mánudagur, febrúar 07, 2005

Það er dásamlegt að ferðast

Jú jú. Síðasta helgi var hreint út sagt frábær. Byrjaði með stórmögnuðu föstudagskvöldi þar sem ég fékk vonandi ekki forsmekkinn af því sem verða vill um páskana því það verður að segjast eins og er að stelpurnar mínar voru ekkert allt of auðveldar viðureignar. Nema að sjálfsögðu Dibban sem svaf svefni hinna réttlátu löngu áður en ég mætti á svæðið til þeirra. Það er skemmst frá því að segja að ég gafst upp á að reyna að draga prinsessurnar heim um sexleitið, en þá snéri ég heim með Hlölla mér í hönd og átti spjall við Sigurbjörgu sem var þá vöknuð upp frá mókinu.

Á laugardeginum þurfti ég svo að mæta í þetta blessaða flug til London. Viti menn, það var ekki alslæmt. Ég sofnaði áður en vélin fór í loftið og missti því að þeim hluta flugferðarinnar sem er vænlegastur til að græta mig. Ég rumskaði aðeins til að breiða úr mér yfir þrjú sæti og hjúfra mig undir teppi og svaf þannig þar til ein flugfreyjan fór að hrista mig rétt fyrir lendingu.

Það var furðu lítið stress á mér á Standsted og var ég næstum því ekkert eins og uppvakningur þegar ég boraði mér inn í þvögu sveittra fótboltabulla sem allar voru á leið í sömu vél og ég. Frábært. Ekki nóg með að ég væri að fara að fljúga heldur þurfti ég að sitja á milli tveggja vel ölvaðra manna sem skiptust á kommentum um flugfreyjurnar og tútturnar mína alla leiðina yfir til Belfast. Og af því ég minntist nú á þessar elskur - flugfreyjurnar. Á hverju voru þær? Þær voru allar svo kex ruglaðar og samstíga í að hræða úr mér líftóruna að ég gat ekki annað en eytt ferðinni í móðursýkislegu hláturskasti sem enginn getur ímyndað sér nema hann hafi verið nærri mér þegar mér bregður verulega.

Ég komst nú samt nokkuð skammarlaust yfir á millilandaflugvöllinn í Belfast þaðan sem ég tók taxa yfir á lestastöðina í Antrum. Nú átti eftirleikurinn að vera einfaldur - en nei. Síðasta lestin hafði farið frá brautarstöðinni klukkutíma áður en ég mætti á svæðið. Þarna var ég, alein á laugardagskvöldi í mígandi rigningu í einhverjum bæ sem er víst bara einhver rottuhola. Ég var úrræðalaus. Hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti reddað mér þarna á milli og fann ekki eina einustu auglýsingu fyrir taxa. GLÆSILEGT. Ég ákvað, eftir að hafa haldið ró minni í klukkutíma, að draga töskuna mína út á götu og setjast þar niður og sjá hvað gerðist ef ég bara léti mig rigna í hel. Viti menn, það virkaði. Kom ekki aðvífandi eitt stykki taxi með síðasta herramann veraldar innanborðs. Hann keyrði mig alla leið heim að dyrum og bar meira að segja töskuna upp tröppurnar mínar.

Vá, hvað það hefði verið gott að skríða beint í koju en svínin sem ég bý með gerðu mér það nú alveg ómögulegt. Að sjálfsögðu var íbúðin tekin að tekin að rotna svo á móti mér tók einhvern sá agalegasti óþefur sem ég hef komist í tæri við. Því tók þessi þreytta Mæsa upp tusku og þreif áður en hún sveif, algerlega uppgefin, inn í draumalandið.