ég róaði hana eitthvað niður eða hræddi meira, ég er ekki viss en hún allavega þagnaði. Það var þó ekki þegjandi kona sem tók á móti mér þegar ég loksins renndi í rétt hlað. Og sunnudeginum var ekki eytt í þögn þar sem ég var tekin á tal af öllum heimilismeðlimum og jafnvel örlítið tekin á teppið.

En sei sei, þetta reddast og mér var fylgt úr hlaði með þeim orðum að ég ætti enn þarna annað heimili - ég þyrfti bara að læra heimilisfangið betur.